Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 241. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1046  —  241. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti, Guðna Guðbergsson frá Veiðimálastofnun, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Andrés Arnalds frá Landgræðslu ríkisins, Áslaugu Helgadóttur og Emmu Eyþórsdóttur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Ólaf R. Dýrmundsson frá Forystufjárræktarfélagi Íslands og Kesara A. Jónsson frá Líffræðistofnun Háskóla Íslands.
    Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi og er nú endurflutt. Umsagnir um málið bárust þá frá Búnaðarsambandi Suðurlands, Vottunarstofunni Túni ehf., Búnaðarsamtökum Vesturlands, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Forystufjárræktarfélagi Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landgræðslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Bændasamtökum Íslands og frá tilnefndum fulltrúa Veiðimálastofnunar í erfðanefnd búfjár.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á hlutverki og skipan erfðanefndar búfjár. Hlutverk nefndarinnar er aukið þannig að hún fjalli ekki einungis um helstu búfjárstofna og ferskvatnsfiska heldur um varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði á breiðum grunni, þ.e. um húsdýr, nytjajurtir og tré, og fjölgað er í nefndinni til samræmis við það úr fimm mönnum í sjö.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum að í stað fulltrúa sem tilnefndur er af umhverfisráðuneyti verði áfram fulltrúi tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands eins og í núgildandi lögum. Náttúrufræðistofnun annast að hluta til framkvæmd Ríósamningsins um líffræðilega fjölbreytni fyrir hönd umhverfisráðuneytis. Stofnunin sinnir aðild Íslands að vísindasiðanefnd samningsins og á sæti í framkvæmdanefnd hans hér á landi og sinnir þannig margvíslegum verkefnum sem lúta að framkvæmd, þar á meðal verndun þess erfðaefnis sem fólgið er í flóru landsins. Sérstaða Íslands er veruleg í þessu efni þar sem stór hluti þess plöntuerfðaefnis sem hér er notað í ræktun er af útlendum uppruna. Búfjárræktin byggist hins vegar að miklu leyti á gömlum búfjárkynjum sem eru sérstæð í hópi framleiðslukynja og telur nefndin því mikilvægt að unnið sé skipulega að verndunarmati og verndunaráætlun þeirra á grundvelli Ríósamningsins um líffræðilega fjölbreytni.
    Þá var einnig rætt í nefndinni um mikilvægi þess að erfðanefnd tæki einnig til umfjöllunar siðferðileg sjónarmið, en þau eru sérstaklega mikilvæg í umfjöllun um erfðaræktun, hvort sem um ræktun plantna eða dýra er að ræða.
    Loks leggur nefndin til að orðið erfðaauðlind verði notað í frumvarpinu í stað erfðalindar í merkingunni verðmætt erfðaefni, sbr. orðið náttúruauðlind, enda hafa borist fjölmargar ábendingar frá umsagnaraðilum um það.


Prentað upp.


    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við 1. gr.
     a.      Á undan 1. efnismgr. komi fyrirsögn, svohljóðandi: Erfðanefnd landbúnaðarins.
     b.      Í stað orðsins „umhverfisráðuneyti“ í 1. efnismgr. komi: Náttúrufræðistofnun Íslands.
     c.      Í stað orðsins „erfðalinda“ í a-, b- og d-lið 2. efnismgr. komi: erfðaauðlinda, og í stað orðsins „erfðalindir“ í c-lið sömu málsgreinar komi: erfðaauðlindir.

    Jónína Bjartmarz og Einar Oddur Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Pétur Bjarnason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.


Alþingi, 25. febr. 2003.


Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður Jóhannesdóttir.



Guðjón Guðmundsson.


Karl V. Matthíasson.


Þuríður Backman.



Sigríður Ingvarsdóttir.