Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 680. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1103  —  680. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 33 16. apríl 2002, um eldi nytjastofna sjávar.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna koma tvær nýjar greinar og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því:

    a. (5. gr.)
    Ráðherra fer með yfirstjórn sjúkdómamála er varða dýr sem lög þessi ná til. Honum til aðstoðar er fisksjúkdómanefnd, sbr. 78. gr. laga nr. 76 25. júní 1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, eftir því sem við á varðandi sjávardýr.

    b. (6. gr.)
    Heimilt er að flytja til landsins frá eldisstöð sjávardýr er lög þessi ná til, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð til eldis í eldisstöð, enda skal innflutningurinn háður skilyrðum reglugerðar sem sjávarútvegsráðherra setur, að höfðu samráði við embætti yfirdýralæknis. Við innflutning skal framvísa skriflegri staðfestingu yfirdýralæknis um að uppfyllt séu skilyrði samkvæmt þessu ákvæði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með undirritun EES-samningsins skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að innleiða í íslenskan rétt tilskipun 91/67/EBE, um skilyrði á sviði heibrigðis dýra sem hafa áhrif á markaðssetningu fiskeldistegunda og -afurða, sem taka átti gildi í júlí 1994. Eitt meginmarkmið tilskipunarinnar er að samræma eftirlit og kveður hún á um nánari skilgreiningu þeirra heilbrigðisskilyrða sem þarf að uppfylla svo að milliríkjaviðskipti geti átt sér stað með lifandi eldisdýr innan og utan EES.
    Almennt má segja að tilskipunin kveði á um nánari skilgreiningu þeirra skilyrða sem þarf að uppfylla svo að milliríkjaviðskipti geti átt sé stað með lifandi fisk, krabbadýr eða lindýr innan og utan EES. Tilskipunin lýsir þannig skilyrðum dýraheilbrigðis við inn- og útflutning eldisdýra, eldisafurða og notkun flutningstækja við slíkan flutning. Meginreglan er sú samkvæmt tilskipuninni að inn- og útflutningur fyrrgreindra afurða innan EES er heimill, enda sé heilbrigði dýra og afurða vottað af opinberum eftirlitsaðilum, hérlendis embætti yfirdýralæknis. Frekari takmarkanir koma til vegna smitnæmni tegunda, tegundar sjúkdóms, staðsetningar eldisstöðva eða ástands eldisstöðva. Utan EES hafa ákveðin lönd sem uppfylla tilteknar kröfur sömu heimild til innflutnings til EES-landa og lönd innan EES.
    Íslensk stjórnvöld hafa haft víðtæka undanþágu frá framangreindri tilskipun en sú undanþága féll endanlega úr gildi 30. júní sl. og fékkst ekki framlengd. Innflutningur lifandi fiska, lindýra og krabbadýra, hrogna og svilja þeirra hefur þannig ekki verið heimill hingað til lands nema í undantekningartilvikum. Til að tryggja óbreytt heilbrigðisástand, ef tilskipun 91/67/EBE verður innleidd, hafa íslensk fisksjúkdómayfirvöld óskað eftir viðbótartryggingum gagnvart alvarlegustu sjúkdómunum. Slík trygging kveður á um sérstakar heimildir stjórnvalda til að verjast smitsjúkdómum á öflugri hátt en ella og takmarka innflutning. Formleg staðfesting ESA þess efnis fæst þó ekki fyrr en eftir innleiðingu tilskipunar 91/67/ EBE.
    Miklir hagsmunir eru í húfi, jafnt hvað varðar útflutning á lifandi fiski, seiðum, hrognum og sviljum sem og heilbrigði íslenskra fiskstofna. Innleiðing tilskipunar 91/67/EBE gæfi nauðsynlegt stjórntæki til að gæta þess að innflutningur á sjávardýrum til eldis verði í samræmi við reglur á EES-svæðinu og að einungis verði flutt inn eldisdýr sem eru laus við sjúkdóma sem ekki fyrirfinnast hér á landi. Sóknarfæri íslenskra fyrirtækja eru mikil á næstu árum, ekki síst vegna góðs heilbrigðisástands hér á landi og nýtur það síaukinnar athygli erlendis og almennrar viðurkenningar.
    Með lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, var staðfest að málaflokkurinn félli undir sjávarútvegsráðherra, en eldi ferskvatnsdýra er á verksviði landbúnaðarráðherra. Til að geta innleitt tilskipun 91/67/EBE er nauðsynlegt að breyta lögum nr. 33/2002, auk þess sem gera þarf breytingar á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að í lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, verði skýrt kveðið á um að sjávarútvegsráðherra fari með yfirstjórn fisksjúkdómamála og setji reglur um innflutning lifandi sjávardýra, óháð þroskastigi þeirra, þ.e. hvort sem er hrogna, svilja, seiða eða fullþroskaðra fiska. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji þær reglur að höfðu samráði við embætti yfirdýralæknis sem mun annast daglega framkvæmd fisksjúkdómaeftirlits, enda hefur starfsfólk þess sérþekkingu á fisksjúkdómum. Enn fremur er lagt til að ráðherra geti notið ráðuneytis fisksjúkdómanefndar sem landbúnaðarráðherra skipar samkvæmt lögum nr. 76/1970 varðandi álitaefni er snerta sjúkdóma í sjávardýrum.
    Samhliða þessu frumvarpi hefur landbúnaðarráðherra lagt fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sem nauðsynlegar eru til að unnt verði að innleiða tilskipun 91/67/EBE.
    Með þeim lagabreytingum sem lagt er til að verði gerðar er stjórnvöldum gert kleift að hafa eftirlit og stjórn með innflutningi á lifandi fiskum, krabbadýrum og lindýrum sem ætluð eru til eldis hér á landi í samræmi við reglur EES-samningsins. Jafnframt verður tryggt að útflytjendur slíkra afurða frá Íslandi munu eiga tryggari og auðveldari aðgang að mörkuðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Um a-lið.
    Lagt er til að skýrt verði kveðið á um að yfirstjórn fisksjúkdómamála tengdra sjávardýrum verði á hendi sjávarútvegsráðherra. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að sjávarútvegsráðherra fari með yfirstjórn allra mála er varða eldi nytjastofna sjávar, en nauðsynlegt er að kveða skýrt á um að sjúkdómamál falli þar undir þar sem ástæða er til að ætla að innflutningur verði takmarkaður að einhverju leyti með tilvísun til stöðu sjúkdómamála í útflutningslandinu. Einnig er lagt til að ráðherra geti leitað ráðgjafar hjá fisksjúkdómanefnd, sem skipuð er af landbúnaðarráðherra, skv. 78. gr. laga nr. 76/1970. Af hálfu landbúnaðarráðherra hefur verið gerð tillaga um að fiskistofustjóri taki sæti í fisksjúkdómanefnd. Fiskistofa sér um framkvæmd laga um eldi nytjastofna sjávar, og hefur m.a. umsjón með leyfisveitingum og eftirliti með rekstri stöðva, þ.m.t. flutningi á fiski milli stöðva eða svæða.
     Um b-lið.
    Lagt er til að sjávarútvegsráðherra setji reglugerð um innflutning á lifandi fiski, krabbadýrum eða lindýrum, frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð til eldis í eldisstöð. Þekking á þessum málaflokki er til staðar hjá embætti yfirdýralæknis og er eðlilegt að embættið fari með daglegan rekstur málaflokksins. Því er lagt til að reglur verði settar í samráði við embættið sem tryggir samræmi í meðferð mála varðandi ferksvatnsdýr og sjávardýr.

Um 2. gr.


    Lagt er til að lögin taki gildi 1. ágúst 2003 svo að tími gefist til að gefa út nauðsynlegar reglugerðir til að innleiða að fullu tilskipun 91/67/EBE, og fá nauðsynlegar viðbótarábyrgðir frá ESA varðandi tiltekna fisksjúkdóma.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2002,
um eldi nytjastofna sjávar.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum vegna innleiðingar á Evróputilskipun 91/67/EBE með það að markmiði að stjórnvöldum sé gert kleift að hafa eftirlit með og stjórn á innflutningi á þeim dýrum er lögin taka til.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.