Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 556. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1111  —  556. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um neytendakaup.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneytinu, Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur frá Samtökum verslunarinnar og Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum verslunarinnar, Samtökum atvinnulífsins og Neytendasamtökunum.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði sérstakur lagabálkur sem hafi að geyma allar réttarreglur sem við eiga í hefðbundnum neytendakaupum, þ.e. þegar kaupandi er leikmaður andspænis seljanda sem hefur atvinnu sína af sölu.
    Frumvarpið felur í sér aukna neytendavernd sem felst einkum í því að ákvæði laganna, verði frumvarpið samþykkt, eru ófrávíkjanleg, þ.e. samningur seljanda og neytanda sem felur í sér kjör sem eru neytanda óhagstæðari en leiðir af lögunum er ógildur. Lög um lausafjárkaup eru í þessum samanburði að meginstefnu til frávíkjanleg.
    Verði frumvarpið að lögum verða lagaákvæði er varða neytendakaup auðskiljanlegri og aðgengilegri en nú.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Breytingarnar, auk orðalagsbreytinga, eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á ákvæði 14. gr. frumvarpsins um áhættuflutning þess efnis að neytandi beri ekki áhættuna af tilviljunarkenndum atburði sem verður meðan söluhluturinn er hjá seljanda, enda sé ekki unnt að rekja atburðinn til eiginleika hlutarins sjálfs. Sams konar ákvæði er að finna í kaupalögum.
     2.      Lagt er til að í stað orðsins „kvaðir“ í g-lið 2. mgr. 15. gr. verði notað orðið réttindi. Telja verður að hugtakið kvaðir geti verið of þröngt í því samhengi sem það er sett fram í ákvæðinu, auk þess sem notkun hugtaksins réttindi er í samræmi við norsku lögin sem frumvarpið tekur mið af.
     3.      Lagðar eru til breytingar á c-lið 1. mgr. 16. gr. Í breytingum felst að sönnunarbyrði fyrir því hvort söluhlutur svarar til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur veitt er lagður á seljanda.
     4.      Lögð er til breyting á 3. mgr. 37. gr. Lagt er til að ákvæðið orðist með sama hætti og sambærilegt ákvæði í kaupalögum. Breytingin felur í sér aukna neytendavernd þar sem orðalagið eftir breytinguna er þrengra.
     5.      Lagt er til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að aðilar að neytendakaupum geti snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa sem starfar samkvæmt bráðabirgðaákvæði í kaupalögum. Kærunefndinni var komið á fót til reynslu til ársins 2005 við lögfestingu laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000. Kærunefndin hefur frá upphafi fjallað um ágreiningsmál er snerta neytendakaup og er ekki ástæða til að breyta því. Í lok ársins 2005 er gert ráð fyrir að það verði metið hvort og þá á hvaða forsendum nefndin starfi áfram.

Alþingi, 6. mars 2003.Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Árni R. Árnason.Jóhanna Sigurðardóttir.


Ögmundur Jónasson.


Adolf H. Berndsen.