Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 391. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1049  —  391. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá dómsmálaráðuneyti Rögnu Árnadóttur, Hjalta Zóphóníasson og Önnu Sigríði Arnardóttur. Þá bárust umsagnir frá Hagstofu Íslands, Reykjavíkurborg, yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis suður og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Megintilgangur frumvarpsins er að heimila talningu atkvæða á fleiri en einum stað í hverju kjördæmi. Sum kjördæmi hafa stækkað svo mjög að nauðsynlegt þykir að hafa þann möguleika að hægt sé að telja atkvæði á fleiri en einum stað í hverju kjördæmi. Sérstaklega er hér haft í huga ef kosning fer fram að vetrarlagi. Einnig er lögð til nauðsynleg orðalagsbreyting í upptalningu sveitarfélaga í samræmi við sameiningu þeirra eða af öðrum ástæðum. Þá er lagt til að kjörseðlar verði útbúnir með ferningi fyrir framan listabókstafina sem kjósendur setja krossinn í. Með þeim breytingum er vonast til að eyða óvissu kjósanda um það hvar á kjörseðlinum hann á að merkja með krossi og draga þannig úr hættu á að atkvæði verði talið til vafaatkvæða. Að lokum er lagt til að ákvæði laganna um afsal kosningarréttar í kjördeild til þess að geta kosið í annarri kjördeild innan kjördæmis, t.d. vegna fötlunar, verði gerð skýrari. Í þessu felst þó ekki efnisleg breyting frá fyrri framkvæmd.
    Við kynningu ráðuneytisins á frumvarpinu kom í ljós að gera þyrfti frekari breytingar á frumvarpinu og núgildandi lögum um kosningar til Alþingis þar sem láðst hafði á nokkrum stöðum að taka tillit til breytinga frumvarpsins varðandi umdæmiskjörstjórnir. Jafnframt var bent á að bæta þyrfti við ákvæðum um umdæmi umdæmiskjörstjórna og verklag þeirra. Umdæmi þeirra verður að ákveða tímanlega og geta umdæmismörk skipt miklu, t.d. varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Nefndin gerir því tillögur til breytinga til samræmis við framangreint.
    Þá leggur nefndin til að við sérstakar aðstæður geti ráðherra heimilað tvær umdæmiskjörstjórnir í hverju kjördæmi. Heimild þessi yrði aðeins veitt í undantekningartilvikum og sérstaklega er haft í huga ef kosningar fara fram að vetri til og erfitt er um samgöngur.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Í 1.–6. tölul. er lagt til að nánar verði kveðið á um umdæmiskjörstjórnir, þ.e. þar sem láðist að geta þeirra í upphaflegu frumvarpi. Í 2. tölul. er jafnframt kveðið á um að yfirkjörstjórn ákveði umdæmi umdæmiskjörstjórna. Nauðsynlegt er að ákvörðun um umdæmi umdæmiskjörstjórna verði tekin tímanlega. Hvert umdæmi þeirra verður skiptir m.a. máli vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Umrædda ákvörðun þyrfti því að tilkynna með lengri fyrirvara en kveðið er á um í almenna ákvæðinu í 1. mgr. 97. gr. laganna. Jafnframt er lagt til að við sérstakar aðstæður geti ráðherra heimilað tvær umdæmiskjörstjórnir sem kosnar skulu á sama hátt. Það er mat nefndarinnar að túlka beri þessa heimild þröngt og aðeins ef atvik gætu hamlað því að atkvæðasendingar bærust með góðu móti á milli staða, t.d. ef til kosninga kæmi að vetri til. Þá skal tekið fram varðandi 5. tölul. að gert er ráð fyrir að umdæmiskjörstjórn geti úrskurðað um ágreining sem upp kemur innan kjörstjórnar eða milli kjörstjórnar og umboðsmanns lista um hvort utankjörfundaratkvæði sé gilt eða ógilt. Komi hins vegar upp ágreiningur innan umdæmiskjörstjórnar eða á milli umdæmiskjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur, sbr. 103. gr. laganna, þá skal yfirkjörstjórn úrskurða um gildi hans.
     2.      Lögð er til breyting á 15. gr. sem felur í sér að 103. gr. laganna er sett upp á ný svo að efnisinnihald hennar falli betur að framkvæmd mála. Þá er jafnframt lagt til að við greinina bætist ný málsgrein sem áður var 16. gr. frumvarpsins en ákvæðið þykir eiga betur við þar.
     3.      Þá er lögð til breyting á 17. gr. sem eingöngu er tæknilegs eðlis.
    Ólafur Örn Haraldsson og Pétur Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kolbrún Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi var samþykk afgreiðslu þess.

Alþingi, 25. febr. 2003.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Katrín Fjeldsted.Jónína Bjartmarz.


Lúðvík Bergvinsson.


Ásta Möller.Kjartan Ólafsson.