Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 527. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1022  —  527. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um framkvæmdaleyfi og samráð vegna Kárahnjúkavirkjunar.

     1.      Hvaða leyfi hafa verið gefin út til undirbúningsframkvæmda sem nú standa yfir við Kárahnjúkavirkjun og hvernig hefur Náttúruvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun) komið að þeim leyfisveitingum?
    Iðnaðarráðherra veitti Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun 2. september 2002 með vísan til laga nr. 38/2002, um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal, og laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun. Virkjunarleyfið nær til byggingar allt að 750 MW virkjunar ásamt aðalorkuveitum með þeim skilyrðum er fram koma í úrskurði umhverfisráðherra, dags. 20. desember 2001, um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, og ábendingum Orkustofnunar varðandi vöktun og skráningu rennslis og vatnshæðar vatnsfalla á áhrifasvæði virkjunarinnar í samræmi við ákvæði vatnalaga. Á grundvelli virkjunarleyfisins hófust framkvæmdir við fyrstu virkjunarmannvirkin í haust.
    Iðnaðarráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Landsvirkjun um svar við þessum lið fyrirspurnarinnar að öðru leyti og fer svar Landsvirkjunar efnislega hér á eftir.
    Framkvæmdaleyfi þau sem sveitarstjórnir Norður-Héraðs og Fljótsdalshrepps gáfu út fyrir undirbúningsframkvæmdum byggjast á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og sérstöku svæðisskipulagi fyrir Kárahnjúkavirkjun sem samþykkt var af umhverfisráðherra 2. ágúst 2002. Í greinargerð sérstaka svæðisskipulagsins er rakið hvaða leyfi þurfa að liggja fyrir við veitingu framkvæmdaleyfis sveitarfélaganna.
    Sveitarfélögin hafa gefið út eftirfarandi framkvæmdaleyfi:

Fljótsdalshreppur – framkvæmdaleyfi 16. ágúst 2002.
     1.      Kárahnjúkavegur frá Fljótsdalsheiðarvegi vestur að sveitarmörkum við Norður-Hérað í samræmi við legu vegarins eins og henni var lýst í útboðsgögnum.
    Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps veitti Landsvirkjun framkvæmdaleyfi, skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, til lagningar Kárahnjúkavegar frá Fljótsdalsheiði vestur að sveitarmörkum við Norður-Hérað.
    Í framkvæmdaleyfi Fljótsdalshrepps segir: „Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili í samráði við Náttúruvernd ríkisins vinna nákvæma áætlun um námur, haugsvæði, og vega- og slóðagerð og með hliðsjón af þeim breytingum sem felast í þessum úrskurði leitast við að lágmarka enn frekar umhverfisáhrif framkvæmdanna. Í áætluninni skal gerð grein fyrir staðsetningu, umfangi, fyrirkomulagi, nýtingu og frágangi efnistökustaða og haugsvæða og allra vega og vegslóða. Efnistöku- og notkunarstaðir og magn efnis skal tilgreint.“
    Landsvirkjun vann með Náttúruvernd ríkisins skýrslu sem ber heitið Kárahnjúkavirkjun, fyrri áfangi. Vegir, aðstaða verktaka, námur og haugsvæði.
    Í bréfi frá Náttúruvernd ríkisins til Landsvirkjunar, dags. 12. ágúst 2002, segir: „Vísa til bréfs dags. 24. júlí og skýrslu LV-2002/054 um ofangreint. Skýrsla gefur gott yfirlit yfir fyrirhugaðar framkvæmdir vegna vegagerðar, aðstöðu verktaka, námur og haugsvæði. Náttúruvernd ríkisins þakkar ánægjulegt samstarf og samráð vegna skýrslugerðarinnar.“

     2.      Strengjalögn (33 kV rafstrengur og ljósleiðarastrengur) frá væntanlegu tengivirki á Bessastaðamelum í Fljótsdal vestur að sveitarmörkum við Norður-Hérað á Fljótsdalsheiði, eins og henni var lýst í útboðsgögnum.
    Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps veitti Landsvirkjun framkvæmdaleyfi á grundvelli sömu laga til að leggja 33 kV rafstreng og ljósleiðarastreng frá væntanlegu tengivirki á Bessastaðamelum í Fljótsdal vestur að sveitarmörkum við Norður-Hérað á Fljótsdalsheiði.

Fljótsdalshreppur – framkvæmdaleyfi 16. september 2002.
    Framkvæmdaleyfi þetta lýtur að framkvæmdum við aðkomugöng nr. 1 sem eru á Bjarghæðum og aðkomugöng nr. 2 sem eru við Axará. Þessar framkvæmdir felast í því að gera vegslóða áleiðis að gangamunna aðkomuganga og grafa geil frá slóðanum inn að bergstáli þar sem gangamunninn verður. Gera hluta af vinnubúðaplönum sem áformuð eru við aðkomugöngin. Þegar að sjálfum gangaframkvæmdunum kemur mun sá verktaki leggja veg á vegstæði vegslóðans og nota til þess efni sem kemur úr göngunum.
    Umsagnar Náttúruverndar ríkisins var aflað og var athafnasvæðið skoðað af fulltrúa hennar.
    Í umsókn Landsvirkjunar kom fram að fyrirtækið muni að venju taka tillit til þeirra ábendinga sem fram kynnu að koma um verkið frá Náttúruvernd ríkisins og var það gert í samráði við framkvæmdaraðila.
    Í bréfi frá Náttúruvernd ríkisins til Landsvirkjunar, dags. 18. október 2002, kemur fram skoðun stofnunarinnar á vinnu framkvæmdaraðila vegna undirbúningsframkvæmda við aðgöng 1 og 2. Eftirlitsmaður Náttúruverndar ríkisins skoðaði aðstæður og skilaði skýrslu þar um til stofnunarinnar, sem hún samþykkti, en þar kom fram að eftirlitsmaður þeirra var samþykkur þeim efnistökum sem verktaki viðhafði.

Norður-Hérað – bréf 22. ágúst 2002.
    Framkvæmdaleyfi vegna lagningar Kárahnjúkavegar, strenglagnar og bráðabirgðabrúar á Jökulsá á Dal ofan Kárahnjúka.
    Landsvirkjun óskaði eftir framkvæmdaleyfi vegna áðurnefndra framkvæmda og var það veitt 22. ágúst 2002. Kárahnjúkavegur liggur frá sveitarfélagsmörkum við Fljótsdalshrepp á Fljótsdalsheiði að Desjarárstíflu. 33 kV rafstrengur og ljósleiðarastrengur ná frá sveitarmörkum við Fljótsdalshrepp á Fljótsdalsheiði að vinnusvæðum við aðgöng nr. 3 og að vinnusvæði við Kárahnjúka.
    Í framkvæmdaleyfinu segir: „Ákvarðanir um nákvæma staðsetningu vega og efnistökusvæða skal taka í samráði sveitarstjórn, Náttúruvernd ríkisins, landeigendur og ábúendur.“
    Landsvirkjun óskaði eftir umsögn Náttúruverndar ríkisins um efnistökusvæði og bárust ábendingar frá henni í bréfi dags. 12. september 2002. Voru námur unnar í samræmi við ábendingar Náttúruverndar ríkisins.

Norður-Hérað – bréf 13. september 2002.
     1.      Framkvæmdaleyfi vegna lagningar vegar frá Kárahnjúkavegi við Desjarárstíflu að bráðabirgðabrú yfir Jökulsá á Dal og vegar vestan ár frá brúnni að Brúardalaleið.
     2.      Framkvæmdaleyfi vegna vegslóða á vesturbakka Jökulsár á Dal og skábrautar í gljúfurvegg að hjáveitugöngum í væntanlegri Kárahnjúkastíflu.
    Með bréfi, dags. 13. september 2002, veitti sveitarstjórn Norður-Héraðs Landsvirkjun framkvæmdaleyfi fyrir 1. lið.
    Í sama bréfi segir um 2. lið: „Skilyrði Sveitarstjórnar Norður-Héraðs fyrir veitingu framkvæmdaleyfis er að Náttúruvernd ríkisins veiti samþykki sitt fyrir framkvæmdinni og að framkvæmdir hefjist ekki fyrr en það leyfi liggur fyrir.“
    Í bréfi Náttúruverndar ríkisins, dags. 23. september 2002, um þetta mál segir: „Náttúruvernd ríkisins telur vegna umfangs skábrautarinnar og í ljósi þess að ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun sé ekki tímabært að taka ákvörðun um skábrautina út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Ákvörðun um skábrautina verður því að byggja alfarið á öðrum hagsmunum.“
    Yfirstjórn Landsvirkjunar ákvað að bíða með þessa framkvæmd uns ljóst væri að ráðist yrði í virkjunarframkvæmdirnar.

Norður-Hérað – framkvæmdaleyfi 11. október 2002.
    Framkvæmdaleyfi vegna gerðar aðkomuganga að hjáveitugöngum í Kárahnjúkastíflu, auk gerðar vegslóða frá borplani ofar í hlíðinni, graftrar geilar að stafni aðkomuganga, uppsetningar og starfrækslu steypustöðvar á vinnusvæðinu og almennrar vinnuaðstöðu.
    Framkvæmdaleyfið var veitt af hálfu sveitarstjórnar með því skilyrði að verði ekki af virkjunarframkvæmdum samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum um Kárahnjúkavirkjun skal Landsvirkjun ganga frá landinu í sem líkastri mynd og það var í fyrir upphaf framkvæmda samkvæmt nánari fyrirsögn sveitarstjórnar, landeigenda og Náttúruverndar ríkisins.

Norður-Hérað – framkvæmdaleyfi með bréfi 22. nóvember 2002.
    Framkvæmdaleyfi þetta lýtur að byggingu vinnubúða, vinnusvæði sem notað verður fyrir viðgerðaraðstöðu, breikkun vegar næst gangamunna og uppsetningu gáms til geymslu sprengiefnis.
    Á fundi sveitarstjórnar Norður-Héraðs, sem haldinn var 21. nóvember 2002, voru þessar framkvæmdir samþykktar og framkvæmdaleyfi útgefið með áðurnefndu bréfi.

     2.      Hvernig hefur Landsvirkjun brugðist við skilyrðum í úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar? Óskað er upplýsinga m.a. um breytta hönnun í samræmi við sett skilyrði svo og útfærslu á mótvægisaðgerðum.

     Iðnaðarráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Landsvirkjun um svör við 2., 3. og 4. lið fyrirspurnarinnar og eftirfarandi byggist á upplýsingum fyrirtækisins.
    Landsvirkjun mun uppfylla öll skilyrði sem umhverfisráðherra hefur sett. Breytt hönnun er meðal annars fólgin í að fella niður veitur, sbr. skilyrði umhverfisráðherra nr. 1 og 2, flytja efnisnámur (skilyrði nr. 7) og flutningi yfirfalls Hálslóns frá Desjarárstíflu í Kárahnjúkastíflu (skilyrði nr. 3).
    Útfærsla mótvægisaðgerða verður í samræmi við þær lýsingar sem gefnar hafa verið, m.a. í stjórnsýsluákæru Landsvirkjunar vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001.
    Varðandi stjórnsýslulega meðferð málsins vísast til greinargerðar með sérstöku svæðisskipulagi vegna Kárahnjúkavirkjunar sem staðfest var af umhverfisráðherra 2. ágúst 2002. Að ósk Fljótsdalshrepps og Norður-Héraðs hefur verið komið á laggirnar samstarfsnefnd sveitarfélaganna, Landsvirkjunar, iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis um nánari útfærslu á eftirliti með framkvæmdum í samræmi við þau leyfi sem hafa verið gefin út.

     3.      Hvaða áhrif hafa skilyrði umhverfisráðherra í fyrrnefndum úrskurði haft á áður áætlaðan stofnkostnað virkjunarinnar:
                  a.      heildarkostnað,
                  b.      kostnað á orkueiningu?

    Orkuvinnsla Kárahnjúkavirkjunar minnkaði um 230 GWst/ári. Viðbótarkostnaður við færslu yfirfalls, umframkostnaður við orkuöflun vegna niðurfellingar veitna og kostnaður við ýmsar umhverfisaðgerðir er áætlaður 2.000–2.500 millj. kr., eða um 3% af kostnaði við virkjunina. Kostnaður á orkueiningu eykst því um 3% vegna þessara þátta í úrskurði umhverfisráðherra.
    Kostnaður við aðgerðir til þess að hindra jarðvegsrof og áfok í Hálslóni var innifalinn í kostnaðaráætlunum Landsvirkjunar.

     4.      Hvernig er háttað samráði við Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landgræðsluna og eftir atvikum aðra aðila um uppfyllingu nefndra skilyrða og eftirlit með framkvæmdum?

    Samráði við Náttúruvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, er hagað eins og gert er ráð fyrir samkvæmt lögum, hvað varðar eftirlitsskyldu stofnunarinnar með framkvæmdum og með sams konar verklagi og tíðkast hefur við aðrar framkvæmdir Landsvirkjunar. Eitt skilyrða í úrskurði umhverfisráðherra er að haft sé samráð við Náttúruvernd ríkisins um námur, haugsvæði og vega- og slóðagerð. Þetta samráð er í eðlilegum farvegi.
    Þá er kveðið sérstaklega á um samráð við lækkun klapparhafts ofan Lagarfossvirkjunar, en sú framkvæmd er áætluð seint á framkvæmdatímanum.
    Í skilyrðum í úrskurði umhverfisráðherra er gert ráð fyrir samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands um lúkningu tiltekinna náttúrufarsrannsókna á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar.
    Náttúrufræðistofnun Íslands hefur staðfest að samkomulag hafi orðið um rannsóknaáætlun um þessa þætti, sem unnin verði í samstarfi Náttúrufræðistofnunar og Orkustofnunar.
    Landgræðsla ríkisins er ásamt sveitarfélaginu Norður-Héraði og Landsvirkjun aðili að sérstakri samráðsnefnd um uppgræðslu- og landbótaaðgerðir á áhrifasvæði virkjunarinnar.