Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 485. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1123  —  485. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þóru Hjaltested frá samgönguráðuneytinu og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf.
    Frumvarpið fylgir frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, sem allsherjarnefnd hefur til umfjöllunar.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukins kostnaðar hjá tryggingafélögunum né hærri iðgjalda, enda er ekki um að ræða mörg tilvik.
    Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á frumvarpinu. Breytingin er ekki efnisleg.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Í stað orðsins „tjónsuppgjörsaðila“ í fyrri málslið 1., 2. og 3. gr. komi: tjónsuppgjörsmiðstöðvar.

    Hjálmar Árnason og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2003.


Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Árni R. Árnason.



Gunnar Birgisson.


Adolf H. Berndsen.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Ögmundur Jónasson.