Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 464. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1047  —  464. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um almannavarnir, lögreglulögum, lögum um Viðlagatryggingu Íslands, lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og lögum um fjarskipti (stjórnsýsla almannavarna).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Eiríksson frá dómsmálaráðuneyti, Harald Johannessen ríkislögreglustjóra og Þóri Oddsson og Jón Friðrik Bjartmarz frá embætti ríkislögreglustjóra, Hafstein Hafsteinsson frá Landhelgisgæslunni, Helga Hallgrímsson vegamálastjóra, Magnús Jónsson veðurstofustjóra, Sólveigu Þorvaldsdóttur frá Almannavörnum ríkisins, Bergþór Halldórsson frá Landssíma Íslands, Sigurð Guðmundsson landlækni ásamt Hauki Valdimarssyni og Vilborgu Ingólfsdóttur frá embætti landlæknis, Guðjón Petersen, fyrrverandi framkvæmdastjóra Almannavarna ríkisins, Kristbjörn Óla Guðmundsson og Jón Gunnarsson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Jón Jónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigrúnu Árnadóttur frá Rauða krossi Íslands, Þórhall Ólafsson frá Neyðarlínunni og Hrólf Jónsson slökkviliðsstjóra frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Jón Birgi Jónsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins, Ólaf Davíðsson, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, og Björn Friðfinnsson, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Siglingastofnun Íslands, sýslumanninum á Hvolsvelli, sýslumanninum á Ólafsfirði, Vegagerðinni, Almannavörnum ríkisins, landlæknisembættinu, sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Veðurstofu Íslands, Rauða krossi Íslands, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, sýslumanninum á Ísafirði, sýslumanninum í Vestmannaeyjum, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Geislavörnum ríkisins, ríkislögreglustjóra, Reykjavíkurborg, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Neyðarlínunni.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á stjórnskipulagi almannavarna. Verkefni sem hafa verið á hendi almannavarnaráðs og Almannavarna ríkisins eru færð til embættis ríkislögreglustjóra. Gert er ráð fyrir að stofnuð verði sérstök deild við embættið í þessu skyni sem annist heildarskipulagningu og samhæfingu almannavarna. Þá er lagt til að sérstök ráðgjafarnefnd verði ríkislögreglustjóra til ráðuneytis um stefnumörkun og skipulag. Ekki eru lagðar til breytingar á stjórnskipulagi almannavarna í héraði nema gert er ráð fyrir að sveitarfélögum verði heimilt að koma á fót sameiginlegum almannavarnanefndum yfir tvö eða fleiri lögsagnarumdæmi. Slíkt er ekki heimilt nú.Prentað upp á ný.


    Meginsjónarmiðið að baki þessum breytingum er að ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra og samkvæmt gildandi lögum fara lögreglustjórar með stjórn almannavarna hver í sínu umdæmi. Því er talið eðlilegt að ríkislögreglustjóri fari með yfirstjórn þessara mála á landsvísu, sér í lagi með það í huga að almannavarnaástand getur náð yfir fleira en eitt lögsagnarumdæmi. Með þessu muni jafnframt m.a. boðleiðir í almannavarnaástandi styttast, stjórnskipulag verða einfaldara og sparnaður nást í opinberum rekstri vegna samlegðaráhrifa.
    Nefndin ræddi málið ítarlega á fundum sínum. Helstu athugasemdir sem fram komu hjá gestum lutu að nauðsyn heildarendurskoðunar á lögunum en jafnframt var á það bent að hlutverk hinnar svokölluðu samstarfsnefndar um almannavarnir væri ekki nógu skýrt.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar sem lúta að verksviði ríkislögreglustjóra annars vegar og svokallaðrar samstarfsnefndar um almannavarnir hins vegar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Meiri hlutinn leggur til að í stað samstarfsnefndarinnar verði áfram starfandi almannavarnaráð skipað lykilmönnum frá nánar tilgreindum stofnunum og aðilum á sviði almannavarna. Talið er nauðsynlegt að í almannavarnaástandi liggi skýrt fyrir hverjir eigi sæti í því og sé upptalningin því til þess fallin að spara tíma og vangaveltur við slíkar aðstæður. Meiri hlutinn leggur jafnframt til það nýmæli að dómsmálaráðherra skipi óháðan formann ráðsins án tilnefningar í þeim tilgangi að tryggja jafnræði aðila innan þess. Þá leggur meiri hlutinn til að dómsmálaráðherra hafi heimild til þess að kalla fleiri aðila til starfa í almannavarnaráði ef nauðsyn ber til. Lagt er til að almannavarnaráð verði ríkisstjórninni til ráðgjafar um almannavarnir. Auk þess verði það hlutverk ráðsins að stuðla að samhæfingu í almannavarnaaðgerðum og fjalla um áhersluatriði í almannavörnum á hverjum tíma og vera auk þess ríkislögreglustjóra til ráðgjafar þegar almannavarnaástand skapast.
    Meiri hlutinn leggur til að ríkislögreglustjóri hafi mun nánara samstarf við almannavarnaráð en frumvarpið gerði ráð fyrir og beri öll helstu atriði tengd almannavörnum undir það. Í breyttu stjórnskipulagi ber ríkislögreglustjóri hins vegar stjórnsýslulega ábyrgð á málaflokknum gagnvart dómsmálaráðherra. Með því að lagt er til að meðal verkefna ríkislögreglustjóra sé vöktun og mat á hættu, viðbúnaður og upplýsingaöflun í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir, auk annarra verkefna sem tekin eru fram í 2. gr. frumvarpsins, er ekki gert ráð fyrir að hann annist mælingar, spár eða nokkra vísindalega vinnu heldur sé embættið upplýst um stöðu mála hverju sinni.
    Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að tímabært er að endurskoða lögin í heild og gera úttekt á stöðu almannavarna í landinu, ekki síst með hliðsjón af aukinni samvinnu við leit og björgun og samhæfingu viðbragða gegn vá.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær helstu eru eftirfarandi:
     1.      Meiri hlutinn leggur til að ríkislögreglustjóri hafi mjög náið samstarf við almannavarnaráð og beri öll helstu atriði tengd almannavörnum undir ráðið, sbr. breytingartillögur við 1., 2., 5., 9., 11., 12. og 13. gr. frumvarpsins. Ríkislögreglustjóri ber hins vegar stjórnsýslulega ábyrgð á málaflokknun gagnvart dómsmálaráðherra.
     2.      Lögð er til nauðsynleg breyting á 5. gr. laganna í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga, nr. 19/1997, og annarrar löggjafar á þessu sviði.
     3.      Lagðar eru til breytingar á 2. gr. frumvarpsins, er verður 3. gr., til samræmis við það sem nefnt er hér að framan og skýrar kveðið á um samráðsskyldu ríkislögreglustjóra við ýmsa aðila. Lögð er til orðalagsbreyting á b-lið um vöktun og mat á hættu til að skýrt sé hvað átt er við og að hér sé um að ræða samvinnu ríkislögreglustjóra við hlutaðeigandi stofnanir en ekki einungis við vísindastofnanir. Þá er lögð til breyting á c-lið ákvæðisins um geislavarnir. Viðmið í geislunarviðbúnaði hafa breyst mikið á undanförnum árum og reynslan hefur sýnt að jafnvel grunur um smávægilega aukningu geislunar getur haft veruleg efnahagsleg og félagsleg áhrif. Þannig miða nú flest lönd geislunarviðbúnað sinn við að geta brugðist við minnstu breytingu frá venjulegu ástandi og sama gildir um Geislavarnir ríkisins. Nauðsynlegt þykir að skipulag viðbúnaðar sé það sveigjanlegt að það geti tekið á smávægilegum frávikum jafnt sem alvarlegum slysum og atvikum. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til mun ríkislögreglustjóri hafa skýra lagaheimild til víðtækari samvinnu við Geislavarnir ríkisins um viðbúnað vegna geisla- og kjarnorkuvár með svipuðum hætti og tíðkast í grannlöndum okkar. Þá er lagt til að við bætist tveir nýir stafliðir þar sem kveðið er á um samráðsskyldu ríkislögreglustjóra við Umhverfisstofnun, landlæknisembættið og yfirdýralækni við nánar tilgreindar aðstæður. Loks er lagt til að áfram verði stuðst við nákvæma upptalningu í lögum á því hverjir eigi sæti í almannavarnaráði. Talið er nauðsynlegt að slíkt liggi skýrt fyrir í almannavarnaástandi. Upptalningin er til þess fallin að spara tíma og vangaveltur við slíkar aðstæður. Meiri hlutinn leggur þó til að ráðherra hafi heimild til þess að kalla fleiri aðila til starfa í almannavarnaráði ef nauðsyn ber til. Meiri hlutinn leggur til að nokkrir aðilar bætist í grunnhóp ráðsins. Nauðsynlegt þykir að veðurstofustjóri eigi þar sæti þar sem Veðurstofa Íslands er orðin helsta vöktunarstofnun landsins og fylgist með nánast allri náttúruvá, annaðhvort ein eða í samstarfi við aðrar stofnanir. Í núgildandi lögum um almannavarnir er gert ráð fyrir að póst- og símamálastjóri sitji í almannavarnaráði. Með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa í löggjöf leggur meiri hlutinn til að þess í stað eigi þar sæti forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar ásamt forstjóra Landssíma Íslands til þess að tryggja eðlileg fjarskipti og síma- og netsamband frá landinu í almannavarnaástandi. Þá þykir jafnframt nauðsynlegt að hafa æðstu yfirmenn frá Rauða krossinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í ráðinu ásamt flugmálastjóra þar sem þessir aðilar þurfa í ljósi reynslunnar að koma að málum ef almannavarnaástand skapast.
     4.      Lögð er til orðalagsbreyting í 6. gr.
     5.      Þá er lögð til nauðsynleg breyting á gildistöku frumvarpsins.
    Ólafur Örn Haraldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. febr. 2003.Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Jónína Bjartmarz.Ásta Möller.


Kjartan Ólafsson.