Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 587. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1019  —  587. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um háspennulínur yfir miðhálendið.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er áformað að tengja væntanlega Kárahnjúkavirkjun og þær línur sem liggja til álvers í Reyðarfirði við meginflutningskerfi Landsvirkjunar á Suðurlandi með línu yfir miðhálendið? Ef svo er, hversu langt eru slíkar áætlanir á veg komnar og hver gæti kostnaður við línulagnirnar orðið?

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Landsvirkjun um svar við fyrirspurninni og er meðfylgjandi svar byggt á þeim upplýsingum.
    Við hönnun Kárahnjúkavirkjunar hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir því að virkjunin sjái álverinu fyrir rafmagni og að ekki komi til sérstakra línuframkvæmda í byggðalínukerfinu vegna virkjunarinnar. Þó verður núverandi byggðalína í Fljótsdal tengd við virkjunina og gert hefur verið ráð fyrir því að byggt verði sérstakt þéttavirki í aðveitustöðinni á Hryggstekk. Við það eykst flutningsgeta byggðalínunnar til Austurlands, en það er nauðsynlegt til að jafna árstíðabundnar sveiflur í orkuframleiðslu. Að hámarki er reiknað með því að byggðalína geti flutt um 100 MW til Austurlands, enda er eingöngu reiknað með því að línan hafi það hlutverk vegna reksturs álversins að flytja takmarkaða orku frá Norður- og Suðurlandi í þurrum vatnsárum fyrir austan eftir því sem flutningsgeta hennar leyfir. Á sama hátt mundi línan flytja álíka raforku til Norður- og Suðurlands ef vatnsstaða á Austurlandi gæfi tilefni til slíks.
    Rekstraröryggi virkjunarinnar og flutningskerfisins hefur verið ítarlega rætt af sérfræðingum ALCOA og Landsvirkjunar og telja báðir aðilar að það fyrirkomulag sem hér um ræðir og samið hefur verið um sé viðunandi. Því er ekki ráðgert að leggja línu milli Suður- og Austurlands vegna ALCOA, en ef af því yrði síðar kæmi sú tenging öllum framleiðendum og notendum raforku á Norður- og Austurlandi til góða.
    Allt frá 1980 hefur verið til skoðunar lagning svokallaðrar Sprengisandslínu sem tengir saman raforkukerfið norðan og sunnan lands, en endanleg tímasetning framkvæmda hefur ekki verið ákveðin. Við bilanir á vesturvæng byggðalínunnar getur rekstur hennar orðið óstöðugur og getur það haft í för með sér óþægindi og jafnvel straumleysi fyrir raforkunotendur á Norður- og Austurlandi. Sprengisandslína mundi hins vegar leysa þetta vandamál til frambúðar. Kárahnjúkavirkjun styrkir byggðalínukerfið og gæti því jafnvel frestað lagningu Sprengisandslínu. Ekki er þó ólíklegt að talið verði nauðsynlegt að hefja lagningu línunnar innan 10 ára.
    Tenging Kárahnjúkavirkjunar við raforkukerfið sunnan lands krefðist þess að auk Sprengisandslínu yrði lögð lína milli Norður- og Austurlands. Engin áform eru hins vegar uppi um lagningu slíkra háspennulína þar sem samningurinn um orkuöflun og flutninga til álvers ALCOA krefst þess ekki, eins og fyrr segir. Ef gerður yrði samningur um stækkun álversins eða ef veruleg aukning yrði á álagi á Austurlandi gæti þó komið til lagningar línu milli Norður- og Austurlands og þá einkum ef virkjanir yrðu staðsettar utan fjórðungsins. Engar ráðagerðir eru hins vegar um slíkt á þessari stundu.
    Á undanförnum árum hafa áform um frekari orkuvinnslu á austanverðu Norðurlandi breyst mikið. Nú er gert ráð fyrir að mun meiri orku megi framleiða á Kröflu- og Bjarnarflagssvæðinu, auk Þeistareykja, en áður var talið. Hins vegar er ekki hægt að virkja frekar á þessum svæðum og flytja orkuna til annars landssvæðis nema með því að styrkja flutningskerfið verulega. Það væri hægt að gera með Sprengisandslínu sem tengdi virkjanir á Suðurlandi við Kröflusvæðið. Landsvirkjun hefur stöðugt unnið að frekari rannsóknum og athugunum á línuleið yfir miðhálendið til að geta uppfyllt þessi markmið þegar þörf verður á.
    Lauslega áætlaður kostnaður við lagningu Sprengisandslínu ásamt spennistöðvum í báða enda gæti numið allt að 7 milljörðum króna.