Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 377. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1159  —  377. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 10. mars.)



    Samhljóða þskj. 429 með þessum breytingum:

    2. gr. hljóðar svo:
    30. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Gjaldþol vátryggingafélags, sem rekur aðra starfsemi en líftryggingastarfsemi, skal á hverjum tíma nema minnst þeirri fjárhæð sem hærri er samkvæmt eftirfarandi útreikningi og nefnist lágmarksgjaldþol félagsins, sbr. þó 33. gr.:
     1.      Við útreikning á lágmarksgjaldþoli á grundvelli iðgjalda skal nota þá fjárhæð sem hærri er af bókfærðum iðgjöldum og iðgjöldum ársins samkvæmt rekstrarreikningi. Byggt skal á iðgjöldum að frádregnum endurgreiðslum og niðurfellingum, en án frádráttar á hlut endurtryggjenda. Hækka skal iðgjöld í greinaflokkum skv. 11., 12. og 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. um 50%. Í gagnkvæmum vátryggingafélögum skal telja með iðgjöldum þau framlög eigenda á reikningsárinu sem jafna má til iðgjalda.
                  Fjárhæð sem reiknuð er skv. 1. mgr. þessa töluliðar skal skipt í tvennt, þannig að fyrri hlutinn nemi allt að 4.250 millj. kr. og sá síðari því sem umfram er. Fjárhæð þessi skal taka árlegum breytingum með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 33. gr. Leggja skal saman 18% af fyrri hlutanum og 16% af því sem umfram er. Niðurstaða þeirrar samlagningar er síðan margfölduð með hlutfallinu milli samanlagðra eigin tjóna síðustu þriggja reikningsára og samanlagðra tjóna í heild síðustu þrjú reikningsár samkvæmt rekstrarreikningi, en þó aldrei með lægri tölu en 0,5.
     2.      Við útreikning á lágmarksgjaldþoli á grundvelli tjóna skal byggt á meðalfjárhæð tjóna ársins síðustu þrjú reikningsár, að frádregnum yfirteknum vátryggðum fjármunum og réttindum sem félagið öðlast, en án frádráttar á hlut endurtryggjenda. Áður en meðaltal er reiknað skal hækka tjón í greinaflokkum skv. 11., 12. og 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. um 50%. Reki vátryggingafélag starfsemi skv. 18. tölul. 1. mgr. 22. gr. skal leggja við tjónsfjárhæðir í þeirri grein allan kostnað sem félagið hefur borið vegna veittrar aðstoðar, jafnvel þótt hann kunni að falla undir aðra liði í rekstrarreikningi.
                  Fjárhæð sem reiknuð er skv. 1. mgr. þessa töluliðar skal skipt í tvennt, þannig að fyrri hlutinn nemi allt að 2.975 millj. kr. og sá síðari því sem umfram er. Fjárhæð þessi skal taka árlegum breytingum með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 33. gr. Leggja skal saman 26% af fyrri hlutanum og 23% af því sem umfram er. Útkoma þeirrar samlagningar er síðan margfölduð með hlutfallinu milli samanlagðra eigin tjóna síðustu þriggja reikningsára og samanlagðra tjóna í heild síðustu þrjú reikningsár samkvæmt rekstrarreikningi en þó aldrei með lægri tölu en 0,5.
    Í útreikningum skv. 1. mgr. skal miða við meðaltal sjö síðustu reikningsára í stað þriggja reki félagið aðallega starfsemi í óveðurs-, hagl- eða frostskaðatryggingum eða í greiðsluvátryggingum.
    Ef lágmarksgjaldþol reynist vera lægra en á næstliðnu reikningsári skal það ekki lækka meira hlutfallslega en sem nemur hlutfallslegri lækkun eigin tjónaskuldar milli sömu ára.
    Í sjúkratryggingum sem reknar eru samkvæmt tæknilegum reiknigrundvelli skal miða við 6% eða 5,33% bókfærðra iðgjalda í stað 18% eða 16% þegar reiknað er á grundvelli iðgjalda, og 8,67% eða 7,67% meðaltjónsfjárhæðar á síðustu þremur árum í stað 26% eða 23% þegar reiknað er á grundvelli tjóna og eftirfarandi skilyrðum er öllum fullnægt:
     1.      Iðgjöld eru reiknuð samkvæmt tryggingastærðfræðilegum aðferðum út frá sjúkratöflum.
     2.      Vátryggingaskuldin tekur m.a. mið af hækkandi aldri.
     3.      Kveðið er á um greiðslu viðbótariðgjalda til að koma upp hæfilegu öryggisálagi.
     4.      Vátryggingafélagið má segja vátryggingarsamningum upp fyrir lok 3. vátryggingarárs í síðasta lagi.
     5.      Vátryggingarsamningar kveða á um að hækka megi iðgjöld eða lækka bætur á vátryggingartímabilinu.
    Í reglugerð er heimilt að kveða á um hvort og hvernig tekið skuli tillit til hliðarstarfsemi skv. 11. gr. við útreikning á lágmarksgjaldþoli.

    9. gr. hljóðar svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Greinar laga þessara sem varða útreikning gjaldþols koma þó fyrst til framkvæmda við eftirlit sem byggist á ársreikningum vegna reikningsársins 2004.