Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 626. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1010  —  626. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2002.

Inngangur.
    Aðild að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE), eiga 55 ríki Evrópu og Norður-Ameríku. Stofnunin starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar.
    Undanfarin ár og missiri hefur framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu, friðargæsluverkefni í Kosovo-héraði, uppbyggingarverkefni í Serbíu og Svartfjallalandi og verkefni í Mið-Asíulýðveldunum verið langveigamestu verkefni ÖSE, en á þessum stöðum hefur stofnuninni verið falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, fylgjast með mannréttindamálum, byggja upp réttarkerfi og frjálsa fjölmiðla og aðstoða við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar. Þá hefur ÖSE tekið virkan þátt í framkvæmd stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu sem tók gildi 10. júní 1999 og ÖSE á aðild að, einkum þeim hluta framkvæmdar sáttmálans er snýr að mannréttindum og lýðræðisþróun en jafnframt í öryggismálahlutanum. Umsvif ÖSE í Kosovo- héraði eru afar fyrirferðarmikil í starfi stofnunarinnar en hlutverk ÖSE þar hefur aðallega miðast að lýðræðisþróun, góðri stjórnsýslu, framkvæmd kosninga og kosningaeftirliti, og stuðningi við frjálsa fjölmiðla. Af öðrum verkefnum bar kosningaeftirlit að venju hæst í starfi ÖSE-þingsins á árinu.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur beitt sér af fullum þunga í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Á níunda ráðherrafundi ÖSE sem efnt var til í Búkarest í desember 2001 samþykkti ráðherraráðið víðfeðma áætlun um baráttu gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sem nefnd er Búkarest-áætlunin. Í Búkarest-áætluninni er hryðjuverkastarfsemi skilgreind sem ógn við alþjóðlegan frið og öryggi, jafnt á ÖSE-svæðinu sem annars staðar í veröldinni. Er því lýst yfir að ÖSE sé reiðubúið að leggja sitt af mörkum í hinni alþjóðlegu baráttu, í náinni samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir. ÖSE hefur starfað ötullega að þessum málum á síðasta starfsári og hefur ÖSE-þingið lagt sín lóð á þær vogarskálar í störfum sínu. Þema ársfundarins sem haldinn var í Berlín í júlí var hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi og hlutverk ÖSE. Þessi mál voru rædd í öllum málefnanefndum þingsins og ályktað um þau í lokayfirlýsingu ársfundarins, Berlínar-yfirlýsingunni. Þá hefur hina alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum borið hátt í öðrum störfum þingsins.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Íslandsdeildin var skipuð sem hér segir árið 2002: Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformaður, og Guðjón Guðmundsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ísólfur Gylfi Pálmason, þingflokki Framsóknarflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar.
Starfsemi á árinu 2002.
a. Fundur stjórnarnefndar og málefnanefnda í Vínarborg.
    Dagana 21.–22. febrúar funduðu málefnanefndir ÖSE-þingsins og stjórnarnefnd þess í Vínarborg. Var það í fyrsta sinn sem fundir voru haldnir í öllum nefndum þingsins í Vínarborg en árið 2001 var ákveðið af stjórnarnefndinni að auka umfang hinna árlegu funda sem haldnir höfðu verið í febrúarmánuði og gefa öllum fulltrúum ÖSE-þingsins sem sæti ættu í málefnanefndum þingsins færi á að auka samskiptin við embættismenn ÖSE. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildarinnar Magnús Stefánsson formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður og Guðjón Guðmundsson, auk Andra Lútherssonar ritara.
    Fund stjórnarnefndarinnar, sem haldinn var 21. febrúar, ávörpuðu þeir Heinz Fischler, forseti austurríska þingsins, og Adrian Severin, forseti ÖSE-þingsins, sem sagði fundarmönnum frá störfum ÖSE-þingsins frá síðasta ársfundi þess í París. Sagði hann að eftir aukastjórnarnefndarfund í Portúgal á haustmánuðum 2001 hafi hann haldið í opinberar heimsóknir til Georgíu, Aserbaídsjan, Armeníu, Tadsjikistan, Úsbekistan, Túrkmenistan, Makedóníu, Búlgaríu og Noregs. Þá ræddi hann um fyrirhugaða ráðstefnu um baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi sem fara ætti fram í Pétursborg í mars og sagði mikilvægt að aðildarríki ÖSE sendu fulltrúa sína á ráðstefnuna. Eftir erindi Severins sagði gjaldkeri þingsins, Bandaríkjamaðurinn Jerry Grafstein, fulltrúum frá fjárhagsstöðu skrifstofu ÖSE-þingsins sem væri í afar góðu lagi. Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, sagði fundarmönnum frá undirbúningi ársfundarins sem færi mundi fram í Berlín í júlí og enn fremur undirbúningsferli að opnun tengslaskrifstofu ÖSE-þingsins í Vínarborg sem ætlað væri að efla tengsl þingsins og stofnunarinnar. Þá héldu þrír formenn undirnefnda ÖSE-þingsins framsögur. Bandaríkjamaðurinn Steny Hoyer, formaður sérlegrar nefndar um skilvirkni og gagnsæi, sagði fundarmönnum frá fundum nefndarinnar með embættismönnum í Búkarest og Washington og fyrirhuguðum fundi í Salzburg. Meginverkefni nefndarinnar er að auka vægi ályktana ÖSE-þingsins hjá ráðherraráðinu og að auka gagnsæi ákvörðunartöku þess. Sagði hann að nefndin hefði skilað frá sér vinnuskýrslu sem dreift hefði verið til landsdeilda og innihéldi þau meginatriði sem leysa beri úr á komandi missirum. Vonaðist Hoyer til þess að opnun tengslaskrifstofu ÖSE-þingsins í Vínarborg á þessu eða næsta ári mundi skila góðum árangri. Þá sagði þýski þingmaðurinn Uta Zapf frá störfum sérlegrar nefndar í málefnum Hvíta- Rússlands en nefndin hafði haldið á fund hvít-rússneskra valdhafa í Minsk stuttu áður. Að lokum tilkynnti Bruce George, formaður bresku landsdeildarinnar, að Bretar hygðust halda ársfund ÖSE-þingsins árið 2004 og var það samþykkt. Stjórnarnefndin samþykkti þrjár breytingar á þingsköpum ÖSE-þingsins. Breytingarnar tóku til framlagnar viðbótarbreytingartillagna og vinnulags við framlögn hefðbundinna breytingartillagna.
    Eftir stjórnarnefndarfundinn var efnt til sameiginlegs fundar allra málefnanefndanna. Fundinn ávörpuðu þeir Adrian Severin, forseti ÖSE-þingsins, Thomas Klestil, forseti Austurríkis, og Jaime Gama, utanríkisráðherra Portúgals sem fór með formennsku í ráðherraráði ÖSE. Severin sagði í ávarpi sínu að meginhlutverk vetrarfundanna í Vínarborg væri að auka skoðanaskipti þingmanna við embættismenn ÖSE og spyrja þá um eftirfylgni við ályktanir þingsins. Þá ræddi Severin um baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi og lagði áherslu á að sú barátta sem fram færi mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum verða til þess að lýðréttindi yrðu skert. Sagði hann að hlutverk þingmanna á ÖSE-þinginu væri ekki aðeins að beita sér fyrir hertari löggjöf á þjóðþingum sínum til að stemma stigu við hryðjuverkum heldur einnig að efla tengslin við mismunandi menningar- og trúarhópa. Klestil ræddi einnig um baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi og komu fram svipaðar áherslur í máli hans. Þá sagði hann að í takt við aukið umfang starfsemi ÖSE væri nauðsynlegt að efla lagalega stöðu stofnunarinnar svo að hún stæði jafnfætis alþjóðastofnunum. Jaime Gama, utanríkisráðherra Portúgals, sagði í ávarpi sínu að Portúgal hefði ákveðið að setja baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi á oddinn í formennskutíð sinni og vísaði til Búkarest-áætlunar ráðherraráðsins og Bishkek-áætlunarinnar máli sínu til stuðnings. Þá upplýsti hann að Jan Trojborg, fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, hefði verið skipaður sérlegur fulltrúi formanns ráðherraráðsins í baráttunni gegn hryðjuverkum. Gama ræddi um að eitt helsta hlutverk ÖSE á komandi tíð yrði að efla tengsl við mismunandi menningarsvæði sem væru í eða við jaðra álfunnar og að þingmannasamkundan gegndi afar mikilvægu hlutverki í því tilliti. Þá sagði Gama frá áhyggjum sínum vegna stöðu fjárlaga ÖSE, en síðustu vikur fyrir fundinn höfðu spurnir borist af því að Rússar kæmu í veg fyrir að fjárlögin væru afgreidd með því að hóta að beita neitunarvaldi. Ástæðan var sú að þeir töldu stofnunina beina sjónum sínum óþarflega mikið að verkefnum á hefðbundnu umráðasvæði Rússa. Taldi Gama að frekari tafir á afgreiðslunni kynnu að tefla starfsemi sendinefnda ÖSE víðs vegar um álfuna í tvísýnu. Þá áréttaði ráðherrann að málefni Balkanskaga yrðu áfram mikilvæg í starfsemi stofnunarinnar. Í umræðum sem á eftir fóru var m.a. rætt um fjárlög ÖSE þar sem fram kom að þingmenn töldu rétt að ÖSE-þingið yrði haft meira í ráðum við ákvörðun þeirra. Þá sögðu nokkrir þingmenn að ÖSE ætti að forðast að einskorða viðfangsefni sín um of við fyrrverandi ríki Sovétríkjanna.
    Efnt var til funda í einstökum málefnanefndum þingsins seinni part dags þess 21. febrúar. Í fyrstu nefnd (um stjórnmál og öryggismál) var farið yfir undirbúning fyrir ársfundinn í Berlín í júlí og sagði formaður nefndarinnar, Ungverjinn András Bársony, stuttlega frá því hvernig skýrsluhöfundar hygðust fjalla um þema ársfundarins, hlutverk ÖSE í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Tveir gestir héldu erindi á fundinum, þeir Joao de Lima Pimentel, fastafulltrúi Portúgals við ÖSE, og Pavel Vacek, formaður Ráðstefnu um öryggissamvinnu (FSU). Pimentel sagði nefndarmönnum stuttlega frá helstu verkefnum ÖSE á komandi starfsári og ræddi einnig um stöðuna sem upp hefði komið hvað fjárlög stofnunarinnar varðaði. Þá ræddi hann um hvað stofnunin tækist á hendur hvað baráttuna gegn hryðjuverkum varðaði og nefndi í fyrsta lagi að afar mikilvægt væri að aðildarríki ÖSE færu eftir samþykktum ráðherraráðsins sem fram kæmu í Búkarest-yfirlýsingunni frá desember 2001. Í öðru lagi áréttaði sendiherrann mikilvægi þess að ÖSE ætti samstarf við aðrar alþjóðastofnanir, í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og nefndi fyrirhugaðan fund framkvæmdastjóra alþjóðastofnana sem störfuðu á þessum vettvangi máli sínu til stuðnings. Pavel Vacek, sem er fyrsti formaður Ráðstefnu um öryggissamvinnu (FSU), sagði í erindi sínu að tildrög ráðstefnunnar væru atburðirnir 11. september og áherslan á að samhæfa aðgerðir þjóða til að stemma stigu við hryðjuverkastarfsemi. Ræddi hann um vinnu stofnunarinnar í málefnum útbreiðslu smávopna og hvernig hún leitaðist við að efla löggjöf í aðildarríkjum ÖSE til að sporna við slíku. Sagði Vacek að stofnunin væri í raun einn framkvæmdaraðila Búkarest-yfirlýsingarinnar. Theo van den Doel, skýrsluhöfundur fyrstu nefndar, sagði fundarmönnum frá helstu áhersluatriðum sem fram kæmu í skýrslu nefndarinnar á ársfundinum í Berlín. Í umræðum sem á eftir fylgdu var nokkuð rætt um ákvörðunartökuferli ráðherraráðs ÖSE og hversu mikilvægt það væri að auka gagnsæi. Eins og staðan væri nú væri unnt að þæfa mál með síendurteknum hætti sem leiddi til þess að starfsemi stofnunarinnar væri nær lömuð og væri það ótækt með öllu.
    Í annarri nefnd (um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál) beindist umræðan að mestu leyti, eins og í öðrum nefndum, að hryðjuverkum og baráttu alþjóðasamfélagsins gegn þeim. Oleg Bilorus, formaður nefndarinnar, sagði í inngangsorðum sínum að öryggismál, og þá einkanlega hryðjuverk, yrði að ræða með mun skipulegri hætti en hingað til hefði þekkst. Sagði hann að nokkuð vantaði upp á að menn ræddu um efnahagslegar og félagslegar rætur hryðjuverkastarfsemi og væri það eitt meginhlutverka ÖSE-þingsins að breyta þessu. Marc Baltes, aðstoðarframkvæmdastjóri stofnunar ÖSE sem fer með efnahags- og umhverfismál, hélt erindi á fundinum og ræddi þar efnahagslega vídd baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi. Rakti hann stofnun undirnefndar ráðherraráðsins um efnahags- og umhverfismál á leiðtogafundinum í Búkarest og fagnaði þeim áfanga sem mundi nýtast einkar vel við að byggja samstarfsgrundvöll milli aðildarríkja ÖSE. Þá ræddi hann um verkefni stofnunar sinnar í Mið-Asíulýðveldunum og á Balkanskaga. Því næst tók Gantcho Gantchev, yfirmaður miðstöðvar ÖSE í Tashkent í Úsbekistan, til máls. Ræddi hún um störf miðstöðvarinnar á sviði uppbyggingar efnahags og umhverfisverndar sem beindist einkum að styrkingu löggjafar landsins. Sagði hún að árangurinn af starfi miðstöðvarinnar sýndi glögglega fram á mikilvægi þess að ÖSE beini sjónum sínum í auknum mæli að Mið- Asíuríkjunum. Að síðustu hélt Barbara Haering, skýrsluhöfundur annarrar nefndar, erindi um efnistök í skýrslu nefndarinnar sem lögð yrði fyrir á ársfundinum í Berlín. Í umræðum sem á eftir fylgdu var sjónum beint að efnahagslegum sem umhverfislegum þáttum hryðjuverkastarfsemi og hvort ÖSE ætti að beita sér fyrir aðstoð við ríki sem féllu utan hefðbundins umráðasvæðis stofnunarinnar.
    Þeir Gerard Stoudmann, yfirmaður mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODIHR), og Freimut Duve, sérlegur fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla, ávörpuðu þriðju nefnd (um lýðræði og mannréttindamál). Í erindi sínu sagðist Stoudmann hafa af því nokkrar áhyggjur að sum aðildarríki ÖSE virtu að vettugi alþjóðlegar skuldbindingar sínar í kjölfar atburðanna 11. september. Sagði hann að menn yrðu að gera sér grein fyrir því að jafnvel þótt stjórnvöld beittu hörðum öryggisákvæðum í baráttu sinni gegn hryðjuverkastarfsemi þá yrði að tryggja grundvallarmannréttindi. Sagði hann að það væri útbreiddur misskilningur að öryggi annars vegar og mannréttindi hins vegar væru ekki af sama meiði og hvatti aðildarríki til þess að virða Genfarsáttmálana í hvívetna. Sagði hann að á þeim tíma sem liðið hefði frá hryðjuverkaárásunum hefðu fjórtán ríki beitt sér fyrir hertri löggjöf á sviði öryggismála. Þessi sömu fjórtán ríki hefðu sýnt bága frammistöðu hvað almenn mannréttindi varðaði og væri það mikið áhyggjuefni. Sagði hann að ef menn héldu áfram að horfa í gegnum fingur sér með slíkt mundi það skaða víðtækt net alþjóðalaga til lengri tíma litið. Freimut Duve tók undir orð Stoudmanns og sagði að þróun þessi ætti sér ekki aðeins stað í nýfrjálsum ríkjum heldur einnig í þeim sem eldri væru. Ef svo færi fram sem horfði mundi það óneitanlega lækka mannréttindastuðla ÖSE í heild sinni. Sagði hann að á sviði fjölmiðla horfði þetta þannig við að á hættutímum væri stjórn upplýsinga stjórnvöldum mikilvæg. Skapaði þetta ekki sérstaka hættu þar sem fjölmiðlaflóran væri auðug og upplýsingar kæmu úr mörgum áttum en í samfélögum þar sem væri t.d. aðeins einn ríkisfjölmiðill skapaði þetta mikla hættu. Auk þeirra Stoudmanns og Duves héldu þau Paula Kokkonen, sérlegur jafnréttisfulltrúi ÖSE- þingsins, og Svend Robinson, skýrsluhöfundur þriðju nefndar, erindi um starfsemi nefndarinnar á næstu missirum.
    Vetrarfundunum í Vínarborg lauk með sameiginlegum fundi allra málefnanefnda. Fundinn ávarpaði Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, sem fagnaði auknu umfangi vetrarfundanna sem gæfi þingmönnum færi á að ræða við embættismenn ÖSE og formann ráðherraráðsins. Sagði hann að baráttan gegn hryðjuverkum væri það sem einkenndi starf ÖSE, sem og annarra alþjóðastofnana, um þessar mundir og hefði mikil áhersla verið lögð á skilvirkt samstarf alþjóðlegra og svæðisbundinna stofnana. Þá ræddi Kubis um málefni fjárlaga ÖSE, endurskipulagningu skrifstofu ÖSE og starfsemi undirstofnana. Að lokum beindi Kubis máli sínu að sendinefndum ÖSE og sagði að þar færi fram eitt mikilvægasta starf stofnunarinnar sem greindi ÖSE frá öðrum alþjóðastofnunum.
    Í lok fundarins skýrðu formenn málefnanefndanna frá niðurstöðum nefndafunda.

b. 11. ársfundur ÖSE-þingsins.
    Dagana 6.–10. júlí var ellefti ársfundur ÖSE-þingsins haldinn í Berlín. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Magnús Stefánsson formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður og Guðjón Guðmundsson, auk Andra Lútherssonar ritara. Efni Berlínarfundarins var viðbrögð við hryðjuverkastarfsemi og hin nýju verkefni sem baráttunni gegn slíkri starfsemi fylgja. Tóku skýrslur og ályktanir málefnanefndanna þriggja mið af meginefninu, þar sem fjallað var m.a. um hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í baráttunni gegn hryðjuverkum, efnahagslega hlið baráttunnar gegn hryðjuverkum og mikilvægi þess að ráðast að samfélagslegum rótum alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Þátttaka Íslandsdeildarinnar var sem hér segir:
1. nefnd um stjórnmál og öryggismál: Magnús Stefánsson.
2. nefnd um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál: Guðjón Guðmundsson.
3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Ásta R. Jóhannesdóttir.

    Yfir þrjú hundruð fulltrúar 55 aðildarríkja ÖSE-þingsins sátu setningarfund ársfundarins og hlýddu á setningarávarp Adrians Severins, fráfarandi forseta ÖSE-þingsins, og ávörp Joschka Fischers, utanríkisráðherra Þýskalands, Wolfgangs Thierses, forseta þýska þingsins, Antonio Martins da Cruz, formanns ráðherraráðs ÖSE, og Jans Kubis, framkvæmdastjóra ÖSE. Þá ávörpuðu fjórir forstöðumenn stofnana ÖSE þingheim og svöruðu spurningum þingmanna, þ.e. Gerard Stoudmann, forstöðumaður mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODIHR), Freimut Duve, forstöðumaður stofnunar ÖSE sem hefur eftirlit með frelsi fjölmiðla (RFOM), Rolf Ekeus, forstöðumaður stofnunar ÖSE sem fylgist með réttindum minnihlutahópa (HCNM), og Marcin Swiecicki, forstöðumaður efnahags- og umhverfisdeildar ÖSE.
    Ályktanir Berlínarfundarins voru sameinaðar í eina stóra ályktun, Berlínar-yfirlýsingu ÖSE-þingsins, sem samþykkt var á þingfundi lokadag þinghaldsins hinn 10. júlí. Auk ályktana málefnanefndanna þriggja innihélt Berlínar-yfirlýsingin viðbótarályktanir um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi, stöðu mála í Moldavíu, uppbyggingu í suðausturhluta Evrópu, mansal, ofbeldisverk gegn gyðingum, mannréttindi og baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi, og menntunarmál Róma (sígauna).
    Stjórnarnefnd ÖSE-þingsins kom saman til fundar laugardaginn 6. júlí áður en setningarfundur ársfundarins var haldinn. Á fundinum lagði kanadíski þingmaðurinn Jerry Grafstein, gjaldkeri ÖSE-þingsins, fram drög að fjárlögum þingsins fyrir árið 2002–2003. Þá var ákveðið á fundinum að fresta ákvörðun um lögmæti kjörbréfs hvít-rússnesku sendinefndarinnar til vetrarfundarins sem haldinn yrði í Vínarborg í febrúar 2003. Forseti þingsins gaf fulltrúum stjórnarnefndarinnar skýrslu um starfsemi þingsins á undanförnum mánuðum, þ.m.t. kosningaeftirlit í Úkraínu og störf eftirlitsnefndar þingsins í Abkhasíu. Þá var fulltrúum greint frá stjórnarnefndarfundi sem halda átti í Madríd í byrjun október, samhliða ráðstefnu um málefni Miðjarðarhafsins. Formaður georgísku landsdeildarinnar fór þess á leit að efnt yrði til brýnnar umræðu um málefni Abkhasíu og var ákveðið að efna til slíkrar umræðu á þingfundi. Þá var og ákveðið að þingfundur mundi einnig ræða málefni kynjanna. Jafnframt var ákveðið að á vetrarfundum ÖSE-þingsins ár hvert yrðu framkvæmdastjóri ÖSE og formaður ráðherraráðsins spurðir um eftirfylgni við yfirlýsingar ársfunda þingsins.
    Í fyrstu nefnd (nefnd um stjórnmál og öryggismál) var fjallað um skýrslu hollenska þingmannsins Theo van den Doel um hlutverk ÖSE í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Í ræðu þeirri sem van den Doel hélt til að fylgja skýrslu sinni úr hlaði komu fram varnaðarorð til þingmanna um að nauðsyn væri á að færast ekki of mikið í fang. Sagði hann að flestar alþjóðastofnanir hefðu þennan málaflokk efst á stefnuskránni nú um stundir og að ÖSE yrði að einblína á þau svið þar sem stofnunin hefði mest fram að færa í stað þess að fjalla um allar hugsanlegar víddir baráttunnar gegn hryðjuverkum. Sagði hann að umfjöllun um málaflokkinn væri nokkrum vandkvæðum bundin þar eð engin einhlít sátt ríkti um skilgreiningu á hryðjuverkastarfsemi og bæru ályktunardrögin þess merki. Líflegar umræður urðu á fundinum um skýrsluna og ályktunardrögin og voru alls 30 breytingartillögur lagðar fyrir fundinn. Í ályktuninni kom fram að aðildarríkjum ÖSE bæri að styrkja löggjöf sína hvað baráttu gegn skipulegri hryðjuverkastarfsemi varðaði og hvatt var til aukins samráðs ríkja í milli um upplýsingagjöf. Í ályktuninni var alþjóðleg glæpastarfsemi sögð tengjast hryðjuverkastarfsemi sterkum böndum og ríki því hvött til að auka mjög við hefðbundinn öryggisviðbúnað sinn, t.a.m. löggæslu og landamæraeftirlit. Þá var enn fremur hvatt til þess að þjóðþing aðildarríkja ÖSE efldu tengsl sín við þingmenn aðildarríkja Ráðstefnu íslamskra ríkja (OIC) og að þau stofnuðu sjóði til að greiða fyrir skilvirkari baráttu gegn hryðjuverkum. Miklar umræður urðu á fundinum um viðbótarályktunardrög Hollendinga um Hvíta-Rússland þar sem þess var krafist að stjórnvöld í Minsk framfylgdu skuldbindingum sínum á vettvangi ÖSE. Fulltrúi Hvíta-Rússlands hafði málfrelsi á fundinum og mótmælti ályktuninni harðlega. Auk viðbótarályktunardraga um Hvíta-Rússland var ákveðið að vísa viðbótarályktun um ástand mála í Moldavíu til þingfundarins. Farið hafði verið fram á það að ályktunardrög um ástand mála í Miðausturlöndum væru tekin fyrir á fundinum og vísað til þingfundar en í ljósi þess hve mikið bar í milli fylgjenda og andstæðinga draganna var málinu frestað. Í upphafi fundarins ávarpaði Brigitte Schulte, aðstoðarvarnarmálaráðherra Þýskalands, þingmenn og ræddi hlutverk ÖSE í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og hlut Þýskalands í þeim málaflokki. Kosið var til embætta nefndarinnar í lok nefndarfundarins og fóru atkvæði á þann veg að sænski þingmaðurinn Göran Lennmarker var kjörinn formaður nefndarinnar og gríski þingmaðurinn Panyiotis Kammenos varaformaður. Kanadíski þingmaðurinn Clifford Lincoln var kjörinn í embætti skýrsluhöfundar fyrstu nefndar.
    Í annarri nefnd (nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál) var fjallað um skýrslu svissneska þingmannsins Barböru Haering um efnahagslegar rætur alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi. Í ræðu sem Haering hélt á fundi nefndarinnar sagðist hún hafa byggt skilgreiningu sína á hryðjuverkum á þremur meginþáttum; viðvarandi ógn af skipulegri ofbeldisstarfsemi, skipulagi og áætlanagerð hryðjuverkamanna, og félagslegum, pólitískum og efnahagslegum markmiðum hryðjuverkaafla. Í ræðu sinni sagðist Haering hafa afar miklar áhyggjur af því að hryðjuverkaöfl kynnu senn að beina sjónum sínum að samfélagslegum innviðum ríkja, svo sem rafmagns- og samgöngumannvirkjum, og lagði áherslu á að aðildarríki ÖSE yrðu að leggja meira fjármagn í að vernda nauðsynlega innviði sína. Þá beindi hún sjónum að rótum hryðjuverkavandans sem ÖSE-ríkjunum öllum stafar svo mikil hætta af og sagði að misskipting gæðanna vægi þar þungt. Lagði hún áherslu á að alþjóðastofnanir á borð við ÖSE yrðu að leggja aukna áherslu á að jafna félagslegt og efnahagslegt jafnræði. Haering sagði enn fremur að efnaleg fátækt gæti aldrei réttlætt hryðjuverk heldur væri fátækt miklu fremur eitt þeirra mála sem taka yrði á til að koma í veg fyrir frekari hryðjuverk og af þeim sökum bæri ÖSE að efla efnahagslega vídd sína. Í almennum umræðum um skýrslu- og ályktunardrögin var almenn samstaða um að aðildarríkjum ÖSE bæri að leggja meira fjármagn til baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi, og þá aðallega til að sporna við alþjóðlegu fjárþvætti. Fyrir nefndinni lá tillaga bandaríska þingmannsins George V. Voinovich um að vísa viðbótarályktunardrögum um ástand mála í suðausturhluta Evrópu til þingfundarins. Í ályktuninni er sjónum beint að skipulegri glæpastarfsemi á Balkanskaga sem legði stein í götu friðarumleitana og stöðugleika á svæðinu. Eru aðildarríki ÖSE og hlutaðeigandi aðilar hvattir til hrinda í framkvæmd aðgerðum til að hindra mansal og aðra glæpastarfsemi og leita allra leiða til að vernda fórnarlömb slíkra glæpa. Þá voru stjórnvöld á svæðinu, sérstaklega ríkisstjórn Bosníu og Hersegóvínu og yfirvöld í Kosovo-héraði, hvött til að auka gagnsæi opinberrar stjórnsýslu. Á fundinum var kosið í embætti nefndarinnar. Úkraínumaðurinn Oleg Bilorus var kjörinn formaður annarrar nefndar og Þjóðverjinn Monika Griefahn varaformaður. Þá var rússneski þingmaðurinn Leoníd Ívatsjénkó kjörinn skýrsluhöfundur nefndarinnar.
    Í þriðju nefnd (nefnd um lýðræði og mannréttindamál) var fjallað um skýrslu kanadíska þingmannsins Svend Robinsons um samfélagslegar rætur alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi. Robinson sagði á fundinum að skilgreining á hryðjuverkum ætti ekki eingöngu að taka mið af markmiðum hryðjuverkaaflanna heldur einnig af aðferðum þeirra. Vísaði hann til orða hryðjuverkasérfræðingsins Alex Schmidts sem jafnaði hryðjuverkastarfsemi á friðartímum við stríðsglæpi. Þá varaði hann eindregið við því að stjórnvöld hrintu í framkvæmd íþyngjandi aðgerðum fyrir almenning í skjóli baráttunnar gegn þessum vágesti sem svo mjög hefði látið á sér kræla að undanförnu. Sagði Robinson að leita yrði jafnvægis milli skilvirkrar baráttu gegn hryðjuverkum og grundvallarmannréttinda og lagði áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Í ályktun nefndarinnar voru aðildarríki ÖSE hvött til að staðfesta alþjóðasáttmála á sviði mannréttinda og afvopnunar. Í ályktuninni er enn fremur lögð áhersla á að aðildarríkjum ÖSE bæri að jafna rétt kynjanna og efla samstarf og tengsl við hinn íslamska heim. Á fundinum voru einnig teknar fyrir viðbótarályktunartillögur um mansal, sem sænsku og bandarísku landsdeildirnar lögðu fram, ofbeldisverk gegn gyðingum, sem bandaríska landsdeildin lagði fram, mannréttindi og baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi, sem bandaríski þingmaðurinn Christopher H. Smith lagði fram, og menntunarmál Róma (sígauna), sem Smith lagði einnig fram. Þessum viðbótarályktunartillögum var vísað til þingfundarins. Richard von Weiszäcker, fyrrverandi forseti Þýskalands, ávarpaði nefndarfundinn og lagði út af meginefni hans, þ.e. nauðsyn þess að ráðast að samfélagslegum rótum hryðjuverkastarfsemi. Taldi hann starf ÖSE-þingsins afar mikilvægt í þessu tilliti og sagðist vona að ályktunum þingsins yrði hrint í framkvæmd af ráðherraráðinu. Eins og í öðrum málefnanefndum fór fram kosning í embætti þriðju nefndar. Rússneski þingmaðurinn Elena Mizulina var kjörinn formaður og Kanadamaðurinn Svend Robinson varaformaður. Hollenski þingmaðurinn Nebahat Albayrak var kjörinn skýrsluhöfundur nefndarinnar.
    Á lokafundi ársfundarins lagði Jerry Grafstein, gjaldkeri ÖSE-þingsins, fram skýrslu sína um fjárhagsárið 2001–2002 og drög að fjárhagsáætlun þingsins fyrir árið 2002–2003. Upplýsti gjaldkerinn þingheim um að stjórnarnefnd þingsins hefði ákveðið að hækka fjárlög þingsins um 9,79% en mesti hluti þeirrar hækkunar stafar af auknu umfangi vetrarfundanna í Vínarborg. Þá flutti framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, Spencer Oliver, áfangaskýrslu sína um störf þingsins á liðnu ári. Þar upplýsti hann að náðst hefði samkomulag við þýska þingið um kostun á starfsmanni sem starfa mundi á tengslaskrifstofu ÖSE-þingsins hjá skrifstofu ÖSE í Vínarborg. Eftir ávarp framkvæmdastjórans hófust almennar umræður um Berlínar- yfirlýsinguna. Síðustu fimmtán mínútum hins almenna umræðutíma var varið í að ræða versnandi ástand mála í Abkhasíu að beiðni georgísku landsdeildarinnar. Upphófust þá miklar deilur milli landsdeilda Georgíu og Rússlands og gengu ásakanir á víxl og varð Adrian Severin að slíta umræðunum eftir varnaðarorð. Eftir að Berlínar-yfirlýsingin hafði verið samþykkt af þingheimi var kosið um tvenn viðbótarályktunardrög sem ekki höfðu verið tekin fyrir í málefnanefndum. Fjölluðu þau annars vegar um bann við framleiðslu jarðsprengna og hins vegar um áhrif hryðjuverkastarfsemi á stöðu kvenna.
    Í lok þingfundarins var tilkynnt um úrslit í kjöri til nýs forseta ÖSE-þingsins. Þrír þingmenn voru í kjöri og flest atkvæði hlaut Bruce George, formaður bresku landsdeildarinnar. Tók hann við forsetaembættinu á þingfundinum og þakkaði Rúmenanum Adrian Severin fyrir farsæl störf undanfarin tvö ár. Þá var einnig kosið í embætti þriggja varaforseta þingsins og hlutu þingmennirnir Barbara Haering, frá Sviss, Ihor Ostash, frá Úkraínu, og Gert Weisskirchen, frá Þýskalandi, flest atkvæði.
    Á þingfundinum voru blaðamannaverðlaun ÖSE-þingsins veitt í sjöunda sinn. Að þessu sinni var ákveðið að veita austurríska blaðamanninum Friedrich Orter og hvít-rússneska blaðamanninum Pavel Sheremet verðlaunin.
    Loks héldu þingkonur sérstakan fund þar sem m.a. var fjallað um stöðu kvenna innan þingsins. Tók Ásta R. Jóhannesdóttir þátt í fundinum. Fram kom að konur hefðu einungis verið í um helmingi landsdeildanna um árabil og lítil breyting hefði orðið þar á. Voru konur sérstaklega hvattar til að gefa kost á sér í laus embætti innan þingsins. Kvennafundinn ávörpuðu Paula Kokkonen, sérlegur jafnréttisfulltrúi ÖSE-þingsins, Beatrix Attinger Colijn, jafnréttisfulltrúi ÖSE, Sonja Zimmermann, jafnréttisfulltrúi hjá mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE (ODIHR), og gestafyrirlesarinn Citha Maass, sérfræðingur hjá þýsku alþjóðamálastofnuninni.

c. Aukastjórnarnefndarfundur.
    Stjórnarnefnd ÖSE-þingsins kom saman til fundar í Madríd 2. október í tengslum við ráðstefnu um málefni Miðjarðarhafsins sem haldin var á vegum spænska þingsins dagana 3.–4. október. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Magnús Stefánsson formaður, auk Andra Lútherssonar ritara. Meginefni fundarins var samskipti ÖSE-þingsins við Miðjarðarhafsríkin en mikill áhugi hefur verið fyrir því að efla þau tengsl, ekki síst í ljósi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum. Stjórnarnefndarfundurinn tengdist því beint ráðstefnu sem ÖSE-þingið og spænska þingið stóðu að dagana 3.–4. október þar sem fjallað var á gagngeran hátt um stöðu Miðjarðarhafsríkjanna og hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í eflingu samskipta við ríki norðanverðrar Afríku, einkanlega samskipti þjóðþinga í milli.
    Þetta var í fyrsta sinn sem Bruce George, nýkjörinn forseti ÖSE-þingsins, stýrði fundi stjórnarnefndarinnar. Í ræðu sinni vék hann að því að Madríd væri í raun fæðingarstaður ÖSE-þingsins, þá RÖSE-þingsins, og væri því afar viðeigandi að fundurinn væri haldinn í borginni. Vék George að verkefnum ÖSE-þingsins á sviði kosningaeftirlits og sagði að þingið hefði skapað sér nokkra sérstöðu í þeim málaflokki sem bæri að hlúa betur að og auka í framtíðinni. George ræddi enn fremur um samskiptin við ráðherraráðið og sagði að sér fyndist sem þau samskipti hefðu batnað mikið á undanförnum missirum og þakkaði fyrirrennara sínum í starfi, Rúmenanum Adrian Severin, einkanlega fyrir það. Í störfum sínum hefði Severin sýnt ákveðið frumkvæði hvað ráðherraráðið varðaði og væri árangur þess nú að koma í ljós. Þá sagði hann að í þessu tilliti væri vert að nefna farsæla lausn mála í sambandi við skipan tengslafulltrúa ÖSE-þingsins hjá skrifstofu ÖSE í Vínarborg. Þjóðverjinn Andreas Nothelle, ritari þýsku landsdeildarinnar hjá ÖSE-þinginu, var skipaður í það starf í september og stendur þýska þingið straum af öllum kostnaði við það starf. Sagði George að ráðherraráð ÖSE hefði sýnt kosningaeftirliti mun meiri áhuga að undanförnu og endurspeglaði ÖSE-þingið afar vel þá áherslu. Að endingu ræddi forsetinn um að Finninn Paula Kokkonen hefði verið skipuð sem talsmaður ÖSE-þingsins í jafnréttismálum og Frakkinn Michel Voisin sem talsmaður ÖSE-þingsins í málefnum Miðjarðarhafsins. Eftir ræðu forsetans hélt formaður spænsku landsdeildarinnar erindi þar sem vikið var að mikilvægi Miðjarðarhafsins í störfum ÖSE. Framkvæmdastjóri þingsins, Spencer Oliver, ræddi um fyrirhugaðar breytingar á blaðamannaverðlaunum ÖSE-þingsins með það að markmiði að auka vægi þeirra. Var lögð fram tillaga um að afhending blaðamannaverðlaunanna yrði færð fram til vetrarfundarins í Vínarborg. Var tillagan samþykkt. Þá tóku embættismenn þingsins til máls og fóru yfir stöðu hinna fjölmörgu málaflokka sem koma til kasta ÖSE-þingsins. Nokkur umræða varð um kosningaeftirlit og þá sérstaklega eftirfylgni kosningaeftirlits og voru fulltrúar á einu máli um að efla bæri eftirfylgnina og að ÖSE-þingið væri hinn rétti vettvangur til slíks.
    Í lok umræðnanna tók formaður þýsku landsdeildarinnar til máls og vék að hlutverki tengslafulltrúa ÖSE-þingsins í Vínarborg. Sagði hann að betur færi á því að tengslafulltrúinn hefði stöðu sendiherra þar eð flestir sem einhvers væru megnugir hjá ÖSE í Vínarborg bæru þann titil. Þýska utanríkisráðuneytið hefði samþykkt þetta og veitt Andreas Nothelle sendiherratign og bað formaður landsdeildarinnar stjórnarnefndina að leggja blessun sína yfir þá tilhögun, sem og hún gerði.
    Nokkrar umræður urðu um fjárlög ÖSE og aukið hlutverk ÖSE-þingsins að hafa eftirlit með fjárhagsáætlunum stofnunarinnar. Var samþykkt tillaga Bruce George um að fulltrúar stjórnarnefndarinnar samræmdu athugasemdir sínar við fjárhagsáætlanir ÖSE og að tengslafulltrúinn í Vínarborg mundi svo fylgja þeim athugasemdum eftir. Þá yrði málið tekið upp á árlegum fundi stjórnarnefndarinnar og málefnanefndanna með embættismönnum ÖSE á vetrarfundinum sem haldinn er ár hvert í Vínarborg.
    Á fundinum var umræðum einnig beint að því hvert yrði meginefni ársfundarins í Rotterdam í júlí 2003. Fulltrúi Rússlands ræddi um átökin í Ngorno-Karabak og taldi að átök minnihlutahópa ættu að vera meginefnið á ársfundinum. Fulltrúi ítalska þingsins gerði framtíð ÖSE að umtalsefni og ræddi um að farsæl framtíð ÖSE-þingsins væri nátengd því hvernig öðrum alþjóðaþingmannasamkundum reiddi af á næstu missirum, t.a.m. NATO-þinginu, VES-þinginu og Evrópuráðsþinginu. Taldi hann að forsendur væru fyrir því að ræða íhlutun í málefni ríkja á ársfundinum, hvort sem um hernaðarlega eða borgaralega íhlutun væri að ræða. Þá taldi hann einnig rétt að ræða framtíðarhlutverk alþjóðlegs erindreksturs líkt og ÖSE hefði beitt sér fyrir. Rita Sussmuth, fulltrúi þýska þingsins, tók undir þessi orð og sagði að málefni framtíðarhlutverks ESB og NATO muni bera hátt á næstunni og að ÖSE mætti ekki vera eftirbátur annarra stofnana í þeirri umræðu. ÖSE bæri að nýta forskot sitt þar sem þar væri ekki um flókið stofnanakerfi að ræða. Nokkrar umræður urðu um þetta. Bruce George taldi að rauði þráðurinn í umræðunum væri breytt hlutverk ÖSE á nýrri öld sem héldist í hendur við þróun annarra samevrópskra stofnana. Lagði hann til að fastanefnd ÖSE- þingsins gerði tillögur um slíkt efni sem síðar yrðu lagðar fyrir á vetrarfundinum í Vínarborg í febrúar 2003.
    Því næst hélt Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, erindi þar sem hann fjallaði um fjármál ÖSE. Í ræðu sinni þakkaði hann stjórnarnefndinni fyrir að fá tækifæri til að fara yfir fjárhagsáætlun ÖSE og útskýra helstu niðurskurðartillögur. Fjárhagsáætluninni var dreift á fundinum og sagði Kubis að stjórnarnefndin fengi tillögurnar á sama tíma og fulltrúar ráðherraráðsins sem væri nýbreytni. Sagði hann stuttlega frá helstu breytingum á starfi ÖSE og hvernig þær endurspegluðust í fjárhagsáætluninni fyrir árið 2003, sem í heild nemur 179,8 milljónum evra. Þar af falla 23% til rekstrar skrifstofu ÖSE í Vínarborg, 9% til reksturs smærri sendinefnda ÖSE og 68% til reksturs stærri sendinefnda líkt og í Kosovo-héraði og Bosníu og Hersegóvínu. Þá ræddi Kubis einnig um nýjar starfsreglur ÖSE sem ættu að skila skilvirkari fjárstjórnun stofnunarinnar.
    Fyrir fundinum lá tillaga Frakkans Michel Voisin um stofnun sérlegrar nefndar ÖSE- þingsins um málefni Miðjarðarhafsins (e. OSCE ad hoc Committee on the Mediterranean). Í tillögunum kom fram að nefndinni bæri að auka tengsl ÖSE-þingsins við þjóðþing Norður- Afríkuríkja og ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs og að hún mundi starfa í samvinnu við sams konar nefndir sem væru á vegum NATO-þingsins, Evrópuráðsþingsins, Alþjóðaþingmannasambandsins og Evró-Arabíusamstarfsráðsins. Mundi nefndin efna til funda við tilgreinda aðila og skila skýrslu sinni til stjórnarnefndar fyrir vetrarfund ár hvert. Í nefndinni áttu að sitja 12 fulltrúar sem stjórnarnefndin skipaði. Átta þeirra yrðu frá ÖSE-ríkjum sem lægju að Miðjarðarhafinu og fjórir frá öðrum ríkjum. Er málið var tekið fyrir dró til tíðinda á fundinum. Bruce George, forseti þingsins, sagði að hann væri algerlega mótfallinn því að efnt væri til stofnunar slíkrar nefndar. Væri það afar óheppilegt að slíkar nefndir störfuðu utan við hið hefðbundna nefndakerfi ÖSE-þingsins. Jafnframt þessu tók George fram að með andstöðu sinni væri hann ekki að setja málefni Miðjarðarhafsins á hliðarlínuna, þvert á móti hefði hann mikinn áhuga á að efla tengsl við umrædd ríki en sagði að það yrði að fara fram innan hinnar hefðbundnu verkaskiptingar ÖSE-þingsins. Aðalstuðningsmenn tillögunnar, fulltrúar Kýpur og Ítalíu, sögðust vera afar hissa á viðbrögðum forsetans og að með andstöðu sinni væri hann vissulega að setja málefni Miðjarðarhafsins á hliðarlínuna. Sagði Kýpurbúinn að ÖSE hefði aldrei tekið þennan málaflokk fyrir á fundum sínum og að fleiri en 20 ríki hefðu stutt tillögur Voisins. Ekki væri verið að fara fram á svæðisbundna nefnd í sjálfu sér. Nefndin yrði ekki lokuð fyrir öðrum en fulltrúum Miðjarðarhafsríkja heldur þvert á móti, opin öllum. Þá væri þetta ekki heldur spurning um kostnað heldur pólitísk spurning, þ.e. hvort pólitískur vilji væri fyrir því að setja málefni Miðjarðarhafsins á oddinn. Fulltrúi Bandaríkjanna benti á að engin af öðrum sérlegum starfsnefndum ÖSE-þingsins væri byggð upp á sama hátt og tillögurnar gerðu ráð fyrir og að tillagan skapaði því mikinn rugling. Tók hann undir fyrirvara forsetans um að þessi tilhögun mundi svæðisbinda nefndina um of.
    Miklar og heitar umræður urðu um málið þar sem bæði Adrian Severin, fyrrverandi forseti ÖSE-þingsins, og Spencer Oliver, framkvæmdastjóri, beittu sér. Í ljós kom að á fundi stjórnarnefndarinnar í Berlín í júlí hefði Severin, sem þá stýrði sínum síðasta fundi, tekið vel í tillögur þessa efnis og úrskurðað á þann veg að eining ríkti um þetta á fundinum, sem þá var afar þunnskipaður. Sagði hann jafnframt að starfsfólk ÖSE-þingsins, þá sérstaklega framkvæmdastjórinn, hefði reynt að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir að þetta næði fram að ganga og beitt óheiðarlegum vinnubrögðum. Oliver svaraði þessu með þeim hætti að Severin hefði farið út fyrir valdsvið sitt á fundinum í Berlín og tekið ákvörðun fyrir hönd stjórnarnefndarinnar þrátt fyrir ítrekuð tilmæli sín um ólögmæti slíkrar ákvörðunar. Ljóst var á fundinum í Madríd að mikil illindi voru milli Severins og Olivers sem greinilega hefðu litað málefni Miðjarðarhafsnefndarinnar. Eftir afar heitar umræður varð niðurstaða fundarins sú að Voisin dró tillögu sína til baka og forsetinn bað hann um að halda áfram góðu starfi sínu sem talsmaður ÖSE-þingsins í málefnum Miðjarðarhafsins og veita forstöðu óformlegum vinnuhópi þeim sem til þessa hefði starfað að þeim málefnum. Þá mæltist hann til þess, á grundvelli tillögu ítölsku sendinefndarinnar, að haldinn yrði sérleg ráðstefna um þennan málaflokk í Róm árið 2003 og hét því jafnframt að beita sér sérstaklega í málefnum Miðjarðarhafsins.

Alþingi, 3. febr. 2003.

Magnús Stefánsson,


form.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


varaform.


Guðjón Guðmundsson.





Fylgiskjal I.


Markmið og skipulag ÖSE-þingsins.


    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er því ætlað að:
     1.      meta árangurinn af ÖSE-samstarfinu,
     2.      ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra ÖSE-ríkjanna,
     3.      þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr ágreiningi,
     4.      stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum,
     5.      leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana ÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum ÖSE-þingsins er miðað við að þau ríki sem undirritað hafa Helsinki-sáttmálann frá 1975 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 eigi aðild að þinginu og að þau taki þátt í ÖSE-samstarfinu. Nú eiga 55 þing ÖSE-ríkjanna aðild að ÖSE-þinginu. Gert er ráð fyrir 317 fulltrúum á þinginu og þar af á Alþingi þrjá.
    Starfsreglur ÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Þá er gert ráð fyrir að málefnanefndir komi saman í Vínarborg ár hvert og hlýði þar á framlag embættismanna ÖSE. Auk þingfundar er miðað við að innan þingsins starfi þrjár fastanefndir sem fjalli um mál á afmörkuðu sviði. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok þingfundar ár hvert. Framsögumaður nefndar velur umræðuefnið sem tekið er fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (3. nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er ætlað að undirbúa störf þingsins. Hún er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetunum níu, gjaldkera, formönnum málefnanefndanna þriggja og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, alls 69 fulltrúum. Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, varaforsetum og gjaldkera. Henni er ætlað að fylgjast með að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og ákvarða um málefni sem upp kunna að koma á milli funda stjórnarnefndar.
    Samkvæmt þingsköpum ÖSE-þingsins skal þingið og framkvæmdastjórnin taka ákvarðanir með meiri hluta atkvæða en ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skulu teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri samstöðureglu (consensus rule) sem gildir á fundum fulltrúa ríkisstjórna ÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins lýtur svokallaðri consensus minus two reglu sem felur í sér að þrjú eða fleiri ríki geta fellt einstök mál í nefndinni.
    Fulltrúi ráðherraráðs ÖSE ávarpar þingið á ársfundi þess og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem unnið er að hjá stofnuninni. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans sem mætir sem fulltrúi ráðherraráðsins. Opinber tungumál þingsins eru sex, enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska, og er túlkað jafnharðan.



Fylgiskjal II.


Skipan ÖSE-þingsins.


Fjöldi þingsæta hvers aðildarríkis Fjöldi þingsæta alls
A. Bandaríkin 17 17
B. Rússland 15 15
C. Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Bretland 13 52
D. Kanada og Spánn 10 20
E. Úkraína, Belgía, Holland, Pólland, Svíþjóð og Tyrkland 8 48
F. Rúmenía 7 7
G. Austurríki, Danmörk, Finnland, Grikkland, Ungverjaland, Írland, Noregur, Portúgal, Tékkland, Sviss, Hvíta-Rússland, Úsbekistan og Kasakstan 6 78
H. Búlgaría og Lúxemborg 5 10
I. Júgóslavía og Slóvakía 4 8
J. Kýpur, Ísland, Malta, Eistland, Lettland, Litháen, Albanía, Slóvenía, Króatía, Moldavía, Tadsjikistan, Túrkmenistan, Georgía, Kirgistan, Armenía, Aserbaídsjan, Bosnía og Hersegóvína og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía 3 54
K. Andorra, Liechtenstein, Mónakó og San Marínó 2 8
Samtals 317
Vatíkanið getur sent allt að tveimur áheyrnarfulltrúum á fundi ÖSE-þingsins.