Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 453. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1076  —  453. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Sigurbjörn Sveinsson frá Læknafélagi Íslands, Herdísi Sveinsdóttur og Erlínu Óskarsdóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Þórð Skúlason og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Einar Oddsson frá starfsmannaráði Landspítala – háskólasjúkrahúss, Guðjón Brjánsson frá Sjúkrahúsinu á Akranesi, Guðmund Einarsson frá Heilsugæslunni í Reykjavík, Árna Sverrisson frá St. Jósepsspítala, Jóhann Árnason frá Sunnuhlíð og Guðríði Þorsteinsdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Málið var sent til umsagnar og bárust svör frá Heilsugæslustöð Grundarfjarðar, Sjálfstæðisflokknum í Hafnarfirði, Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, Heilsugæslustöð Hveragerðis, Heilsugæslustöðinni Sólvangi, Hafnarfirði, Sunnuhlíð, Læknafélagi Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, framkvæmdastjóra Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, stjórn Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Heilbrigðisstofnuninni á Selfossi.
    Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af samkomulagi ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Samkomulagið felur í sér að ríkið yfirtekur 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildarsjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa. Sveitarfélögin munu áfram láta í té lóðir undir slíkar heilbrigðisstofnanir ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalds í samræmi við gildandi lög um heilbrigðisþjónustu.
    Í samkomulaginu afsala sveitarfélögin sér lögbundnum rétti til tilnefningar í stjórnir umræddra stofnana um leið og þátttaka þeirra í stofnkostnaði og viðhaldi fellur niður. Í frumvarpinu er lagt til að stjórnir heilsugæslustöðva og umræddra sjúkrahúsa verði lagðar niður. Gildandi lög gera ráð fyrir fimm manna stjórnum, þar af eru þrír fulltrúar tilnefndir af viðkomandi sveitarstjórn, einn tilnefndur af starfsmönnum og einn án tilnefningar. Eftir að valdsvið forstöðumanna stofnana var aukið með setningu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hefur valdsvið stjórna verið minnkað að sama skapi og er hlutverk þeirra fyrst og fremst að sinna eftirliti og ráðgjöf við stjórnun viðkomandi stofnunar. Nefndin fellst á að stjórnir umræddra stofnana verði lagðar niður en telur að koma eigi til móts við þau sjónarmið sem komið hafa fram við meðferð málsins um að starfsmenn taki þátt í stjórnun og stefnumótun viðkomandi heilbrigðisstofnana. Leggur hún til að gerðar verði breytingar á 4., 7. og 8. gr. frumvarpsins á þann veg að hjúkrunarforstjóri og yfirlæknir (lækningaforstjóri) skuli sitja í framkvæmdastjórn með og undir stjórn framkvæmdastjóra. Einnig er lagt til að gerðar verði breytingar á 4. og 7. gr. sem fela það í sér að framkvæmdastjóri skuli halda upplýsinga- og samráðsfund með starfsmannaráði á heilbrigðisstofnun a.m.k. fjórum sinnum á ári.
    Gagnrýnt hefur verið að með því að fulltrúar sveitarstjórna eigi ekki lengur aðild að stjórnun framangreindra heilbrigðisstofnana geti sjónarmið íbúa á svæðinu ekki haft jafnmikil áhrif og áður. Leggur nefndin til að komið verði á því fyrirkomulagi að framkvæmdastjóri og fulltrúar sveitarstjórnar, eða sveitarstjórna þar sem sjúkrahús sinnir stærra svæði, hittist á upplýsinga- og samráðsfundum að minnsta kosti tvisvar á ári. Lítur nefndin svo á að með því móti verði sjónarmiðum íbúanna komið á framfæri við stjórnendur sjúkrahússins. Gert er ráð fyrir að aðilar hittist að lágmarki tvisvar á ári en ef litið er svo á að þörfin sé meiri er ekkert því til fyrirstöðu að þeir hittist oftar.
    Að síðustu eru lagðar til breytingar á skipun nefndar sem meta skal hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa. Bent hefur verið á að tilnefning sveitarstjórna í nefndina gæti reynst flókin þar sem starfssvæði heilbrigðisstofnunar nær yfir mörg sveitarfélög, t.d. á Austurlandi. Jafnframt hefur verið bent á að betur verði hægt að tryggja sérfræðiþekkingu í nefndina með því að fela ekki sérstökum aðilum að tilnefna í nefndina heldur fela ráðherra að skipa nefndina í samræmi við lögbundið skilyrði um að fulltrúar hennar skuli hafa sérþekkingu á sviði rekstrar, starfsmannamála og stjórnsýslu. Leggur nefndin til að gerðar verði breytingar á c-lið 8. gr. frumvarpsins í samræmi við framangreint.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Ásta R. Jóhannesdóttir og Björgvin G. Sigurðsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Einar Oddur Kristjánsson, Katrín Fjeldsted og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. febr. 2003.Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.

Ásta Möller.


Ólafur Örn Haraldsson.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.