Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 683. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1110  —  683. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd nr. 120/1992, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Enn fremur ákveður nefndin laun og starfskjör prófessora, enda verði talið að þeir gegni því starfi að aðalstarfi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Úrskurður kjaranefndar um laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna frá 15. október 2002 skal gilda þar til núgildandi kjarasamningur milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands dags. 2. maí 2002 fellur úr gildi. Laun heilsugæslulækna samkvæmt kafla IX skulu þó hækka um 3% frá og með 1. janúar 2004 og aftur um 3% 1. janúar 2005 nema önnur niðurstaða verði ákveðin á grundvelli greinar 16.2 í kjarasamningi milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands dags. 2. maí 2002, þá skal sú niðurstaða gilda.
    Hvað varðar þann hluta úrskurðarins sem fjallar um afkastahvetjandi launakerfi, einkum kafla IX, liði 4 og 5, skal fjármálaráðherra taka upp viðræður við Læknafélag Íslands um hvort breyta skuli fyrirkomulagi á þeim hluta. Þeim viðræðum skal lokið fyrir 31. desember 2003. Aðilum er þó heimilt að framlengja viðræðurnar um allt að einn mánuð. Náist samkomulag um breytingar innan þess tíma kemur það í stað framangreinds hluta úrskurðarins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 150/1996, sem breyttu m.a. ákvæðum laga um Kjaradóm og kjaranefnd nr. 120/1992, var kjaranefnd falið að ákveða kjör heilsugæslulækna. Breytingin var gerð í framhaldi af yfirlýsingu fjármálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 10. september 1996, sem gefin var í tengslum við gerð kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands f.h. fastráðinna lækna.
    Framangreind breyting, sem heilsugæslulæknar beittu sér fyrir, hefur þó ekki orðið til þess að skapa frið um kjör heilsugæslulækna og telur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, að fenginni sex ára reynslu, heppilegra og eðlilegra að samningsréttur heilsugæslulækna verði með sama hætti og hjá öðrum heilbrigðisstéttum. Sama afstaða kemur fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri Heilsugæslunnar í Reykjavík í september 2002 en þar segir m.a. á bls. 12: „Að mörgu leyti virðist eðlilegast að launakjör heilsugæslulækna ráð[i]st í samningaviðræðum þeirra við stjórnvöld, líkt og gildir um aðrar heilbrigðisstéttir í landinu, en ekki með úrskurði óháðs þriðja aðila.“ Í tengslum við viðræður, sem heilbrigðisráðherra átti við forystumenn Félags íslenskra heimilislækna síðastliðið haust um stöðu heilsugæslulækna og heilsugæslunnar, sendi hann frá sér viljayfirlýsingu 27. nóvember 2002 um úrbætur til að stuðla að eflingu heilsugæslunnar og aukinni nýliðun í röðum heimilislækna. Þar sagði m.a.: „Komi fram beiðni frá Félagi íslenskra heimilislækna um að heilsugæslulæknar fari undan kjaranefnd mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra beina því til fjármálaráðherra að lagt verði fram lagafrumvarp hið fyrsta þar sem ákvörðun um laun heilsugæslulækna verði færð frá kjaranefnd þannig að samningsréttur þeirra verði með hliðstæðum hætti og hjá öðrum heilbrigðisstéttum.“ Með bréfi dags. 13. febrúar 2003 óskaði Félag íslenskra heimilislækna eftir því að ákvarðanir um kjör þeirra yrðu færðar frá kjaranefnd. Með bréfi dags. 17. febrúar 2003 beindi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra því til fjármálaráðherra að hann flytti frumvarp þess efnis.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvörðun um laun og launakjör heilsugæslulækna verði tekin undan kjaranefnd. Sú breyting felur í sér að um samningsrétt þeirra fari framvegis samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Gert er ráð fyrir því að samningsréttur vegna heilsugæslulækna verði, þegar þar að kemur, á hendi Læknafélags Íslands eins og fyrir aðra lækna. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir því að fram að þeim tíma gildi úrskurður kjaranefndar frá 15. október 2002 um starfskjör heilsugæslulækna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að felld verði brott orðin „og heilsugæslulækna“ í 8. gr. laganna. Með þeirri breytingu er ákvörðun um laun og önnur launakjör heilsugæslulækna tekin undan kjaranefnd og fer þá um þau samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Eins og segir í almennum athugasemdum hér að framan felur frumvarpið í sér að ákvörðun launa og annarra launakjara heilsugæslulækna fari eftir ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en af því leiðir að Læknafélag Íslands mun fara með kjarasamningsgerð vegna heilsugæslulækna. Hinn 2. maí 2002 undirrituðu fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélag Íslands kjarasamning með gildistíma til 31. desember 2005. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að kjarasamningurinn skuli tekinn upp eða hann endurskoðaður, enda er með honum komin á friðarskylda milli aðila. Af þessum sökum er lagt til að fram til ársloka 2005 haldi úrskurður kjaranefndar, um laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna, gildi sínu. Þykir slíkt eðlilegt þegar litið er til þess að í úrskurði kjaranefndar er tekið mið af kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands, sbr. kafla VIII, lið 2 í úrskurðinum. Gert er ráð fyrir því að laun heilsugæslulækna hækki í samræmi við ákvæði launaliðar í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands.
    Í samræmi við yfirlýsingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 27. nóvember 2002 er lagt til að fjármálaráðuneytið taki upp viðræður við fulltrúa Læknafélags Íslands um þróun afkastahvetjandi launakerfis innan heilsugæslunnar. Í úrskurði kjaranefndar er gert ráð fyrir því að hluti launa heilsugæslulækna fari eftir slíku kerfi. Með ákvæðinu er aðilum gefinn kostur á að móta frekar hinn afkastahvetjandi hluta úrskurðarins og leiði viðræðurnar til breytinga er gert ráð fyrir því að þær geti komið í stað hans. Ætlað er að aðilar hafi lokið viðræðum fyrir árslok en hafi þó möguleika á að framlengja þær um allt að einn mánuð. Hafi engar breytingar verið ákveðnar innan tilgreindra tímamarka mun úrskurður kjaranefndar að þessu leyti gilda óbreyttur til jafnlengdar gildistíma kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 120/1992,


um Kjaradóm og kjaranefnd, með síðari breytingum.


    Launakjör heilsugæslulækna hafa frá árinu 1996 fallið undir ákvörðunarvald kjaranefndar. Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvörðun um laun heilsugæslulækna verði færð frá kjaranefnd þannig að samningsréttur þeirra verði með hliðstæðum hætti og hjá öðrum heilbrigðisstéttum í samræmi við niðurstöðu viðræðna stjórnvalda við forustumenn Félags íslenskra heimilislækna síðastliðið haust. Sú breyting felur í sér að um samningsrétt þeirra fari framvegis samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að samningsréttur vegna heilsugæslulækna verði á hendi Læknafélags Íslands eins og fyrir aðra lækna. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að úrskurður kjaranefndar frá 15. október 2002 um starfskjör heilsugæslulækna gildi þar til núverandi kjarasamningur milli fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Læknafélags Íslands rennur út, eða til 31. desember árið 2005. Þó er miðað við að laun þeirra hækki um 3% frá og með 1. janúar 2004 og aftur um 3% 1. janúar 2005, eða jafnmikið og tiltekið er í kjarasamningi Læknafélags Íslands. Telja verður næsta víst að eins og tíðkast hefur undanfarin ár hefði kjaranefnd úrskurðað heilsugæslulæknum þessar sömu hækkanir árin 2004 og 2005 og gilda almennt fyrir ríkisstarfsmenn. Þar sem launakjör heilsugæslulækna verða þau sömu fram til ársloka 2005 og þau hefðu orðið samkvæmt úrskurðum kjaranefndar er ekki ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins leiði til aukinna launaútgjalda ríkissjóðs á því tímabili. Í frumvarpinu er einnig ákvæði um að fjármálaráðherra skuli á þessu ári taka upp viðræður við Læknafélag Íslands um hvort breyta skuli fyrirkomulagi á afkastahvetjandi hluta úrskurðar kjaranefndar. Í úrskurðinum hefur þegar verið gert ráð fyrir talsverðu svigrúmi fyrir slíkt launafyrirkomulag. Á þessu stigi er ekki hægt að segja fyrir um hvort gerðar verði breytingar á fyrirkomulaginu sem leiði til meiri kostnaðar við þann þátt en samkvæmt úrskurði kjaranefndar.