Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1197, 128. löggjafarþing 548. mál: opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (eftirlitslistar).
Lög nr. 50 20. mars 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
     Í samræmi við skuldbindingar eða samþykktir á alþjóðavettvangi sem Ísland er aðili að skal Fjármálaeftirlitið gefa út tilkynningar um einstaklinga og lögaðila sem eftirlitsskyldum aðilum ber sérstaklega að kanna hvort stofnað hafi verið til viðskipta við og er þeim skylt að koma í veg fyrir hvers konar fjármagnsflutning, svo sem afhendingu fjármuna, úttektir, millifærslu, eignarskráningu sem og önnur viðskipti, og hindra þannig að aðilar sem tilgreindir eru í tilkynningum eftirlitsins fái greiðslur í hendur eða geti nýtt fjármuni með öðrum hætti.
     Fjármálaeftirlitið skal hlutast til um með tilkynningu til ríkislögreglustjóra að hald verði lagt á innstæður einstaklinga og lögaðila ef við framkvæmd eftirlitsins hefur komið í ljós að eftirlitsskyldur aðili hefur brotið gegn ákvæði 1. mgr. og haldlagning fjármuna hefur ekki átt sér stað.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.