Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 625. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1009  —  625. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2002.

I. Inngangur.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi hinn 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna landanna og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis-, auðlinda- og samgöngumál, aukið menningarsamstarf og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir og getur auk þess skipað vinnunefndir um tiltekin mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

II. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi árs 2002 skipuðu Íslandsdeildina eftirtaldir þingmenn: Einar Oddur Kristjánsson formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Svanfríður Jónasdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Einar K. Guðfinnsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Gunnar Birgisson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðjón A. Kristjánsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Hinn 1. október 2002 voru þingmennirnir endurkjörnir til setu í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Á fyrsta fundi Íslandsdeildar hinn 4. október var Einar Oddur Kristjánsson endurkjörinn formaður og Hjálmar Árnason varaformaður.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir gegndi starfi ritara Íslandsdeildar.

III. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fimm fundi á árinu. Í lok árs 2001 var athygli Íslandsdeildar vakin á bágbornu ástandi bæjar Eiríks rauða og Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð á Grænlandi, en Vestnorræna ráðið hafði á sínum tíma frumkvæði að því að byggingarnar voru reistar og gefnar Grænlendingum. Formaður Íslandsdeildar kallaði í byrjun árs 2002 nokkra sérfræðinga á sinn fund til að fara yfir stöðu mála og gera tillögur að úrbótum. Íslandsdeild vakti athygli stjórnvalda á málinu og benti á álit sérfræðinga í málinu. Málið er nú í farsælum farvegi og byggingarnar í mun betra ástandi en upphaflega var talið.
    Íslandsdeild fjallaði einnig um nauðsyn þess að betrumbæta reglurnar um barnabókaverðlaun ráðsins, gera þær skýrari og markvissari, og útbjó tillögur þar að lútandi. Bent var á nauðsyn þess að dómnefndarmenn fengju borgað fyrir störf sín en upphaflega hafði ekki verið gert ráð fyrir slíku, lagt var til að dómnefnd lyki störfum fyrr og að úrslit samkeppninnar lægju fyrir a.m.k. mánuði fyrir ársfund. Einnig var borin upp sú tillaga að tilkynna ætti um úrslit þónokkru áður en verðlaunaafhending fer fram, líkt og gert er með bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild lagði áherslu á undirbúning heima fyrir fyrir þemaráðstefnu ráðsins um samgöngumál sem haldin var í Þórshöfn um miðjan júní sl. Efnt var til sérstaks fundar með fulltrúum samgönguráðuneytis, Ferðamálaráðs, Flugleiða og Flugfélags Íslands til að vinna að tillögum til úrbóta sem hægt væri að kynna á þemaráðstefnunni. Líflegar umræður sköpuðust um stöðu samgangna á Vestur-Norðurlöndum, helstu sóknarfæri og hindranir og Íslandsdeild ítrekaði mikilvægi þess að allir aðilar kæmu með tillögur til úrbóta.
    Íslandsdeild fagnaði formlegri undirskrift vestnorrænu samstarfsráðherranna undir sérstaka samstarfsyfirlýsingu í Reykjavík í apríl sl. Eins og Íslandsdeild gerði grein fyrir í skýrslu ársins 2001 hefur það verið sérstakt metnaðarmál deildarinnar að kannað yrði hvernig staðið hefur verið að framkvæmd ályktana ráðsins frá fyrri árum. Með samstarfsyfirlýsingunni skuldbundu samstarfsráðherrar sig til að gefa árlega skýrslu um stöðu ályktana ráðsins.
Íslandsdeild hefur á fundum sínum einnig fjallað nokkuð um fjárhag ráðsins og er skemmst frá því að segja að það var mat Íslandsdeildar að of miklu fjármagni ráðsins væri eytt í utanlandsferðir á alþjóðlega fundi á kostnað innra samstarfs vestnorrænu landanna. Íslandsdeild útbjó því tillögur um meiri sparnað innan ráðsins og áherslubreytingar í fjárhagsáætlunum, sem samþykktar voru á ársfundi.

IV. Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins.
    Afhending Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins fór fram í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn hinn 17. ágúst á Stykkishólmi í tengslum við ársfund ráðsins. Verðlaunin hlaut Andri Snær Magnason fyrir bók sína Sagan af bláa hnettinum. Markmiðið með verðlaununum er að styðja við bókmenntahefð Vestur-Norðurlanda og hvetja barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu. Þær bækur sem hljóta tilnefningu eru á vegum menntamálaráðuneyta landanna þýddar á vestnorrænu málin og skandinavísku og gert er ráð fyrir því að bækurnar komi að gagni í fræðslustarfi landanna. Verðlaunin eru að upphæð 60.000 danskar krónur og verða veitt annað hvert ár.

V. Vestnorræna veiðimenningarsýningin.
    Í Norræna húsinu í Þórshöfn 15. júní sl. opnaði Hjálmar Árnason sem formaður Vestnorræna ráðsins sérstaka farandsýningu um veiðimenningu vestnorrænu landanna. Þingmenn Vestnorræna ráðsins áttu frumkvæði að sýningunni þegar ákveðið var að þemaráðstefna ársins 2001 skyldi fjalla um vestnorræna veiðimenningu fyrr og nú. Sýningin var unnin af samtökum norrænu húsanna en forstöðumenn þeirra höfðu náið samráð við Vestnorræna ráðið á meðan á undirbúningi sýningarinnar stóð. Hlaut veiðimenningarsýningin myndarlega fjárstyrki frá vestnorrænu þjóðþingunum þremur og Norræna menningarsjóðnum.
    Sýningin þótti afar glæsileg og bera einstæðri veiðimannahefð landanna þriggja vitni. Frá opnun sýningarinnar í Þórshöfn hefur hún verið sett upp á Hjaltlandseyjum, í Dyflinni og í Reykjavík og nú síðast á Akureyri. Áformað er að sýningin verði enn fremur sett upp í Stokkhólmi, Nuuk, Nýfundnalandi og Kaupmannahöfn og ef til vill fleiri stöðum.

VI. Þemaráðstefna um samgöngur.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um samgöngur var haldin í Þórshöfn í Færeyjum dagana 13.–14. júní. Á ráðstefnunni var sjónum beint að mismunandi þáttum í samgöngumálum Vestur-Norðurlanda og leitað var leiða til bættra tengsla landanna á millum. Samhliða ráðstefnunni var vestnorræna veiðimenningarsýningin sem greint er frá að framan opnuð í Norræna húsinu í Þórshöfn. Fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sátu ráðstefnuna Einar Oddur Kristjánsson formaður Íslandsdeildar, Hjálmar Árnason varaformaður, Kjartan Ólafsson, Svanfríður Jónasdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir og Gísli S. Einarsson, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur ritara.
    Hjálmar Árnason, formaður Vestnorræna ráðsins, setti ráðstefnuna og vakti athygli á hversu náið og mikið samstarf löndin þrjú eiga á ólíkum sviðum. Grundvallarforsenda þess að samstarf landanna styrktist enn frekar væri hins vegar sú að samgöngur landanna á millum væru tíðar, áreiðanlegar og ódýrar. Þegnar ríkjanna ættu að geta ferðast auðveldlega til sinna nánustu nágranna enda vegalengdirnar stuttar, auk þess sem sameiginleg ferðaþjónusta ríkjanna ætti að geta styrkt stöðu þeirra sem alþjóðlegs áfangastaðar. Vandamálið væri hins vegar að það er erfitt að byggja upp samgangnakerfi á jafndreifbýlu og stóru svæði. Um 400.000 manns byggju á vestnorræna svæðinu sem samsvarar næstum því meginlandi Evrópu að stærð.
    Samgönguráðherra Færeyja, Bjarni Djurholm, og fulltrúar grænlenska og íslenska samgönguráðuneytisins ítrekuðu stuðning sinn við frekari úrbætur og sögðu yfirvöld tilbúin að hlúa að betra samstarfi landanna þriggja á þessu sviði. Mikla vinnu þyrfti hins vegar að leggja í þennan málaflokk og þar þyrftu margir aðilar, bæði frá hinu opinbera og úr einkageiranum, að koma til. Djurholm tók þó skýrt fram að færeyska landsstjórnin gæti aðeins komið að því að bæta almennar rekstraraðstæður með lagabreytingum o.s.frv. Niðurgreiðslur eða beinir fjárstyrkir til farþegaflugs kæmu ekki til greina. Djurholm sagðist viss um að samkeppni á milli flugfélaga sem fljúga til og frá Færeyjum hefði gagnast færeyskum flugfarþegum, tíðni flugferða væri meiri en áður, farmiðaverð lægra og þjónusta betri. Jens K. Lyberth frá grænlenska samgönguráðuneytinu tók undir það að flugsamgöngur á vestnorræna svæðinu yrðu að bera sig rekstrarlega og að í framtíðinni mundi ráðuneytið íhuga möguleikann á að bjóða út flugrekstrarleyfi svo að fleiri en einn rekstraraðili gæti boðið í leyfin. Hann lýsti hins vegar efasemdum um að opin samkeppni mundi leysa nokkur vandamál.
    Forstöðumenn flugfélaga á Vestur-Norðurlöndum, Magni Arge, Jón Karl Ólafsson og Hans Peter Hansen, lýstu bæði árangri og erfiðleikum við flugsamgöngur í svo dreifbýlum löndum. Í máli þeirra kom fram að mikið hefur áunnist í samgöngum milli Færeyja og Íslands og er þjónusta nú betri og meiri en nokkru sinni áður. Eftirspurn eftir flugi á milli Færeyja og Íslands hefur einnig aukist og fer vaxandi. Arge og Jón Karl sögðu þetta fyrst og fremst vera nánu og góðu samstarfi flugfélaganna að þakka, en slíkt væri ófrávíkjanlegur grundvöllur þess að tíðar flugsamgöngur gætu borið sig á Vestur-Norðurlöndum. Flugsamgöngur til Grænlands væru hins vegar mun erfiðari viðfangs í núverandi starfsumhverfi, og þar kæmi ýmislegt til, m.a. minna og stopulla samstarf og úrelt lagaumhverfi sem einkenndist af viðskiptalegum höftum. Þeir ítrekuðu að ákveðinna breytinga væri þörf í lagalegu og pólitísku umhverfi vestnorrænu landanna til að tryggja betri flugsamgöngur, og lýstu sig jafnframt tilbúna til að vinna að tillögum til úrbóta. Jón Karl hvatti til þess að yfirvöld tryggðu fullt frelsi í flugsamgöngum á Vestur-Norðurlöndum, það mundi gera allan rekstur léttari og vera hvatning til aukinna flugsamgangna á svæðinu.
    Í máli Jóns Karls og Magni Arge kom fram að greinarmun yrði að gera á óskum um eftirspurn og raunverulegum rekstrargrundvelli fyrir flugsamgöngur á milli Vestur-Norðurlanda. Oft væri það þannig að stjórnmálamenn og aðrir aðilar þrýstu mjög á opnun samgönguleiða sem síðan reyndist ekki næg eftirspurn eftir á meðal farþega. Ýmislegt væri þó hægt að gera til að skapa eftirspurn og miðaverð væri mikilvægt í því sambandi. Stjórnvöldum væri í lófa lagið að treysta flug á erfiðum flugleiðum á vestnorræna svæðinu án beinna styrkja eða niðurgreiðslna. Það væri til dæmis hægt með lægri flugvallarsköttum og lendingargjöldum sem strax mundi skila sér í lægra farmiðaverði.
    Í lok ráðstefnunnar var svo komið að skipasamgöngum, en sem kunnugt er hefur farþegaskipið Norræna í mörg ár verið mikilvægur tengiliður Færeyja og Íslands. Thomas Arabo, einn stofnenda Norrænu og stjórnarformaður í Smyrli, lýsti sögu og uppgangi skipasamgangna landanna á milli. Hann sagði einkar ánægjulegt að á næsta ári kæmist í gagnið langtum stærri og betri Norræna, sem mundi þjóna þegnum Vestur-Norðurlanda enn betur en hingað til. Fyrirspurn kom um hvort ekki væri hægt að nýta Norrænu í að sigla lengra til vesturs og ná þannig til ferðamanna í Kanada og Bandaríkjunum. Arabo sagði slíkt ekki vera á döfinni en hugmyndin væri verð umhugsunar. Í lok ráðstefnunnar var borið lof á góð og efnismikil erindi, og var því sérstaklega fagnað að forstöðumenn flugfélaganna buðust til að vinna að frekari tillögum á næstu vikum. Forstöðumaður NORA sagði sjóðinn vera tilbúinn til að leggja sitt af mörkum fjárhagslega við slík verkefni, enda væri fátt mikilvægara fyrir Vestur-Norðurlönd heldur en kröftugri samgöngur við umheiminn.

VII. Ársfundur Vestnorræna ráðsins.
    Ársfundur Vestnorræna ráðsins fór fram í Stykkishólmi dagana 17.–18. ágúst 2002. Fundinn sátu fyrir hönd Íslandsdeildar þau Einar Oddur Kristjánsson formaður, Hjálmar Árnason varaformaður, Guðmundur Hallvarðsson, Svanfríður Jónasdóttir, Kjartan Ólafsson, Gísli S. Einarsson og Gunnar Birgisson, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, ritara Íslandsdeildar, og Stígs Stefánssonar alþjóðaritara.
    Í upphafi var haldinn fundur í forsætisnefnd sem Hjálmar Árnason, fráfarandi formaður Vestnorræna ráðsins, sótti ásamt ritara. Auk þess að ganga frá atriðum eins og endanlegri fundardagskrá, fundarsköpum og þátttökulista ársfundar var rætt um fjárhagsáætlun ráðsins fyrir árið 2003 sem og aðrar tillögur sem lágu fyrir ársfundinum. Í umræðu um fjárhagsáætlun lagði Hjálmar Árnason áherslu á þá skoðun Íslandsdeildar að ná mætti fram sparnaði í rekstri ráðsins, og þá sérstaklega á ferðakostnaði til að sækja ráðstefnur og fundi utan vestnorræna svæðisins. Samþykkti forsætisnefnd að draga úr slíkum ferðum og lækka tillögu að fjárhagsáætlun um 80.000 danskar krónur.
    Í umræðu forsætisnefndar um tillögur sem lágu fyrir ársfundinum lagði Hjálmar fram fjórar tillögur fyrir hönd Íslandsdeildar. Sú fyrsta var tillaga að innri ákvörðun ráðsins um að forsætisnefnd yrði falið að gera úttekt á starfsemi ráðsins og skila skýrslu á næsta ársfundi sem fram færi í Færeyjum 14.–16. ágúst 2003. Í greinargerð með tillögunni kom fram að ýmsu væri ábótavant í starfsreglum og starfsháttum ráðsins og því væri þörf á því að taka reglurnar til endurskoðunar. Enn fremur væri rík nauðsyn á að meta að hversu miklu leyti bæri að leggja áherslu á tímafrekt og dýrt alþjóðastarf á kostnað kjarnastarfsemi ráðsins, þ.e. samstarfs innan vestnorræna svæðisins. Önnur tillaga að innri ákvörðun var sú að hver landsdeild Vestnorræna ráðsins skyldi árlega halda fund með viðkomandi þingforseta og veita þar upplýsingar um starfsemi ráðsins og tilmæli síðasta ársfundar. Þriðja tillagan að innri ákvörðun fól í sér að forsætisnefnd skyldi kanna hvort grundvöllur væri fyrir tilmælum varðandi skipulag sjóða á vestnorræna sviðinu með það fyrir augum hvort hagræðing næðist fram við sameiningu þeirra og hvernig mætti kynna þá betur. Fjórða tillaga Íslandsdeildar voru tilmæli til NORA um að láta gera hagkvæmnisathugun á mögulegum ferjusiglingum á milli Norður-Ameríku og vestnorrænu landanna. Fimmta tillagan var beiðni til NORA um að kanna möguleika á að koma á vestnorrænni tónlistarhátíð og stofna miðstöð fyrir útflutning á vestnorrænni tónlist þar sem Íslendingar gætu miðlað reynslu sinni til Færeyinga og Grænlendinga. Ekki komu fram neinar tillögur frá landsdeildum Færeyja og Grænlands og samþykkti forsætisnefnd að gera allar tillögur Íslandsdeildar að sínum og leggja fyrir ársfundinn.
    Ársfundur Vestnorræna ráðsins hófst á því að Hjálmar Árnason, fráfarandi formaður ráðsins, flutti skýrslu sína um starfsemi ársins. Fagnaði hann sérstaklega opnun vestnorrænnar veiðimenningarsýningar sem Norrænu húsin skipulögðu og settu upp að frumkvæði Vestnorræna ráðsins. Enn fremur lýsti Hjálmar ánægju sinni með þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um samgöngumál sem haldin var í Þórshöfn í Færeyjum 13.–14. júlí. Þá ræddi Hjálmar tengsl Vestnorræna ráðsins við Norðurlandaráð og nefndi að á sameiginlegum fundi forsætisnefnda Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs í Reykjavík í apríl hefði Norðurlandaráði verið boðin þátttaka í þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um heilbrigðismál sem fram færi á Grænlandi árið 2003. Í apríl var einnig undirrituð samstarfsyfirlýsing samstarfsráðherra Vestur-Norðurlanda og Vestnorræna ráðsins sem meðal annars fól í sér að samstarfsráðherrarnir legðu árlega fram skýrslu um framkvæmd tilmæla ráðsins. Hjálmar kynnti lauslega tillögurnar sem lágu fyrir ársfundinum og lagði áherslu á að ráðið yrði að reyna að bæta skilyrði fyrir grasrótarsamstarfi á milli landanna, til að mynda íþrótta- og menningarsamstarfi og vinabæjatengslum. Í því sambandi yrði að kanna hvort ekki ætti að beina meira af takmörkuðum fjárráðum Vestnorræna ráðsins í innra samstarf á vestnorræna svæðinu í stað alþjóðastarfs sem hefur aukist mikið í starfi ráðsins.
    Formenn landsdeildanna fluttu því næst skýrslur sínar og greindi Einar Oddur Kristjánsson frá starfi Íslandsdeildar. Einar Oddur gerði tillöguna um úttekt á starfsemi Vestnorræna ráðsins að sérstöku umræðuefni og sagði það geta styrkt ráðið til muna að endurskoða starfsreglur og starfshætti þess. Aukin forgangsröðun og skilgreining á markmiðum ráðsins mundi enn fremur gera starf þess markvissara enda hefði ráðið úr takmörkuðum fjárráðum að spila.
    Í kjöri til forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins var Færeyingurinn Jógvan á Lakjuni kosinn formaður, Daniel Skifte frá Grænlandi varaformaður og Hjálmar Árnason annar varaformaður. Í ræðu nýs formanns kom m.a. fram að Vestnorræna ráðið mun sérstaklega láta heilbrigðismálin til sín taka á nýju starfsári og að í þeim málaflokki yrði samstarfs m.a. leitað við þingmannanefnd um norðurskautsmál og Norðurlandaráð. Þá yrði dreginn lærdómur af framkvæmd og veitingu fyrstu barna- og unglingabókaverðlauna ráðsins og þau styrkt í sessi og átak yrði gert í upplýsingamálum ráðsins. Sagði hann jafnframt að í alþjóðastarfi bæri að vinna með þeim alþjóðasamtökum og stofnunum á norðurslóðum þar sem hagsmunir fara saman við hagsmuni Vestnorræna ráðsins. Í lok fundarins hélt dr. Grétar Þór Eyþórsson, framkvæmdastjóri Byggðarannsóknastofnunar Íslands, Háskólanum á Akureyri, erindi um byggðaþróun á Vestur-Norðurlöndum. Miklar umræður spunnust um byggðamál að erindinu loknu og svaraði Grétar Þór fyrirspurnum fundarmanna.
    Allar tillögur ársfundarins sem getið var um hér að framan voru samþykktar samhljóða á ársfundinum. Ákveðið var að þema starfsársins 2004 yrði orka og mun þá haldin þemaráðstefna um orkumál á Íslandi.

VIII.    Fundir forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í tengslum við Norðurlandaráðsþing.
    Auk þess að halda fundi í tengslum við þemaráðstefnu og ársfund Vestnorræna ráðsins hélt forsætisnefnd fund hinn 29. október í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Helsinki. Forsætisnefnd hélt einnig fundi með vestnorrænu samstarfsráðherrunum og forstöðumönnum Norrænu húsanna 29. og 30. október.
    Á fundi forsætisnefndar var m.a. rætt um fyrirhugaða þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um heilbrigðismál og kom fram að hún verður haldin í Ilulissat um miðjan júní 2003. Hjálmar Árnason lagði til að fundinn yrði einn tengiliður í heilbrigðisráðuneyti hvers lands til að tryggja að faglegt innihald ráðstefnunnar yrði í takt við þær þarfir sem eru í löndunum. Á fundinum voru fjarlækningar, starfsmannamál, almennt samstarf og menntun heilbrigðisstétta nefnd sem hugsanleg umfjöllunarefni á ráðstefnunni og ákveðið var að ráðstefnan myndi fjalla um fá og vel afmörkuð málefni. Þá var á fundinum rætt um Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin og mælti forsætisnefnd með breytingum á reglum verðlaunanna og að sérstakt merki yrði hannað fyrir þau. Enn fremur var rætt um úttektina á starfsemi ráðsins samkvæmt samþykkt ársfundar og var ákveðið að hver landsdeild mundi skila inn athugasemdum til forsætisnefndar. Þá tilkynntu Færeyingar að ársfundurinn 2003 færi fram á Eiði í ágúst.
    Á fundi forsætisnefndar með samstarfsráðherrunum Siv Friðleifsdóttur og Høgni Hoydal lögðu ráðherrarnir m.a. til að ársfundir Vestnorræna ráðsins tækju skýrslu ráðherranna um eftirfylgni tilmæla til umræðu. Siv greindi frá því að Norræna ráðherranefndin hefði komið á fót embættisnefnd til að gera úttekt á Vestur-Norðurlöndum innan norræna samstarfsins. Þá greindi forsætisnefnd ráðherrunum frá starfsemi og áherslum Vestnorræna ráðsins. Ráðherrarnir báðu ráðið að gæta að hvernig starfsemi ráðsins færi saman við starfsemi annarra stofnana til þess að forðast tvíverknað.
    Helsta umræðuefnið á fundi forsætisnefndar og forstöðumanna Norrænu húsanna var vestnorræna veiðimenningarsýningin. Fram kom að áhugi á sýningunni væri mikill og að verið væri að kanna hvort senda mætti hana víðar en áætlað var í fyrstu. Sýningin gæti aukið þekkingu og skilning á vestnorrænum aðstæðum utan svæðisins og töldu forstöðumennirnir mikilvægt að nýta þann möguleika. Forsætisnefnd benti forstöðumönnunum á að sækja um styrki til sjávarútvegsfyrirtækja og að ef til vill gæti NORA hjálpað til við markaðssetningu sýningarinnar.

IX.    Yfirlit yfir ákvarðanir sem Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundi sínum í Stykkishólmi 17.–18. ágúst 2002.
    Innri ákvarðanir ráðsins:
     *      Að forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins geri úttekt á starfsemi ráðsins sem m.a. feli í sér endurmat á starfsreglum, efnahagsreglum og alþjóðastarfi.
     *      Að landsdeildir Vestnorræna ráðsins haldi árlega fundi með þingforsetum sínum um starfsemi ráðsins og ályktanir síðasta ársfundar.
     *      Að forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins kanni hvort grundvöllur sé fyrir því að ráðið sendi frá sér ályktun varðandi skipulag vestnorrænna sjóða með það fyrir augum hvort mögulegt sé að sameina sjóðina og/eða gera upplýsingar um þá aðgengilegri og gegnsærri.
    Tilmæli ráðsins til NORA:
     *      Að hvetja NORA til þess að kanna hvort grundvöllur sé fyrir ferjusiglingum milli Bandaríkjanna/Kanada og Grænlands/Íslands/Færeyja.
     *      Að hvetja NORA til þess að kanna möguleika á því að koma á fót vestnorrænni tónlistarhátíð og grundvöll þess að koma á vestnorrænni tónlistarmiðstöð, „hit fabrik“, í Reykjavík.

Alþingi, 19. febr. 2003.



Einar Oddur Kristjánsson,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.


Guðmundur Hallvarðsson.



Gísli S. Einarsson.


Svanfríður Jónasdóttir.


Kjartan Ólafsson.