Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 671. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1091  —  671. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Heimilt er að semja um að stækkun verksmiðjunnar fari fram af hálfu sjálfstæðs hlutafélags er verður í eigu sömu aðila og Norðurál hf. Iðnaðarráðherra er heimilt að semja um að aðrir hluthafar komi að slíku félagi. Það félag skal háð sömu réttindum og skyldum og Norðurál hf.

2. gr.

    Á eftir orðunum „með möguleikum á aukinni framleiðslugetu“ í 2. gr. laganna kemur: í allt að 300.000 tonn af áli á ári.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Þrátt fyrir breytingar, sem síðar kunna að verða á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, skal félagið greiða 18% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
        a.    Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 75/1981, er lægra en 18% 1. október 2007 skal það hlutfall gilda um félagið. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um félagið en skal þó aldrei vera hærra en 18%.
        b.    Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981 og A-liðar 2. gr., 6. tölul. 5. gr., sbr. og 4. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skal 5% tekjuskattur lagður á arð sem greiddur er hluthöfum í félögunum að því tilskildu að þeir séu búsettir í OECD-ríki og að 25% af hlutafé í félaginu séu í eigu hluthafans á skattári fyrir greiðslu arðs.
        c.    Varanlegir rekstrarfjármunir vegna byggingar verksmiðjunnar skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna endurbóta á verksmiðjunni, skulu flokkaðir í samræmi við 32. og 38. gr. laga nr. 75/1981. Fyrningu skal hagað í samræmi við 5. tölul. þessarar greinar.
        d.    Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu níu almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa fleiri ára frá skattskyldum tekjum fram til 1. október 2007 skal sama gilda um félagið. Verði árunum fækkað síðar skal það sama gilda um félagið, þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu níu almanaksára.
        e.    Félaginu skal óheimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og leggja í sérstakan innri fjárfestingarsjóð fjárhæð sem svarar til 4% af nafnverði hlutafjár. Fé í fjárfestingarsjóði sem notað er til fjárfestinga í varanlegum fastafjármunum innan sex ára skal talið til skattskyldra tekna félagsins á því ári sem fjárfesting á sér stað. Þá skal félaginu heimilt að hraða afskriftum um þá fjárhæð sem tekin er úr fjárfestingarsjóði á því ári sem fjárfestingin á sér stað. Fé í fjárfestingarsjóði sem ekki hefur verið notað til fjárfestinga innan sex ára skal talið til skattskyldra tekna og skattlagt með skatthlutfalli því sem gilti þegar féð var lagt í fjárfestingarsjóðinn. Það sama skal gilda ef félaginu er slitið.
     b.      Við 6. tölul. 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir er verða 3. og 4. málsl. og orðast svo: Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 3.749.000 þús. kr., sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 90 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu í febrúar 2003 (285 stig). Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 2.011.000 þús. kr., sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 60 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu í febrúar 2003 (285 stig).
     c.      Við 6. tölul. 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Fasteignaskattur skv. 3. málsl. skal lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir að framleiðslugetan er komin í u.þ.b. 180 þús. lesta álframleiðslu á ári. Fasteignaskattur skv. 4. málsl. skal lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir að framleiðslugetan er komin í u.þ.b. 240 þús. lesta álframleiðslu á ári.
     d.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir töluliðir sem orðast svo:
                   10.      Félagið skal undanþegið ákvæðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
                   11.      Hafnarsjóði Grundartangahafnar er heimilt að gera sérstakan samning um vörugjöld með öðrum hætti en fram kemur í hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum, sbr. hafnarreglugerð og hafnagjaldskrá, sem sett eru á grundvelli þeirra.
     e.      Við bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
                  Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi, en ákvæði a-liðar 3. gr. kemur ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkisstjórninni og iðnaðarráðherra verði heimilað að gera samninga við Norðurál hf. um stækkun álvers félagsins í allt að 300.000 tonn í tveimur áföngum.

1.    Uppbygging og starfsemi álvers Norðuráls á Grundartanga.
    Með lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, var iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um byggingu álvers á Grundartanga og voru samningar þessa efnis undirritaðir 7. ágúst 1997. Lá þá fyrir mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi fyrir allt að 180.000 tonna álveri á Grundartanga. Byggingu 1. áfanga álversins með um 60.000 tonna ársframleiðslugetu af áli lauk í júní árið 1998 og hófst þá framleiðsla í kerskálum álversins.
    Lögunum var breytt með lögum nr. 12/2000 þegar veitt var heimild til ákvörðunar fasteignaskatts vegna stækkunar mannvirkja í tengslum við aukna framleiðslugetu úr 60.000 í 90.000 tonn. Stjórnvöld, Landsvirkjun og Norðurál undirrituðu viðauka við samninga um álverið 14. júní 2000 þegar ákvörðun var tekin um að stækka álverið úr 60.000 tonna ársframleiðslugetu í 90.000 tonn. Framkvæmdum við þann áfanga lauk um mitt ár 2001 og framleiðir félagið nú um 90.000 tonn á ári.
    Á síðasta ári voru samþykkt lög nr. 75/2002, um breytingu á lögum nr. 62/1997, þar sem Norðuráli var heimilað að taka þátt í öðrum félögum og fjárfesta í öðrum atvinnurekstri en áliðnaði.

2.    Aðdragandi samninga.
    Í september árið 2000 óskaði Norðurál formlega eftir því við iðnaðarráðuneytið og Landsvirkjun að teknar yrðu upp hið fyrsta formlegar samningaviðræður um orku vegna þriðja áfanga álversins. Í upphaflegum áætlunum var gert ráð fyrir að álverið yrði stækkað úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn en tækniframfarir gerðu það að verkum að hagkvæmara er talið að stækka álverið úr 90.000 tonnum í 240.000 tonn.
    Fljótlega varð ljóst að ekki væri unnt að afla orku til 150.000 tonna stækkunar í einum áfanga og var því tekin ákvörðun um að skipta stækkuninni í tvo áfanga. Jafnframt var ljóst að ekki væri unnt að taka ákvörðun um stækkun fyrr en fyrir lægi niðurstaða í mati á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Fyrir liggur nú úrskurður setts umhverfisráðherra þar sem fallist er á framkvæmdina að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Að samningaviðræðum við Norðurál hafa eftirtaldir komið af hálfu stjórnvalda: Frá iðnaðarráðuneyti Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri og Guðjón Axel Guðjónsson deildarsérfræðingur. Frá fjármálaráðuneyti Maríanna Jónasdóttir skrifstofustjóri. Frá markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar Garðar Ingvarsson framkvæmdastjóri og Andrés Svanbjörnsson yfirverkfræðingur. Lögfræðilegur ráðunautur stjórnvalda hefur verið Jón Sveinsson hæstaréttarlögmaður, Landslögum – lögfræðistofu. Af hálfu Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps hafa Hallfreður Vilhjálmsson, oddviti Hvalfjarðarstrandarhrepps, og Helgi Þorsteinsson, oddviti Skilmannahrepps, stýrt viðræðum en Ólafur Haraldsson hæstaréttarlögmaður, Lex ehf. – lögmannsstofu, hefur verið lögfræðilegur ráðunautur þeirra. Þá hefur Gísli Gíslason, hafnarstjóri Grundartangahafnar, tekið þátt í viðræðum um hafnarmál.
    Af hálfu Landsvirkjunar hafa Jóhann Már Maríusson, Bjarni Bjarnason framkvæmdastjóri, Stefán Már Pétursson framkvæmdastjóri og Edvard G. Guðnason deildarstjóri tekið þátt í viðræðunum. Lögfræðilegur ráðunautur Landsvirkjunar hefur verið Hjörtur Torfason hæstaréttarlögmaður.

3.    Lýsing á fyrirhugaðri stækkun.
    Þótt aflað sé heimilda fyrir stækkun í allt að 300.000 tonn er gert ráð fyrir að stækkunin komi til framkvæmda í tveimur áföngum, annars vegar um 90.000 tonn sem lokið verður árið 2005 og hins vegar um 60.000 tonn árið 2009. Stefnt er að því að hefja byggingarframkvæmdir við fyrri hluta stækkunar álversins á þessu ári og er framkvæmdatími áætlaður 24–30 mánuðir. Stefnt er að því að gangsetning vegna framleiðsluaukningar um 90.000 tonn hefjist árið 2006. Til lengri tíma litið er ætlun Norðuráls að auka framleiðslugetu álversins með því að auka straum í kerskálum. Þannig miða áform fyrirtækisins að því að ná allt að 300.000 tonna framleiðslugetu þegar til lengri tíma er litið. Hefur fyrirtækið því nú þegar látið meta umhverfisáhrif og fengið starfsleyfi fyrir stækkun í allt að 300.000 tonn.
    Helstu mannvirki fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar álversins í allt að 300.000 tonn eru tankar fyrir hráefni, kerskálar, steypuskáli, skautsmiðja, þurrhreinsibúnaður, spennistöð og starfsmannahús. Öll tækni og tæki sem koma til vegna ráðgerðrar stækkunar álversins verða sem fyrr í samræmi við alþjóðlegar skilgreiningar á bestu fáanlegu tækni („Best Available Technique“ eða „BAT“) og er þá átt jafnt við framleiðslutækni sem tækni við hreinsun útblásturs með þurrhreinsibúnaði.
    Viðbótarfjárfestingarkostnaður vegna stækkunar í 240.000 tonn er áætlaður um 525 milljónir bandaríkjadala. Áætlað er að kostnaður við fyrsta áfanga stækkunarinnar (í 180.000 tonn) verði um 330 milljónir bandaríkjadala en seinni hluti (í 240.000 tonn) kosti um 195 milljónir bandaríkjadala. Reikna má með að heildarfjárfesting Norðuráls á Grundartanga verði þá komin í um 825 milljónir bandaríkjadala eða um 66 milljarða íslenskra króna miðað við gengi í febrúar 2003.
    Gera má ráð fyrir að árlegt útflutningsverðmæti Norðuráls tvöfaldist við stækkun í 180.000 tonn og verði að jafnaði rúmlega 20 milljarðar króna á ári miðað við spár um þróun álverðs á Evrópumarkaði. Að loknum seinni áfanga stækkunar álversins í 240.000 tonn má búast við að árlegt útflutningsverðmæti Norðuráls verði um 40 milljarðar króna miðað við sömu forsendur.

4.    Aðrar framkvæmdir.
    Til að afla orku til álversins mun Landsvirkjun ráðast í gerð Norðlingaölduveitu auk þess sem Hitaveita Suðurnesja hf. mun ráðast í gerð nýrrar jarðvarmavirkjunar á Reykjanesi auk stækkunar virkjunar í Svartsengi og Orkuveita Reykjavíkur mun stækka Nesjavallavirkjun.
    Að svo komnu máli er ekki gert ráð fyrir að ráðist verði í framkvæmdir við stækkun hafnarinnar á Grundartanga í tengslum við fyrirhugaða stækkun álversins. Hins vegar þarf að byggja nýjan veg að hafnarsvæðinu í samræmi við aðalskipulag svæðisins.

5.    Viðaukasamningar.
    Í gildi eru samningar við Norðurál hf. og Columbia Ventures Corporation um byggingu og rekstur allt að 90.000 tonna álvers að Grundartanga. Samkomulag um stækkun álversins felur í sér gerð annars viðauka við fjárfestingarsamning og annars viðauka við lóðarsamning. Viðaukasamningarnir hrófla ekki við þeim grundvallaratriðum sem felast í upprunalega samningnum heldur fela í sér frekari útfærslu vegna stækkunar álversins.

5.1. Drög að öðrum viðauka við fjárfestingarsamning.
    Í drögum að öðrum viðauka við fjárfestingarsamning er kveðið á um breytingu á 2. gr. samningsins sem heimili Norðuráli þátttöku í öðrum félögum og fjárfestingar í öðrum greinum atvinnurekstrar en álframleiðslu.
    Í öðru lagi er kveðið á um breytingu á 4. gr. samningsins varðandi útgáfu iðnaðarleyfis. Þá er kveðið á um að við 5. gr. samningsins bætist ný mgr. sem kveði á um að ríkisstjórnin skuli ekki leggja neina umhverfisskatta eða -gjöld tengd losun CO 2 eða SO 2 á félagið á meðan slík gjöld eða skattar hafa ekki almennt verið lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. álfyrirtæki.
    Í 5. gr. samningsdraganna er kveðið á um breytingar á skattamálum Norðuráls en nánari grein er gerð fyrir þeim í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins.
    Í 6. gr. samningsdraganna er kveðið á um fasteignaskatt vegna stækkunar álversins úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn annars vegar og úr 180.000 tonnum í 240.000 tonn hins vegar. Tæmandi listi yfir þær byggingar sem reistar verða vegna stækkunarinnar ásamt matsverði lóðar, sem mynda grunn fasteignagjalda, fylgja viðaukasamningi.
    Í 7.–9. gr. samningsdraganna er kveðið á um gatnagerðargjald, byggingarleyfisgjald og skipulagsgjald en ákvæðin eru öll efnislega samhljóða núgildandi ákvæðum fjárfestingarsamnings vegna 90.000 tonna ársframleiðslugetu. Þá er kveðið á um undanþágur frá ákvæðum um rafmagnseftirlitsgjald skv. 1. og 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996.

5.2. Drög að öðrum viðauka við lóðarsamning.
    Í drögum að öðrum viðauka við lóðarsamning er kveðið á um að ríkissjóður leigi Norðuráli viðbótarland sem nemur u.þ.b. 47 hekturum. Þá er leiga fyrir landið hækkuð úr 15.000 bandaríkjadölum í 23.500 bandaríkjadali á ári í samræmi við stækkun lóðarinnar.

5.3. Hafnarmál.
    Í hafnarsamningi hafnarsjóðs Grundartangahafnar og Norðuráls er kveðið á um að Norðuráli sé heimilt að fá höfnina og hafnarmannvirki stækkuð í kjölfar stækkunar eða fyrirhugaðrar stækkunar bræðslunnar umfram 100.000 tonna ársframleiðslu. Fyrir liggur áhugi á stækkun hafnarinnar en að svo komnu máli er ekki unnt að taka ákvörðun um slíka stækkun. Í ljósi þessa hafa aðilar ákveðið að gert verði sérstakt samkomulag sem tekur á bótum vegna hugsanlegra tafa við lestun og losun skipa sem þjónusta álverið. Breytingar verða því ekki gerðar á hafnarsamningi aðilanna að svo komnu máli en Norðurál hefur eftir sem áður á grundvelli samningsins heimild til að krefjast stækkunar hafnarinnar.

6.    Umhverfismál.
6.1. Almennt.
    Undirbúningur stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga hefur farið fram í samræmi við gildandi löggjöf og hefur almenningur átt þess kost að hafa þar áhrif á undirbúningsstigi. Hér verður gerð nokkur grein fyrir niðurstöðum umhverfisrannsókna og vöktunar á Hvalfjarðarsvæðinu, skipulagi iðnaðarsvæðisins, mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfismálum.

6.2. Umhverfisrannsóknir og vöktun.
    Umtalsverðar grunnrannsóknir hafa farið fram á umhverfisþáttum og lífríki umhverfis iðnaðarsvæðið á Grundartanga, bæði áður en Íslenska járnblendifélagið tók til starfa árið 1979 og áður en álver Norðuráls var gangsett. Grunnrannsóknir í tengslum við byggingu álversins voru gerðar á tímabilinu júní 1997 til júní 1998. Þessum rannsóknum var síðan haldið áfram þar til í júní 1999.
    Í kjölfar grunnrannsókna hafa iðnfyrirtækin á Grundartanga staðið sameiginlega að umhverfisvöktun í Hvalfirði frá árinu 1999. Vöktunin er framkvæmd samkvæmt áætlun til 10 ára í senn og unnin í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins. Tilgangur vöktunar er m.a. að meta hvort kröfur starfsleyfis séu uppfylltar og skoða áhrif stækkunar á umhverfi með samanburði við grunngildi helstu umhverfisþátta. Vöktunaráætlun var samþykkt af Hollustuvernd ríkisins að undangenginni umfjöllun í ráðgjafarnefnd um umhverfisrannsóknir og vöktun umhverfis í Hvalfirði. Rannsóknir og vöktun ná til loftgæða, gróðurs, jarðvegs, jarðvatns, ferskvatns, úrkomu og búfénaðar.
    Meginniðurstöður framangreindra rannsókna og vöktunar á Hvalfjarðarsvæðinu sýna að áhrif iðnfyrirtækjanna á Grundartanga hafa verið innan þeirra marka sem sett voru í starfsleyfi þeirra og að áhrif á umhverfið hafi verið í lágmarki. Iðnaðarsvæðið er svo sem gefur að skilja aðaluppspretta brennisteinstvíoxíðs og flúors, en þó er styrkur þessara efna í lofti vel innan viðmiðunarmarka fyrir loftgæði. Aðaluppspretta brennisteinstvíoxíðs til þessa hefur verið járnblendiverksmiðjan en aðaluppspretta flúors hefur verið álverið. Rannsóknir sýna einnig að meginuppspretta svifryks á Hvalfjarðarsvæðinu er utan iðnaðarsvæðisins. Nánari grein er gerð fyrir niðurstöðum umhverfisrannsókna og vöktunar í fylgiskjali III með frumvarpi þessu.

6.3. Skipulag svæðisins.
    Öll mannvirki fyrirhugaðrar stækkunar í allt að 300.000 tonna ársframleiðslu verða innan núverandi iðnaðarsvæðis álversins samkvæmt gildandi aðalskipulagi 1997–2017. Því er ekki gert ráð fyrir að breyta þurfi gildandi aðalskipulagi. Ekki er heldur gert ráð fyrir að breyta þurfi svæðisskipulaginu í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir hefur deiliskipulag fyrir iðnaðarlóð Norðuráls verið endurskoðað.

6.4. Mat á umhverfisáhrifum.
    Í nóvember 2000 sendi Norðurál Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum stækkunar Norðuráls á Grundartanga með framleiðsluaukningu í allt að 300.000 tonn á ári. Niðurstaða Skipulagsstofnunar lá fyrir 9. janúar 2001 og var tillagan samþykkt með skilyrðum. Í kjölfar þessa var unnin matsskýrsla vegna stækkunar álversins og var hún lögð fram hjá Skipulagsstofnun í mars 2002. Með úrskurði, dags. 27. maí 2002, féllst Skipulagsstofnun á fyrirhugaða stækkun Norðuráls á Grundartanga í allt að 300.000 tonn á ári.

7.    Áhrif á þjóðarhag.
    Að beiðni iðnaðarráðuneytis lagði efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins mat á þjóðhagsleg áhrif fjárfestinga í virkjunum, byggingu álvers í Reyðarfirði og stækkun álvers á Grundartanga. Niðurstöður efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins eru birtar í fylgiskjali VIII með frumvarpi til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, þskj. 842.

8.    Áhrif á samfélag.
    Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum stækkunar Norðuráls á Grundartanga er gerð grein fyrir samfélagslegum áhrifum á rekstrartíma. Þar kemur fram að á undanförnum árum hefur fólki fjölgað á atvinnusvæði Norðuráls og að stækkun með verulegri fjölgun starfa stuðli að framhaldi á þeirri þróun. Gert er ráð fyrir 300–450 nýjum framtíðarstörfum í álveri Norðuráls eftir fulla stækkun í 300.000 tonna ársframleiðslu en heildarfjöldi starfsmanna í álverinu mun því verða 500–650. Hlutfall starfsmanna af Vesturlandi hefur verið að aukast frá því að Norðurál hóf starfsemi og er nú 84%, en aðrir starfsmenn koma af höfuðborgarsvæðinu. Líklegt er að raunin verði svipuð eftir stækkun álversins. Líklegt er talið að flestir þeirra sem flytjist til svæðisins af öðrum landsvæðum velji sér búsetu á Akranesi vegna nálægðar við álverið auk þess sem stærri staðir hafa almennt meira aðdráttarafl en minni, m.a. vegna fjölbreyttara atvinnulífs og þjónustu. Áætlað er að flutningur fólks innan áhrifasvæðisins verði nokkur, þ.e. að íbúar úr dreifbýli flytjist í þéttbýli.
    Af núverandi starfsmönnum álversins eru um 14% konur og starfar rúmlega helmingur þeirra í viðhaldsdeild, kerskála eða skautsmiðju. Hlutfall kvenna í áliðnaði hefur vaxið á undanförnum árum og er það stefna Norðuráls að ráða sem flestar konur til starfa. Á undanförnum árum hefur störfum fyrir konur fækkað á svæðinu, m.a. vegna samdráttar í verslun á Akranesi með tilkomu Hvalfjarðarganga.
    Samdráttur hefur verið í landbúnaði undanfarin ár og hefur störfum í greininni þar af leiðandi fækkað. Stækkun álversins mun stuðla að áframhaldandi búskaparmöguleikum. Bændur geta sótt störf í álverinu samhliða búskap sem gerir þeim kleift að búa áfram á jörðum sínum þrátt fyrir samdrátt í landbúnaði. Mörg smærri fyrirtæki í iðnaði og byggingarstarfsemi munu njóta góðs af framkvæmdum við stækkun álversins og umfangsmeiri rekstri þess. Áhrifin felast í sölu á þjónustu og vörum til álversins. Einnig munu skapast störf vegna tengdrar uppbyggingar á svæðinu. Mörg fyrirtæki hafa þegar byggst upp og öðlast reynslu í tengslum við uppbyggingu Norðuráls og er sú reynsla góður undirbúningur fyrir frekari stækkun. Stækkunin mun fela í sér aukna möguleika á verkefnum fyrir þessi fyrirtæki. Hugsanleg neikvæð áhrif felast í að önnur iðnfyrirtæki gætu misst starfsfólk til álversins vegna aukinnar samkeppni um vinnuafl.
    Stækkun álversins mun leiða til aukinnar eftirspurnar eftir bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði á svæðinu. Aukin eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði ræðst af íbúafjölgun á svæðinu, breytingum í fjölskyldustærð og þörf fyrir endurnýjun eldra húsnæðis. Líklegt er að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði muni verða mest vart á Akranesi. Hennar gæti einnig orðið vart í öðrum sveitarfélögum, þ.e. Borgarbyggð, Skilmannahreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi.
    Þjónusta og grunngerð sveitarfélaga á áhrifasvæði álversins er góð og er ekki talið að grípa þurfi til viðamikilla ráðstafana á þeim sviðum, þótt fjölgun kunni að verða á íbúum á svæðinu í kjölfar stækkunar Norðuráls.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. 1. gr. laganna er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma laganna við hlutafélag og stofnanda þess um byggingu verksmiðju á Grundartanga til framleiðslu á áli. Hlutafélagið Norðurál hf. var stofnað af Columbia Ventures Corporation í þeim tilgangi að reisa og reka álbræðsluna og tengd mannvirki á Íslandi.
    Í viðræðum um stækkun verksmiðjunnar kom fram ósk um að leyfilegt yrði að stofna nýtt hlutafélag um byggingu og rekstur stækkunar verksmiðjunnar úr 90.000 tonnum í 240.000 tonn. Eigandi þess yrði Columbia Ventures Corporation, en hugsanlegt er að aðrir fjárfestar verði jafnframt hluthafar í nýja félaginu. Með þessu er unnt að skilja á milli fjármögnunar mannvirkja sem tengjast stækkuninni og þeirra mannvirkja sem þegar eru á Grundartanga.
    Í greininni er því lagt til að heimilað verði að semja við sjálfstætt hlutafélag er verði í eigu Columbia Ventures Corporation. Aðild annarra að hlutafélaginu er háð samþykki ríkisstjórnarinnar. Í greininni er jafnframt tekið fram að félagið skuli háð sömu réttindum og skyldum og kveðið er á um í lögunum og fjárfestingarsamningi að skuli gilda um Norðurál.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um að heimildir samkvæmt lögum nr. 62/1997 verði afmarkaðar við 300.000 tonna framleiðslugetu á áli á ári. Í lögunum er ekki að finna neina afmörkun á stærð álversins en mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi fyrir verksmiðjuna gera ráð fyrir allt að 300.000 tonna ársframleiðslugetu. Í áætlunum Norðuráls er gert ráð fyrir að framleiðslugeta álversins verði aukin í 180.000 tonn árið 2005, 240.000 tonn árið 2009 með byggingu nýrra kerskála en með því að auka straum í kerskálum verði fyrirtækinu síðar kleift að ná allt að 300.000 tonna ársframleiðslugetu þegar til lengri tíma er litið án þess að til umtalsverðra framkvæmda komi.

Um 3. gr.

    Í greininni eru lagðar til ýmsar breytingar á 6. gr. laga nr. 62/1997 sem fjallar um skattlagningu félagsins.
    Í a-lið er í fyrsta lagi lagt til að tekjuskattshlutfall fyrirtækisins lækki úr 33% í 18%. Þá er lagt til að ef tekjuskattshlutfall á hlutafélög er lækkað fyrir 1. október 2007 niður fyrir það sem nú er þá gildi hin nýja almenna skattprósenta einnig fyrir Norðurál. Ástæða þessarar undanþágu er að samið er um starfsemi sem ekki hefur framleiðslu að fullu fyrr en árið 2009 og þykir eðlilegt að félagið njóti þeirra breytinga í sama mæli og önnur fyrirtæki fram að þeim tíma er rekstur hefst. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 62/1997 og fjárfestingarsamnings er félaginu heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu átta almanaksárum. Í öðru lagi er lagt til að eigendum Norðuráls verði gert að greiða 5% afdráttarskatt vegna arðs í stað 15% afdráttarskatts líkt og kveðið er á um í 2. tölul. 1. mgr. 71. gr. laga nr. 75/1981. Í tvísköttunarsamningum sem Ísland gerir við önnur ríki er almennt samið um lægri afdráttarskatt en 15% að uppfylltum tilteknum eignarhaldsskilyrðum. Í b-lið 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1997 er að finna undanþágu frá afdráttarskatti. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði um fastafjármuni haldist óbreytt frá því sem nú er. Í fjórða lagi er lagt til að félaginu verði heimilað að draga frá eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu níu almanaksárum. Í greininni er jafnframt lagt til að ef íslenskum fyrirtækjum verði heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartaps fleiri ára frá skattskyldum tekjum þá skuli það sama gilda um félagið ef slíkar breytingar eiga sér stað fyrir 1. október 2007. Þá er gert ráð fyrir að ef árunum verði síðar fækkað skuli það sama gilda um félagið, þó þannig að því sé ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa vegna síðustu níu almanaksára. Lagt er til að heimild félagsins til að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og leggja í sérstakan innri fjárfestingarsjóð fjárhæð sem svarar til 4% af nafnverði hlutafjár verði felld niður. Í viðaukasamningi við fjárfestingarsamning er nánar kveðið á um hvernig haga skuli skattalegri meðhöndlun þeirrar fjárhæðar sem í fjárfestingarsjóðnum er.
    Í b-lið er lagt til að bætt verði við 6. tölul. 1. mgr. laganna tveimur nýjum málsliðum um heimild til ákvörðunar fasteignaskatts vegna stækkunar mannvirkja í tengslum við aukna framleiðslugetu úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn og hins vegar úr 180.000 tonnum í 240.000 tonn. Sambærileg breyting var áður gerð á lögunum vegna stækkunar álversins úr 60.000 tonnum í 90.000 tonn.
    Í c-lið er lagt til að bætt verði við 6. tölul. 1. mgr. laganna tveimur nýjum málsliðum sem kveða á um það hvenær fasteignaskattur skal lagður á eftir að framleiðslugetan hefur verið aukin. Sambærileg breyting var áður gerð á lögunum við stækkun álversins úr 60.000 tonnum í 90.000 tonn.
    Í d-lið er lagt til að nýr töluliður bætist við 1. mgr. 6. gr. sem kveði á um að félagið verði undanþegið ákvæðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Með ákvæðinu er kveðið á um sambærilegar undanþágur og gilda um Íslenska járnblendifélagið hf., Alcan á Íslandi hf. og lagt hefur verið til að gildi um Fjarðaál sf.
    Þá er lagt til að nýr töluliður bætist við 1. mgr. 6. gr. sem kveður á um að hafnarsjóði Grundartangahafnar sé heimilt að semja um vörugjöld með öðrum hætti en fram kemur í hafnalögum, hafnarreglugerð og hafnagjaldskrá. Með þessari breytingu er lagt til að aflað verði sérgreindrar heimildar fyrir samningsgerðinni en hún ekki byggð á almennri heimild svo sem nú er. Á grundvelli þessarar heimildar verður hafnarsjóði Grundartangahafnar heimilt að semja um afslátt frá gjaldskránni svo sem tíðkast hefur fyrir Íslenska járnblendifélagið hf. og Norðurál hf. til þessa.
    Í e-lið er lagt til að við 6. gr. bætist ný málsgrein sem heimili að í fjárfestingarsamningi verði kveðið á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þ.m.t. álfyrirtæki. Ákvæðið er samhljóða ákvæði í frumvarpi til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, en áþekk regla gildir í þessum efnum um Alcan á Íslandi hf. (ISAL).
    Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin stefnumörkun um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar. Í stefnumörkuninni er kveðið á um að gert verði samkomulag við álfyrirtæki í landinu um aðgerðir til þess að halda útstreymi flúorkolefna við álframleiðslu innan við 0,14 tonn koltvíoxíðígilda á framleitt tonn af áli. Þá verði komið á formlegu samráði umhverfisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins við fyrirtæki í áliðnaði um aðgerðir til þess að halda útstreymi gróðurhúsalofttegunda á hverja framleiðslueiningu í lágmarki. Hvað varðar skatta og gjöld vegna losunar lofttegunda eða annarra úrgangsefna gerir fyrirliggjandi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum ekki ráð fyrir því að slíkir skattar eða gjöld verði lögð á gróðurhúsalofttegundir. Af hálfu viðsemjanda ríkisstjórnarinnar er talið mikilvægt að jafnræðis verði gætt við álagningu slíkra skatta eða gjalda ef til þess kemur.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að lögin öðlist þegar gildi en ákvæði a-liðar 3. gr. frumvarpsins komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2009.



Fylgiskjal I.

Norðurál hf.

Lýsing á fyrirhugaðri stækkun álvers á Grundartanga.


1.     Inngangur.
    Norðurál hf. hóf framleiðslu áls á Grundartanga 11. júní 1998. Í byrjun var ársframleiðslugeta álversins 60.000 tonn (t) og sumarið 2001 var ársframleiðsla aukin í 90.000 t. Í upphaflegu starfsleyfi og mati á umhverfisáhrifum var gert ráð fyrir að fyrirtækið myndi framleiða allt að 180.000 t af áli og uppbyggingin yrði á tiltölulega skömmum tíma en þó í áföngum eins og raunin hefur orðið. Útflutningsverðmæti Norðuráls miðað við 90.000 t ársframleiðslu eru um 11,5 milljarðar króna miðað við verðlag í febrúar 2003.
    Norðurál hf. er dótturfyrirtæki Columbia Ventures Corporation (CVC) í Washingtonfylki í Bandaríkjunum.

2.     Fyrirhuguð stækkun.
    Fyrirhugað er að bæta við tveimur kerskálum með 150.000 t ársframleiðslu samsíða núverandi skálum. Við þetta verður ársframleiðslan 60.000 t umfram upphaflegt starfsleyfi. Vegna framþróunar í tækni er einnig gert ráð fyrir að hægt verði að auka framleiðslugetu bæði í núverandi skálum sem og í nýjum kerskálum þannig að heildarframleiðsla gæti náð allt að 300.000 t þegar til lengri tíma er litið. Sem fyrr er gert ráð fyrir áfangaskiptingu í uppbyggingu fyrirtækisins og í næsta áfanga, sem er þriðji áfanginn í uppbyggingu álversins, er ætlunin að álverið verði stækkað í 180.000 t. Gangsetning þess áfanga er fyrirhuguð í lok árs 2005. Fjórði áfanginn, sem fyrirhugað er að gangsetja á árunum 2008 til 2009, verður stækkun um 60.000 t eða alls í 240.000 t.
    Helstu mannvirki fyrirhugaðrar stækkunar eru eftirfarandi:
     *      Tankar fyrir hráefni: Reistur verður nýr súrálstankur við höfnina sambærilegur þeim sem fyrir er. Einnig verða settir upp daggeymar við ný hreinsivirki.
     *      Kerskálar: Reistir verða tveir kerskálar búnir 300 rafgreiningarkerum. Í fyrri áfanga verða 180 ker en í þeim seinni verður bætt við 120 kerum.
     *      Steypuskáli: Bætt verður við biðofni og steypulínu.
     *      Skautsmiðja: Reiknað er með nýrri byggingu undir skauthreinsun en með endurbótum er núverandi skautmiðja talin geta annað fyrirhugaðri stækkun.
     *      Þurrhreinsibúnaður: Bætt verður við tveimur hreinsivirkjum sambærilegum þeim sem fyrir eru. Þau verða í samræmi við kröfur um bestu fáanlegu tækni við hreinsun áls (BAT – Best Available Technology).
     *      Spennistöð: Spennistöð verður tvöfalt stærri en nú er. Bætt verður við þremur til fjórum stórum spennum og tveimur litlum.
     *      Starfsmannahús: Starfsmannahús verður stækkað til að skapa aðstöðu fyrir aukinn fjölda starfsmanna.
    Fyrirkomulag helstu mannvirkja Norðuráls eru sýnd á mynd 1. Fyrirhugað er að notuð verði sama framleiðslutækni í kerskála og notuð er í dag eða frá Hydro Aluminium (áður VAW). Öll tæki álversins munu sem fyrr fullnægja kröfum um bestu fáanlegu tækni eins og hún er skilgreind í alþjóðlegum viðmiðum (BAT, Best Available Technique) samanber OSPAR 98/2. Er þá átt við framleiðsluaðferð og tækjakost sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs.
    Fjárfestingarkostnaður vegna stækkunar í 240.000 tonn er áætlaður um 525 milljónir bandaríkjadala. Áætlað er að kostnaður við fyrsta áfanga stækkunarinnar verði um 330 milljónir bandaríkjadala en seinni hluti kosti um 195 milljónir bandaríkjadala. Reikna má með að heildarfjárfesting Norðuráls á Grundartanga verði þá komin í um 825 milljónir bandaríkjadala eða um 66 milljarða íslenskra króna miðað við gengi í febrúar 2003.
    Reikna má með að árlegt útflutningsverðmæti Norðuráls tvöfaldist við stækkun í 180.000 tonn og verði að jafnaði um 288 milljónir bandaríkjadala á ári miðað við áætlað meðalverð á áli á Evrópumarkaði. Að loknum byggingu fjórða áfanga verksmiðjunnar má reikna með að árlegt útflutningsverðmæti Norðuráls verði um 384 milljónir bandaríkjadala eða tæplega 31 milljarður íslenskra króna miðað við gengi í febrúar 2003.

3.    Hráefnisnotkun.
    Í meðfylgjandi töflu eru upplýsingar um hráefnis- og orkuþörf álversins á Grundartanga. Tölurnar byggja á raunverulegri notkun.


Ársframleiðsla
Hráefni Eining 90.000 t 180.000 t 240.000 t 300.000 t
Súrál tonn á ári 174.000 348.000 463.000 579.000
Álflúoríð - 1.350 2.700 3.550 4.500
Forbökuð skaut - 49.500 99.000 165.000 165.000
Eldsneyti l á ári 1.277.000 2.100.000 2.554.000 3.200.000
Raforka GWst á ári 1.350 2.700 3.550 4.500
Iðnaðarvatn l/sek 1,5 3 4 5
Neysluvatn - 2,5 5 8 10
Sjór l/sek 240 330 390

4.     Raforkuöflun.
    Norðurál er með samning við Landsvirkjun um öflun orku fyrir núverandi rekstur, um 1400 GWst á ári. Landsvirkjun mun sjá álverinu fyrir þeirri viðbótarorku sem þarf til stækkunar. Í þriðja áfanga mun orku verða aflað með Norðlingaölduveitu, auk þess sem Landsvirkjun hyggst semja við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um hluta nauðsynlegrar orkuöflunar. Ekki liggur endanlega fyrir hvaðan orku verður aflað fyrir stækkun umfram 180.000 tonn.
    Raforka til álversins kemur frá tengivirki við Brennimel í formi 220 kV riðspennu. Að Brennimel liggja tvær 220 kV raflínur, önnur frá Sultartanga en hin frá Geithálsi. Frá Brennimel liggja þrjár 220 kV línur að Grundartanga og 132 kV stofnlína norður í land. Vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar Norðuráls í allt að 300.000 t þarf að Landsvirkjun að leggja eina línu til viðbótar að Brennimel, Sultartangalínu 3.

5.     Umhverfismál og mat á umhverfisáhrifum.
    Í upphaflegum úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og í starfsleyfi Hollustuverndar fyrir 180.000 t álver voru ákvæði þess efnis að óheimilt væri að hefja framkvæmdir við stækkun í 180.000 t ársframleiðslu nema að vöktun umhverfis sýni að losun mengandi efna frá fyrsta áfanga álversins sé innan þeirra marka sem tilgreind voru matsskýrslu. Í ljósi þessa ákvæðis og á grundvelli þeirra umhverfisrannsókna sem gerðar hafa verið frá því fyrir tíma álversins og eftir að reksturinn hófst, féllst Hollustuvernd ríkisins án athugasemda á stækkun álversins úr 60.000 í 90.000 t. Í kjölfarið hefur svo Hollustuvernd ríkisins staðfest að áhrif álvers Norðuráls á umhverfið sé innan þeirra marka sem gert var ráð fyrir í upphafi og þessi skilyrði því ekki í gildi lengur.
    Töluverðar grunnrannsóknir hafa farið fram á umhverfisþáttum og lífríki umhverfis iðnaðarsvæðið á Grundartanga, bæði áður en Íslenska járnblendifélagið tók til starfa árið 1979 og áður en álver Norðuráls var gangsett. Grunnrannsóknir í tengslum við byggingu álversins voru gerðar á tímabilinu júní 1997 til júní 1998. Þessum sömu rannsóknum var síðan haldið áfram til júní 1999 en þá tók við umhverfisvöktun. Vöktunaráætlunin var samþykkt af Hollustuvernd ríkisins. Rannsóknir og vöktun ná til loftgæða, gróðurs, jarðvegs, jarðvatns, ferskvatns, úrkomu og búfénaðar. Umhverfi iðnaðarsvæðisins verður vaktað á meðan álver Norðuráls er í rekstri.
    Meginniðurstöður umhverfisrannsókna og vöktunar á Hvalfjarðarsvæðinu sýna að áhrif iðnfyrirtækjanna á Grundartanga hafi verið innan þeirra marka sem sett eru í starfsleyfi þeirra og að áhrif á umhverfið hafi verið í lágmarki.
    Niðurstöður ofangreindra rannsókna voru lagðar til grundvallar mati á umhverfisáhrifum stækkunar álversins í allt að 300.000 tonn. Norðurál sendi Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum stækkunar Norðuráls í allt að 300.000 tonn, í nóvember 2000. Niðurstaða Skipulagsstofnunar lá fyrir 9. janúar 2001 og var tillagan samþykkt með skilyrðum. Í kjölfar þessa var unnin matsskýrsla vegna stækkunar álversins og var hún lögð fram hjá Skipulagsstofnun í mars 2002. Með úrskurði, dags. 27. maí 2002, féllst Skipulagsstofnun á fyrirhugaða stækkun Norðuráls á Grundartanga í allt að 300.000 tonn á ári án skilyrða.
    Í mati á umhverfisáhrifum kom fram að fyrirhugaðar framkvæmdir munu ekki hafa áhrif á sérstæðar jarðmyndanir, einstæðan eða sjaldgæfan gróður, sjaldgæfar tegundir dýra né mikilvæg varplönd eða uppeldissvæði fugla. Framkvæmdirnar eru í samræmi við gildandi aðalskipulag en unnið var að breytingum á deiliskipulagi iðnaðarlóðarinnar samhliða mati á umhverfisáhrifum.
    Meginniðurstaða loftdreifingarspár var sú að ráðandi þynningarsvæði verði óbreytt frá því sem nú er. Ekki kemur því til breytinga á landnotkun utan núverandi þynningarsvæðis.
    Í kjölfar stækkunar álversins geta orðið breytingar á gróðurfari innan þynningarsvæðis þar sem þekja viðkvæmra tegunda víkur hugsanlega fyrir þolnari tegundum. Ekki er mælt með því að landbúnaður og aðrar nytjar verði stundaðar innan svæðis þar sem búist er við því að styrkur loftborins flúoríðs verði meiri en 0,3 m g/m 3 yfir 6 mánaða tímabil (þynningarsvæði flúoríðs). Þynningarsvæði fyrir iðnaðarsvæðið á Grundartanga er sýnt á mynd 2.
    Að beiðni Skipulagsstofnunar voru áhrif vothreinsunar könnuð. Í ljós kom að áhrifa vothreinsunar gætir einungis á takmörkuðu svæði framundan iðnaðarlóðinni. Niðurstaða matsskýrslunnar er sú að ekki er talin þörf á því að setja upp vothreinsibúnað við álverið.
    Rekstur álversins eftir stækkun í 300.000 t mun valda útstreymi á gróðurhúsalofttegundum sem nemur um 530.000 t á ári. Þetta útstreymi er innan þeirra marka sem lýst er í stefnu íslenskra stjórnvalda um losun gróðurhúsalofttegunda.
    Meginniðurstaða mats á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar stækkunar álvers Norðuráls í allt að 300.000 t ársframleiðslu er sú að mengun verður vel innan viðmiðunarmarka utan þynningarsvæðis. Önnur umhverfisáhrif eru ekki þess eðlis að þau mæli gegn fyrirhugaðri framkvæmd.

6.     Samfélagsleg áhrif.
    Samfélagsleg áhrif fyrirhugaðrar stækkunar á álveri Norðuráls eru jákvæð og mun fjölgun starfa líklega stuðla að áframhaldandi íbúafjölgun á Vesturlandi. Áætluð mannaflaþörf á framkvæmdatíma stækkunar álversins og tengdra virkjanaframkvæmda er um 700–800 ársverk á ári að meðaltali. Þar af er gert ráð fyrir að þegar mest er muni 570 manns starfa við framkvæmdir Norðuráls. Gert er ráð fyrir um 300–450 nýjum framtíðarstörfum í stækkuðu álveri Norðuráls. Heildarfjöldi starfsmanna í álverinu mun þá verða á bilinu 500–650. Gert er ráð fyrir að 85% nýrra starfsmanna verði búsettir á Vesturlandi svipað því sem nú er, en 15% búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Það var mat þjóðhagsstofnunar að þjóðarframleiðsla muni aukast um 1,5% á framkvæmdatíma Norðuráls og tengdra virkjanaframkvæmda. Talið er að varanleg áhrif stækkunar Norðuráls á þjóðarframleiðslu verði 0,5% en 0,6% á landsframleiðslu.

7.     Starfsleyfi.
    Samhliða vinnu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar var starfsleyfi fyrir allt að 300.000 t ársframleiðslu endurskoðað. Voru því drög að starfsleyfi kynnt um leið og skýrsla um mat á umhverfisáhrifum. Að loknum kynningum og lögbundnu ferli tók Umhverfisstofnun ákvörðun um útgáfu starfsleyfis 24. febrúar 2003. Sem fyrr eru í starfsleyfi ákvæði þess efnis að mengunarvarnir og tæki álversins munu sem fyrr fullnægja kröfum um bestu fáanlegu tækni (BAT, Best Available Technique, sbr. OSPAR 98/2).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Mynd 1. Stækkun Norðuráls, fyrirkomulag helstu mannvirkja .

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2. Þynningarsvæði fyrir iðnaðarsvæðið á Grundartanga.
Fylgiskjal II.

Landsvirkjun:

Greinargerð forstjóra Landsvirkjunar um fyrirhugaðan rafmagnssamning Landsvirkjunar og Norðuráls hf. vegna stækkunar álversins að Grundartanga.

(24. febrúar 2003.)

    
    Gildandi rafmagnssamningur milli Landsvirkjunar og Norðuráls hf. vegna álverksmiðju þess að Grundartanga í Hvalfirði, þar sem starfræksla hófst á árinu 1998, var gerður hinn 1. ágúst 1997 og fjallaði um afhendingu á raforku til upphafsáfanga álversins, er fólst í byggingu einnar kerjaraðar í tveimur kerskálum með árlegri framleiðslugetu sem svarar um 60.000 tonnum af frumbræddu áli. Hinn 2. október 1999 var samningnum svo breytt með viðauka, er laut að orkuafhendingu til annars áfanga álversins, er fólst í stækkun kerjaraðarinnar og kerskálanna sem svaraði framleiðslu á um 30.000 tonnum á ári til viðbótar. Voru þau stækkunarmannvirki tekin í gagnið í júní árið 2001, þannig að afkastageta álversins er nú um 90.000 tonn á ári. Samningsbundið rafmagn til álversins samkvæmt samningnum nemur í heild 161 MW (meðaltal á klst.) og 1400 GWst á almanaksári. Er meginhluti þess gerður tiltækur á tryggðum grundvelli, en nokkur hluti er afhentur sem afgangsorka, er Landsvirkjun hefur heimild til að skerða.
    Samkvæmt samningnum ber Landsvirkjun ein ábyrgð gagnvart Norðuráli á afhendingu rafmagnsins, en í upphafi var hluta þess aflað á grundvelli samnings milli Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á jarðvarmaraforku frá Nesjavöllum, og við stækkunina var hluti rafmagnsins tryggður á svipaðan hátt með samningi milli Landsvirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja um kaup á orku frá jarðgufuvirkjun hennar í Svartsengi.
    Norðurál hefur frá öndverðu lýst áhuga á frekari stækkun álversins, og frá því á árinu 1999 hefur það verið til umræðu milli aðilanna, hvaða möguleikar séu á orkuöflun til hennar að öðrum skilyrðum uppfylltum. Hefur umræðan aðallega miðast við stækkun með byggingu nýrrar kerjaraðar í tveimur kerskálum, er hefði 150.000 árstonna grunnafkastagetu, en kæmi til framkvæmda í tveimur áföngum, er svöruðu til 90.000 og 60.000 árstonna af frumbræddu áli. Af hálfu Norðuráls var því einnig lýst, að æskilegt væri að stefna að 300.000 tonna heildarframleiðslu síðar meir.
    Vorið 2001 voru teknar upp formlegar viðræður milli Landsvirkjunar og Norðuráls um mögulega afhendingu á rafmagni til fyrsta áfangans að umræddri stækkun álversins, þ.e. nýrrar kerjaraðar og kerskála með um 90.000 árstonna afkastagetu. Leiddu þær til samkomulags um grundvöll að rafmagnssamningi vegna þessarar stækkunar, sem aðilarnir staðfestu með sameiginlegri yfirlýsingu (Memorandum of Understanding) hinn 2. ágúst 2002. Af hálfu Norðuráls var samkomulagið meðal annars bundið við, að unnt yrði að afla starfsleyfis frá umhverfisyfirvöldum fyrir 300.000 tonna ársframleiðslu alls, þar sem virki hinnar nýju kerjaraðar yrðu miðuð við, að unnt yrði síðar að auka afkastagetu hennar. Þetta skilyrði hefur nú gengið eftir, þar sem niðurstöður af umhverfismati á þessari heildarstækkun álversins hafa reynst jákvæðar, og hefur starfsleyfið nú verið gefið út til félagsins.
    Af hálfu Landsvirkjunar var við það miðað, að rafmagns vegna stækkunarinnar yrði aflað á annan bóginn með orkuframkvæmdum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, sem einkum yrðu fólgnar í byggingu Norðlingaölduveitu samkvæmt áætlun þeirri, sem lögð var til umhverfismats vorið 2002, en á hinn bóginn með orkukaupum frá jarðgufuvirkjunum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Hafði Landsvirkjun jafnhliða haldið uppi viðræðum við þau fyrirtæki, sem einnig leiddu í ljós að hennar mati, að samkomulagsgrundvöllur væri fyrir hendi.
    Hið umbeðna mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Norðlingaölduveitu hefur nú verið leitt til lykta með úrskurði setts umhverfisráðherra 30. janúar 2003. Í honum var fallist á áform Landsvirkjunar með mjög verulegum breytingum á tilhögun veituvirkjanna, svo sem kunnugt er. Hefur því reynst nauðsynlegt að endurmeta gildi framkvæmdarinnar og arðsemi nýtingar hennar í því skyni að standa undir aukinni orkusölu til Norðuráls. Þetta endurmat gefur til kynna, að bygging Norðlingaölduveitu ásamt setlóni, sem lýst er í úrskurðinum, megi teljast hagkvæmur virkjunarkostur.
    Samkvæmt þessu er það afstaða Landsvirkjunar, að rétt sé að ganga til endanlegrar samningsgerðar við Norðurál um afhendingu á rafmagni til umræddrar stækkunar álversins að Grundartanga, er reist verði í meginatriðum á þeim grundvelli, sem lýst er í samkomulagi aðilanna frá 2. ágúst sl. Verði meðal annars leitast við að fylgja þeim tímamörkum um framkvæmdir af hálfu aðila, sem þá var um rætt, að meðtöldum framkvæmdum á vegum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur samkvæmt samningsgerð milli þeirra og Landsvirkjunar.
    Hér á eftir fer lýsing á þeim rafmagnssamningi, sem þannig er fyrirhugaður milli Landsvirkjunar og Norðuráls.

Forsendur samningsins.
    Samningnum verður ætlað að sjá fyrir því aukna rafmagni, sem Norðurál þarf á að halda til að halda uppi rekstri á nýrri kerjaröð í tveimur kerskálum með um 90.000 árstonna framleiðslugetu til viðbótar núverandi framleiðslumannvirkjum sínum, þar sem ársafköst eru einnig um 90.000 tonn. Við það er miðað, að viðbótarmannvirkin búi við sama rekstraröryggi og núverandi verksmiðja að því er orku varðar, og að umgerð samningsins verði í megindráttum hin sama og er á núgildandi samningi. Er þess þannig vænst, að ekki verði gerður sérsamningur vegna þessa nýja áfanga, heldur verði samið um hið aukna rafmagn í viðauka við núverandi samning, þar sem á honum verði gerðar þær breytingar, sem nauðsynlegar eru vegna aukningarinnar, á sama hátt og við fyrri stækkun og í eldri samningum vegna álversins í Straumsvík. Verð á viðbótarorkunni verður þó ákveðið sjálfstætt, og sjálfstæð ákvæði verða um gildistíma þess og viðaukans að öðru leyti.
    Umrædd stækkun álversins verður byggð í einum áfanga, og verður að því stefnt, að unnt reynist að taka hann í notkun innan ársins 2005. Er þess þannig að vænta, að báðir aðilar hefjist handa um framkvæmdir vegna samningsins þegar á yfirstandandi ári.
    Við það er miðað, að aukinnar orku vegna samningsins í hinu samtengda raforkukerfi Landsvirkjunar verði m.a. aflað með byggingu Norðlingaölduveitu í samræmi við úrskurð setts umhverfisráðherra frá 30.01.2003. Norðlingaöldulón verði allt utan friðlandsins, en úr því verði vatni veitt um göng og skurði yfir í veitu að Þórisvatni, þaðan sem það renni til orkuvera á svæðinu. Gert verði setlón vestan núverandi Þjórsárlóns (Kvíslaveitu), utan friðlands í Þjórsárverum, með tilheyrandi leiðigörðum, stíflum og skurðum. Úr setlóninu verði vatni veitt í kvíslar neðan þess til að varðveita sem mest óbreytta grunnvatnsstöðu innan friðlandsins, en að öðru leyti verði vatni veitt úr setlóninu í Kvíslaveitu, þaðan sem það renni í Þórisvatn. Unnið er að nánari útfærslu Norðlingaölduveitu.
    Þess er vænst, að orkuvinnslugeta í kerfi Landsvirkjunar muni aukast um sem næst 570 GWst á ári við tilkomu miðlunar frá þessari Norðlingaölduveitu. Til viðbótar því magni mun Landsvirkjun festa kaup á u.þ.b. 40 MW í afli og 340 GWst í ársorku frá Hitaveitu Suðurnesja og svipuðu magni frá Orkuveitu Reykjavíkur, með samningum við hvort fyrirtæki um sig á þeim grundvelli, sem um var rætt milli aðilanna á liðnu sumri. Á næstu vikum munu ofangreind fyrirtæki ræða sín á milli hvernig mæta skuli þeirri orkuþörf sem útaf stendur eftir úrskurð setts umhverfisráðherra.
    Meðal framkvæmda á vegum Landsvirkjunar sem þörf er á vegna samningsins verður Sultartangalína 3 frá tengivirkinu á Sultartanga að aðveitustöðinni á Brennimel í Hvalfirði, sem jafnframt mun nýtast til annarra þarfa. Sú framkvæmd bíður nú úrskurðar umhverfisráðherra en hans er að vænta á næstunni. Verður hún byggð fyrir 400 kV spennu, en rekin með 220 kV spennu fyrst um sinn.

Rafmagnsafhending.
    Samningurinn mun kveða á um, hversu mikið rafmagn Landsvirkjun beri að hafa tiltækt á hverjum tíma handa álveri Norðuráls vegna stækkunar þess, frá og með föstum afhendingardegi. Verður það aðallega á tryggðum grundvelli (forgangsafl og forgangsorka), en einnig á ótryggðum grundvelli (afgangsafl og afgangsorka). Verður hlutfallið milli tryggðs og ótryggðs rafmagns (90:10) hið sama og eftir núgildandi samningi. Nánar tiltekið verður hið samningsbundna rafmagn, er við bætist, sem næst eins og hér segir:

Tryggt Ótryggt Samtals
Afl (meðaltal á klst.) 137 MW 15 MW 152 MW
Orka á almanaksári 1188 GWst 132 GWst 1320 GWst

    Skilgreining rafmagns á ótryggðum grundvelli verður hin sama og í núgildandi samningi, og felst í henni heimild til skerðingar á afli og orku innan tiltekinna marka, ef um er að ræða vatnsskort við virkjanir Landsvirkjunar eða truflanir í hinu samtengda raforkukerfi. Til þess verður ætlast, að slíkum skerðingum skuli beitt án mismununar milli kaupenda á sviði orkufreks iðnaðar.
    Fyrirheitinu um tiltækt rafmagn mun fylgja skylda af hálfu Norðuráls til að kaupa eða greiða fyrir tiltekið orkumagn að lágmarki á almanaksári hverju, hvort sem það er nýtt eða ekki. Verður lágmarkið hliðstætt því sem um er mælt í gildandi samningi, þ.e. um 85% af hinu samningsbundna rafmagni í heild. Ber fyrirtækinu að standa skil á 1/ 12þessa orkumagns fyrir hvern mánuð, en hin árlega skuldbinding verður gerð upp eftir á samkvæmt meðaltali kaupskyldu og notkunar fyrir hver næstliðin tvö ár.

Upphaf afhendingar og bygging mannvirkja.
    Hinn fasti afhendingardagur rafmagns samkvæmt samningsviðaukanum verður væntanlega snemma árs 2006, og verður aðilum ætlað að leiða nauðsynlegar framkvæmdir vegna samningsins til lykta fyrir þann tíma, nema tafir verði á þeim af völdum óviðráðanlegra afla (force majeure).
    Í samningsviðaukanum og fylgiskjölum með honum verður gerð grein fyrir meginþáttum framkvæmda á vegum hvors aðila og áætlunum um framvindu þeirra, ásamt viðurlögum, sem til greina geti komið, ef út af bregður. Jafnframt verður kveðið á um þau skilyrði, er aðilar þurfi að uppfylla til þess að samningurinn gangi og haldist í gildi. Mun Landsvirkjun meðal annars ætlast til þess, að sýnt verði fram á, að fjármögnun á byggingu og verklokum vegna stækkunar álversins hafi verið tryggð þannig að ásættanlegt sé fyrir báða aðila, með svipuðum hætti og gert var í upphaflegum samningi, að breyttu breytanda með tilliti til þess, að álver Norðuráls er nú fyrirtæki í fullum rekstri.

Rafmagnsverð.
    Orkuverð samkvæmt samningsviðaukanum verður ákveðið sjálfstætt, sem fyrr segir, og við það er miðað, að gildistími samningsins um það og viðbótarorkuna verði hliðstæður tímalengd núverandi samnings, þ.e. 20 ár frá hinum fasta afhendingardegi, með möguleika á framlengingu um ekki minna en 10 ár með skilmálum, sem báðir aðilar geti fellt sig við.
    Samkvæmt ákvörðun Landsvirkjunar og samkomulagi um trúnað milli aðila ber að fara með samningsákvæðin um rafmagnsverð sem viðskiptaleyndarmál, og er því ekki unnt að greina hér frá þeim í einstökum atriðum. Þó ber að taka fram, að hið umsamda orkuverð verður tiltekið sem einingarverð á hverja kílówattstund, sem afhent er eða fellur til greiðslu samkvæmt kaupskyldu, og ákvarðað mánaðarlega samkvæmt tengingu við alþjóðlegt markaðsverð á áli eftir umsaminni aðferð. Það verður og ákvarðað og greitt í bandaríkjadollurum.

Almenn ákvæði.
    Við það er miðað, að almenn ákvæði samningsins verði að öllu verulega hin sömu og um er mælt í núverandi rafmagnssamningi milli Landsvirkjunar og Norðuráls, þannig að væntanlegur samningsviðauki falli inn í þann ramma, sem fyrir er. Þar á meðal má telja ákvæði um skyldur aðila til að reisa og reka mannvirki sín og halda þeim við í samræmi við bestu viðurkenndar venjur, ásamt ákvæðum um gagnkvæma takmörkun bótaábyrgðar og um óviðráðanleg öfl (force majeure) og áhrif þeirra.
    Jafnframt má nefna ákvæði í núverandi samningi um rétt aðila til að óska viðræðna um breytingu eða aðlögun á samningnum, ef atburðir gerast, sem telja má til grundvallarbreytinga innan áliðnaðarins og leiða til röskunar á jafnvægi samningsins í grundvallaratriðum, þannig að öðrum hvorum aðilanum sé íþyngt með ósanngjörnum hætti. Má gera ráð fyrir, að þetta ákvæði, er einkum skiptir máli varðandi orkuverðið, muni einnig taka til samningsviðaukans samkvæmt viðeigandi afmörkun.
    Um samningsviðaukann mun fara eftir íslenskum lögum, og ákvæði fyrri samnings um lausn deilumála fyrir íslenskum dómstólum eða umsömdum gerðardómi munu einnig eiga við um hann. Loks er þess að vænta, að núverandi ákvæði um takmarkanir við framsali á samningnum og réttindum og skyldum samkvæmt honum muni haldast óbreytt í meginatriðum. Samningsviðaukinn verður gerður á íslensku og ensku.

Arðsemi og áhrif á fjárhag.
    Sjá mátti fyrir, þegar Landsvirkjun og Norðurál gáfu út hina sameiginlegu yfirlýsingu sína 2. ágúst 2002, að fyrirhugaður samningur þeirra vegna stækkunar álversins yrði fjárhagslega hagkvæmur fyrir Landsvirkjun miðað við þá tilhögun, sem ráðgerð var um framkvæmdir og orkuöflun af hennar hálfu. Verið er að leggja nýtt mat á hagkvæmni samningsins á grundvelli þeirra breytinga, sem nú má vænta á framkvæmdum vegna hans, og aðstæðna að öðru leyti. Því verki er ekki að fullu lokið, en gerðar athuganir að svo komnu gefa eindregið til kynna, að Landsvirkjun eigi hér kost á hagstæðum samningi, sem hafa muni jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins. Það er því mat Landsvirkjunar, sem fyrr segir, að rétt sé að ganga nú til umræddrar samningsgerðar við Norðurál hf.

Reykjavík, 24. febrúar 2003.

Friðrik Sophusson
forstjóri.

Fylgiskjal III.

Hönnun hf.:

Greinargerð um niðurstöður rannsókna og vöktunar.


1.     INNGANGUR
    Á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga eru starfandi tvö stóriðjufyrirtæki, Íslenska járnblendifélagið hf. og Norðurál. Norðurál hóf rekstur í júní 1998 en Íslenska járnblendifélagið haustið 1979. Meira er til af rannsóknum og vöktun á umhverfisþáttum og lífríki í nágrenni iðnaðarsvæðisins en á flestum öðrum sambærilegum svæðum hér á landi. Frá því að álverið hóf rekstur hafa fyrirtækin tvö staðið saman að umhverfisvöktun í nágrenni iðnaðarsvæðisins, en tilgangur hennar er að fylgjast með áhrifum iðnrekstrarins á umhverfið. Vöktunaráætlunin er samþykkt af starfsleyfisveitanda iðnfyrirtækjanna (Umhverfisstofnun) og gildir fram til ársins 2009. Rannsóknaraðilar vöktunarinnar eru óháðir og opinberir.

2.     VÖKTUNARÁÆTLUN OG FYRIRKOMULAG
    Fyrstu rannsóknir, sem fóru fram í tengslum við fyrirhugaða iðnaðarstarfsemi á Grundartanga, voru gerðar áður en Íslenska járnblendifélagið hóf starfsemi sína árið 1979. Áður en álver Norðuráls hóf rekstur voru síðan gerðar rannsóknir á völdum umhverfisþáttum sem haldið var áfram út fyrsta starfsár álversins (júní 1997–júní 1999). Í kjölfarið var sett á fót vöktunaráætlun þar sem fylgst er með ákveðnum þáttum í umhverfinu á rekstrartíma álversins. Vöktunin er framkvæmd samkvæmt áætlun til 10 ára (1999–2009) sem unnin var í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins. Umsjón með vöktunarþáttum og mælingar eru í höndum viðurkenndra aðila á nokkrum opinberum rannsóknastofnunum, en Hönnun hf. sér um verkefnastjórnun. Tilgangur vöktunarinnar er m.a. að meta hvort kröfur starfsleyfis séu uppfylltar og skoða áhrif stækkunar á umhverfi með samanburði við grunngildi helstu umhverfisþátta.
    Tafla 1 sýnir vöktunaráætlunina fyrir iðnaðarsvæðið. Eins og taflan sýnir eru sumir þættir vaktaðir árlega en aðrir sjaldnar. Hvað varðar vöktun loftgæða, þá kemur eftirfarandi enn fremur fram í vöktunaráætluninni: „Við val á ári og tímabili, sem allar þrjár vöktunarstöðvar loftgæða eru reknar, skal taka mið af rekstri fyrirtækjanna, þannig að sem best gögn verði til um áhrif breytinga í rekstrinum.“ Dæmi um útfærslu þessa ákvæðis er að síðastliðið sumar var vöktunaráætlun loftgæða fyrir árið 2001 breytt vegna stækkunar Norðuráls úr 60.000 í 90.000 t ársframleiðslu sumarið 2001. Allar þrjár vöktunarstöðvarnar fyrir loftgæði voru reknar þetta ár en ekki ein eins og áætlað var.
    Veðurmælingar eru einnig liður í vöktunaráætluninni þó þær komi ekki fram í töflu 1. Til ársloka 1999 var mældur hitastigull í Akrafjalli og vindátt, vindhraði og hiti í veðurstöð á Hálsnesi en frá árinu 2000 hefur eingöngu verið stuðst við veðurgögn frá Grundartangahöfn.

Tafla 1. Vöktunaráætlun fyrir iðnaðarsvæðið á Grundartanga til ársins 2009. Staðsetningu vöktunarstöðvanna má sjá á mynd 1.
         
Árleg vöktun Vöktun á 3
ára fresti
Vöktun á 5
ára fresti
Vöktun á
6 ára fresti
Efna- og eðlisþættir
í lofti og í regnvatni
Stekkjarás Hálsnes og
Smáholt
Efna- og eðlisþættir
í ferskvatni
Laxá í Leirársveit,
Kalmansá, Urriðaá,
Berjadalsá, Fossá
Merki um áhrif
flúors á kjálkum
sláturfjár og flúor-
mæling í beinum
Litla-Fellsöxl, Litli-
Lambhagi, Katanes,
Kirkjuból, Vogatunga,
Skipanes, Skollholt,
Leirá, Ferstikla,
Kiðafell, Fell og
Grjóteyri.
Flúormælingar í
gróðri (grasi, laufi
og barri)
Stekkjarás, Fannahlíð,
Fellsaxlarkot,
Félagsgarður,
Fossbrekka, Reynivellir.
Vöktun á mosa
og fléttugróðri
62 reitir
Efna- og eðlisþættir í
gróðri, heyi og jarðvegi
Flúormælingar í gróðri:
Stekkjarás, Klafastaðir,
Katanes, Galtarholt og
Litla-Skarð.
Efna- og eðlisþættir
mældir í gróðri og jarðvegi: Kiðafell,
Neðri-Háls,
Hrafnabjörg,
Kalastaðir,
Galtarholt, Litla-Fellsöxl, Gröf II,
Katanes, Lyngholt,
Belgsholt og
Innri-Hólmi.
Mælingar á styrk
cýaníðs og flúoríðs
í sjó.
Mælingar við kerbrotagryfju.
Mælingar á flúor,
þungmálmum og
PAH-efnum
í Kræklingi.
Mælingar
með sama
hætti og
árið 2000,
a.m.k. fram
til 2009.

    Eftir frekari stækkun álversins verður núverandi vöktunaráætlun fram til ársins 2009 haldið áfram. Hún verður þó endurskoðuð í kjölfar niðurstaðna fyrstu þriggja starfsáranna og þá gerð langtímaáætlun.
    Norðurál hefur hingað til uppfyllt ákvæði starfsleyfis um eftirlit með flæðigryfju. Í ljósi nýrrar tilskipunar ráðs Evrópusambandsins (kom út árið 1999) er stefnt að því að leggja fram ítarlegri vöktunaráætlun um rannsókn á áhrifum kerbrotagryfja á umhverfið á miðju ári 2002. Auk þess er stefnt að því að nota tímabilið 2002–2009 til að safna gögnum þannig að þegar ákvæði tilskipunarinnar taka gildi árið 2009 verði komin vöktunaráætlun fyrir flæðigryfjuna og rökstuðningur fyrir því hvort hún sé fýsilegur kostur eða ekki. Norðurál mun standa að árlegum efnamælingum á styrk cýaníðs og flúoríðs í sjó utan við þá kerbrotagryfju, sem er í notkun hverju sinni, og efnamælingum í kræklingi á 3 ára fresti, a.m.k. fram til ársins 2009. Eftir það verður vöktunaráætlunin endurskoðuð en ljóst er að ákveðnir umhverfisþættir verða vaktaðir svo lengi sem fyrirtækið er í rekstri.

3. HELSTU NIÐURSTÖÐUR
    Meginniðurstöður umhverfisrannsókna og vöktunar á Hvalfjarðarsvæðinu eru dregnar saman í töflu 2. Í stuttu máli má segja að niðurstöðurnar sýni að áhrif iðnfyrirtækjanna á Grundartanga hafi verið vel innan þeirra marka sem sett eru í starfsleyfi þeirra. Iðnaðarsvæðið er aðaluppspretta brennisteinstvíoxíðs og flúors, en þó er styrkur þessara efna í lofti vel innan viðmiðunarmarka fyrir loftgæði. Aðaluppspretta brennisteinstvíoxíðs til þessa hefur verið járnblendiverksmiðjan en aðaluppspretta flúors hefur verið álverið. Rannsóknir sýna einnig að meginuppspretta svifryks á Hvalfjarðarsvæðinu er utan iðnaðarsvæðisins. Ríkjandi vindáttir á Grundartanga eru austlægar og norðaustlægar. Loftdreifing frá iðnaðarsvæðinu er því tíðust á haf út, annað hvort yfir Akrafjall eða beint út á Leirárvog. Þessi dreifing endurspeglast í vöktun loftgæða og lífríkis, þar sem hæstu gildin mælast yfirleitt að Stekkjarási og á mælireitum út með Akrafjalli í átt að Leirárvogi. Á mynd 1 er sýnd staðsetning vöktunarstöðva.
    Á fyrstu starfsmánuðum Norðuráls var mun meiri losun flúors en á árunum þar á eftir. Ástæðu þess má rekja til þess að nokkurn tíma tekur að ná jafnvægi í rekstri nýrra rafgreiningarkera og annarra tækja. Flúorstyrkur í lofti hefur því farið minnkandi frá fyrsta starfsári álversins. Toppurinn fyrstu mánuðina endurspeglaðist í vöktun lífríkis. Að jafnaði hefur flúormagn í gróðri lækkað aftur frá fyrsta starfsári álversins og er það í góðu samræmi við mælingar á flúor í lofti. Haustið 2001 varð þó vart aukningar á magni loftborins flúors og brennisteins í næsta nágrenni iðnaðarsvæðisins sem má rekja til framleiðsluaukningar álversins sumarið 2001 upp í 90.000 t ársframleiðslu. Aukningin endurspeglaðist yfirleitt í magni flúors í gróðri á sömu stöðum. Ekki hefur orðið vart breytinga í efnasamsetningu ferskvatns á svæðinu og árið 2000 sýndu rannsóknir á kræklingi utan við iðnaðarsvæðið, einkum utan við flæðigryfjur í höfninni, að rekstur Norðuráls hefur ekki leitt til breytinga á efnainnihaldi hans.
Tafla 2. Yfirlit yfir þá þætti sem umhverfisrannsóknir og vöktun hafa tekið til og helstu niðurstöður.
Mæliþættir Mælistaðir (sjá mynd 1) Meginniðurstaða Athugasemdir
Loftgæði      *      svifryk
     *      brennisteinstvíoxíð (SO2)
     *      flúor í lofti og ryki.
     *      úrkoma (sýrustig, flúor, klór, súlfat, natríum og nítrat).
     *      vindátt, vindhraði, hitastig og rakastig.
Á Grundartanga:
Stekkjarás og Smáholt.

Sunnan Hvalfjarðar: Á Hálsnesi.
Allir mæliþættir eru vel undir viðmiðunarmörkum. Flúor í lofti hefur að jafnaði farið lækkandi frá fyrsta starfsári álversins, en þó hefur orðið varð vart lítillar hækkunar árin 2001 og 2002 samfara stækkun í 90.000 t. Eftir árið 2001 verða allar þrjár mælistöðvarnar reknar þriðja hvert ár, en mælistöðin á Stekkjarási verður rekin á hverju ári.
Gróður-
rannsóknir
Árið 1997 fór fram rannsókn á gróðurfari í nágrenni Grundartanga og var gert gróðurkort af 8 km2 stóru svæði í kringum iðnaðarsvæðið, auk grunnlínumælinga á efnamagni í gróðri og jarðvegi. Margir rannsóknastaðir á 8 km2 svæði í nágrenni Grundartanga. Tegundafjölbreytni fléttna og mosa breyttist ekki á tímabilinu 1976–1997. Þó sást töluverð hnignun á þekju fléttna í einstaka gróðurmælingarreit á Stekkjarási, sem er innan þynningarsvæðis fyrir brennisteinstvíoxíð og ryk. Ekki var þó hægt að rekja hnignunina beint til SO2-mengunar.
Hér er skilið á milli gróðurrannsókna og reglubundinnar vöktunar, sem fer fram árlega eða með nokkurra ára millibili, og er hluti af starfsleyfiskröfum.
Gróður-
vöktun
     *      uppskerumæling og gróðurgreining.
     *      flúor, nitur og brennisteinn í gróðursýnum.
     *      sýrustig í jarðvegi.
     *      gróðurgreining og mat á þekju á fléttum og mosum.
     *      flúor og brennisteinn í fléttum.
Margir sýnatökustaðir og mikil dreifing innan 20 km fjarlægðar frá Grundartanga.
Fléttur og mosar: 18 stöðvar á Hvalfjarðarsvæðinu, frá Hafnarfjalli suður að Tíðaskarði og inn í Hvalfjarðarbotn.
Mælingar í grasi, laufi og barri sýna að mesta flúormagn sem mælist er ekki líklegt til að valda skaða eða trufla vöxt eða þroska gróðurs. Það sama á við um brennistein í gróðri. Á mel við Stekkjarás (staðsettur innan þynningarsvæðis) er magn flúors í mosa og fléttum þó komið nálægt þeim mörkum að vænta megi skaða á gróðrinum. Að jafnaði mælist styrkur flúors í grasi neðan við eða nálægt bakgrunnsgildi (10 .g/.g), en í laufi og barri hefur verið vart nokkurrar hækkunar. Árleg gróðurvöktun tekur til flúors í grasi, laufi og barri. Aðrir þættir eru vaktaðir með lengra millibili.
Jarðvegur og
sigvatn
     *      Sýrustig, rúmþyngd og kalkþörf í jarðvegi.
     *      Hitastig, leiðni, sýrustig, basavirkni, flúor, súlfat og klór í sigvatni.
Árin 1997 og 1999 voru gerðar mælingar í mismunandi gróðurlendi og dýpi á mörgum mælistöðum á 4 jörðum í nágrenni iðnaðarsvæðisins auk viðmiðunargilda frá Borgarfirði.
Sigvatni var safnað á árunum 1997–1999 á 7 stöðum í nágrenni Grundartanga.
Ekki varð vart neinna marktækra breytinga á sýrustigi jarðvegs á tímabilinu. Sýrustig er fremur lágt eins og algengt er í mýrarjarðvegi á Vesturlandi.
Styrkur aðalefna, flúors, þungmálma og annarra snefilefna í sigvatni var almennt lítill á tímabilinu, þó hærri en í straumvatni. Mikill breytileiki mældist í styrk súlfats í sigvatni vegna breytileika í úrkomu þar sem uppgufun úr sjó hefur mest áhrif.
Ferskvatn      *      sýrustig [pH]
     *      leiðni
     *      basavirkni
     *      flúor [F]
     *      súlfat [SO4]
     *      klór [Cl]
     *      rennsli og hitastig
Laxá í Leirvogssveit, Urriðaá, Kalmansá, Berjadalsá, Fossá, Þverá við Geitaberg, Kúludalsá, lækur úr Akrafjalli við Fellsenda. Áhrif iðnaðarsvæðisins á nálæg straumvötn eru ekki sýnileg. Engin glögg breyting hefur orðið á efnasamsetningu straumvatna frá árinu 1997.
Búfénaður      *      flúor í beinum sauðfjár.
     *      ástand kjálkabeina og tanna í sauðfé.
Margir sýnatökustaðir í allt að 15 km fjarlægð frá Grundartanga. Niðurstöður sýna að skoðun á beinum sláturfjár og mælingar á flúormagni í beinösku gefa ekki til kynna flúorskemmdir. Niðurstöður efnamælinga í gróðri styðja þessa niðurstöðu.
Sjávar-
lífverur
Mælingar í kræklingi árið 2000:
     *      dauðatíðni
     *      vöxtur, holdafar og meginefnaþættir
     *      þungmálmar
     *      PAH efni
     *      Flúor
Fjórir sýnatökustaðir utan við iðnaðarsvæðið. Búr með kræklingi sett á 1 og 5 m dýpi. Ekki varð vart aukningar í styrk flúors eða PAH í kræklingi. Aukning í magni einstakra þungmálma var ekki hægt að rekja til iðnrekstrar á Grundartanga.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


                    Mynd 1. Staðsetning vöktunarstöðva.
Fylgiskjal IV.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga
um álbræðslu á Grundartanga, nr. 62/1997, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er ríkisstjórninni og iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga við Norðurál hf. um stækkun álvers félagsins í allt að 300.000 tonn í tveimur áföngum. Ákvæði 2. gr. frumvarpsins eru að mestu sambærileg 5. gr. frumvarps til laga um samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Þar er m.a. lagt til að tekjuskattur verði 18% líkt og gildir gagnvart íslenskum fyrirtækjum, en geti ekki orðið hærri en 18% þrátt fyrir að íslenskum fyrirtækjum verði gert að greiða hærri skatt samkvæmt hærra skatthlutfalli. Einnig er lagt til að félaginu verði heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu níu almanaksárum. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að félagið greiði fasteignaskatt til Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps, sem nemi 0,75% af áætluðu verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu. Einnig er lagt til að hafnarsjóði Grundartangahafnar verði veitt heimild til að gera sérstakan samning um vörugjöld með öðrum hætti en fram kemur í hafnalögum. Um þessi atriði og fleiri er nánar fjallað í greinargerð frumvarpsins. Gera má ráð fyrir auknum skatttekjum af umsvifunum á framkvæmdatíma og þegar verksmiðjan er komin í fulla framleiðslu, en efnahagsskrifstofa hefur gert ráð fyrir að landsframleiðsla aukist varanlega um ½% vegna stækkunarinnar. Á framkvæmdatímanum er áætlað að landsframleiðslan verði á bilinu 1–1½% hærri en annars. Að öllu samanlögðu mun því afkoma ríkissjóðs að líkindum batna verði frumvarpið að lögum og ráðist verði í framkvæmdirnar.