Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 404. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1185  —  404. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Halldórsdóttur og Sigurð Þráinsson frá umhverfisráðuneyti og Jón Gunnar Ottósson og Ólaf Karl Nielsen frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Umsagnir bárust frá Reyni Bergsveinssyni veiðimanni, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Bændasamtökum Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Arnóri Þóri Sigfússyni fuglafræðingi, Umhverfisstofnun, Náttúrustofu Austurlands, Eyþingi, Náttúrustofu Vesturlands, Náttúrustofu Suðurlands og SKOTVÍS.
    Í frumvarpinu er lagt til bann við því að selja rjúpur og að það skuli gilda fram til ársins 2008. Er þetta gert til að bregðast við því mati Náttúrufræðistofnunar Íslands að nauðsynlegt sé að vernda rjúpnastofninn þar sem rjúpum hafi fækkað verulega á liðnum áratugum og að stofninn virðist nú vera í sögulegu lágmarki.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að áfram verði heimilt að selja rjúpur og rjúpnaafurðir sem fluttar eru inn til landsins. Nefndin telur að það muni gera það að verkum að afar erfitt verði að fylgja eftir sölubanni á rjúpum. Hugsanlega verður hægt að fylgjast með því að ekki verði seldar aðrar rjúpur en innfluttar í stórmörkuðum en líklegt verður að telja að sala á rjúpum á svörtum markaði verði ekki stöðvuð. Jafnframt kom fram í máli fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands að sölubann á rjúpum væri lítils virði án innflutningsbanns. Einnig kom fram það mat Náttúrufræðistofnunar að stofninn þoli ekki atvinnuveiðar.
    Nefndin leggur til að fallið verði frá því að banna sölu á rjúpum og í stað þess verði leitað annarra leiða til að vernda rjúpnastofninn. Samkvæmt gildandi lögum er rjúpan friðuð en ráðherra er heimilt að aflétta friðun frá 15. október til 22. desember ár hvert. Jafnframt eru í lögum ákvæði sem banna notkun hunda og fjölskota skotvopna við veiðar. Að mati nefndarinnar eru því nauðsynleg ákvæði í lögum til að takmarka veiði. Telur nefndin helst koma til greina að stytta veiðitímabilið en það er umhverfisráðherra heimilt að gera með reglugerð. Af þessum sökum beinir nefndin því til ráðherra að stytta veiðitímabilið. Telur hún að það verði vænlegra til árangurs til að vernda rjúpnastofninn.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi:

BREYTINGU:

    2. gr. falli brott.

    Kristján Pálsson, Katrín Fjeldsted og Jóhann Ársælsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2003.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Gunnar Birgisson.



Kolbrún Halldórsdóttir.


Ásta Möller.


Ísólfur Gylfi Pálmason.