Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 392. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1087  —  392. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um vaktstöð siglinga.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Unni Sverrisdóttur frá samgönguráðuneytinu, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Hafstein Hafsteinsson og Gylfa Geirsson frá Landhelgisgæslu Íslands og Kristján Vigfússon og Helga Jóhannesson frá Siglingastofnun Íslands.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Siglingastofnun Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Vélskóla Íslands, Olíufélaginu hf., Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Póst- og fjarskiptastofnun, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Slysavarnaskóla sjómanna, Landhelgisgæslu Íslands, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Vélstjórafélagi Íslands, Hafnasambandi sveitarfélaga, Sjómannasambandi Íslands, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót vaktstöð siglinga. Í vaktstöðinni er ætlunin að sameina undir einn hatt þau verkefni sem eru á ábyrgð samgönguráðuneytisins og lúta að eftirliti, umsjón og vöktun skipaumferðar við Ísland og talin eru upp í 2. gr. frumvarpsins. Þá er í frumvarpinu tekið mið af ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis fyrir umferð á sjó.
    Þau verkefni sem vaktstöð siglinga er ætlað að sinna samkvæmt frumvarpinu eru nú unnin af Landsímanum hf. í Gufunesi og Siglingastofnun Íslands og eru öll á verksviði samgönguráðuneytisins.
    Nefndin lítur svo á að vaktstöð siglinga, verði frumvarpið samþykkt, hljóti þegar þar að kemur að starfa náið með eða verða hluti af sameiginlegri stjórnstöð leitar og björgunar sem samhljómur hefur verið um að nauðsynlegt sé að koma á fót, enda er það hlutverk vaktstöðvarinnar samkvæmt frumvarpinu að tryggja skjót viðbrögð við eftirgrennslan, leit og björgun ef skip lendir í sjávarháska.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 3. og 12. gr. og 1. mgr. 13. gr. Breytingarnar eru ekki efnislegar.
     2.      Lagt er til að einstakir aðilar verði ekki taldir upp í 2. mgr. 5. gr. Þess í stað verði vísað almennt til þess að heimilt sé að nota upplýsingarnar til fiskveiðieftirlits, skipaeftirlits og eftirlits með mengun sjávar. Þannig sé ljóst að Fiskistofa, Landhelgisgæsla Íslands og Umhverfisstofnun eigi rétt til aðgangs að gögnum vaktstöðvarinnar.
     3.      Lagt er til að við 5. gr. bætist ný málsgrein um að eigendur skipa skuli greiða árgjald fyrir þjónustu í sjálfvirka tilkynningarkerfinu sem renni til rekstrar sjálfvirka tilkynningarkerfisins. Sambærilegt ákvæði er í núgildandi lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, en ekki stóð til að fella þá gjaldtöku niður með frumvarpinu.
     4.      Lagt er til að við 1. mgr. 13. gr. bætist nýtt ákvæði þess efnis að ráðherra geti með reglugerð falið vaktstöð siglinga að fara með leiðarstjórnun skipa um tiltekin svæði eða við tilteknar aðstæður. Hér er átt við leiðarstjórnun frá vaktstöð án þess að leiðsögumaður sé um borð í skipi. Heimildin byggist á því að síðar verði teknar ákvarðanir um afmörkun eða aðgreiningu siglingaleiða.
     5.      Lagðar eru til breytingar á 16. gr. þess efnis að undanþága samkvæmt ákvæðinu er þrengd þannig að ákvæði laganna um tilkynningarskyldu falli ekki þar undir og jafnframt að einungis alvarlegur sjúkleiki eða alvarlegt slys manna um borð geti orðið til þess að undanþágan verði virk.
     6.      Í 20. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lög um ráðstafanir til öryggis við siglingar, nr. 56/1932, falli úr gildi við gildistöku laganna. Þar sem ýmis ákvæði þeirra laga eiga sér ekki hliðstæðu í frumvarpinu og ekki er sýnileg ástæða til að fella þau niður gerir nefndin það að tillögu sinni að lögin verði ekki felld úr gildi.
    Magnús Stefánsson, Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson og Jón Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 2003.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Sigríður Ingvarsdóttir.