Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1205, 128. löggjafarþing 338. mál: meðhöndlun úrgangs (EES-reglur).
Lög nr. 55 20. mars 2003.

Lög um meðhöndlun úrgangs.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, svo og að draga úr hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra.
     Jafnframt er það markmið laganna að dregið verði skipulega úr myndun úrgangsefna eftir því sem unnt er. Þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu og nauðsynlegri förgun úrgangs háttað þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um meðhöndlun úrgangs. Um meðhöndlun úrgangs á sjó gilda lög um varnir gegn mengun sjávar. Ákvæði laga þessara um starfsleyfi taka til móttökustöðva fyrir úrgang. Um starfsleyfi fyrir aðra starfsemi þar sem úrgangur er meðhöndlaður og eftirlit með þeim gilda lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. þó 3. mgr. 5. gr.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér greinir:
      Afskekkt byggð: landsvæði þar sem íbúar í hverju sveitarfélagi eða byggð eru ekki fleiri en 500 og íbúar á ferkílómetra ekki fleiri en fimm og fjarlægð til næsta þéttbýlisstaðar, þar sem íbúar eru minnst 250 á ferkílómetra, er ekki undir 50 kílómetrum eða þar sem vegasamgöngur til næsta þéttbýlisstaðar eru torveldar hluta ársins sakir erfiðra veðurskilyrða.
      Besta fáanlega tækni: framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum forsendum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins gegn mengun.
      Brennslustöð: hvers kyns tæknibúnaður sem notaður er til að brenna úrgang, hvort sem hitinn sem myndast við brennsluna er nýttur eða ekki.
      Endurnotkun: endurtekin notkun úrgangs í óbreyttri mynd.
      Endurnýting: hvers konar nýting úrgangs, önnur en endurnotkun, þ.m.t. endurvinnsla og orkuvinnsla.
      Flokkun: aðgreining úrgangstegunda til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.
      Flokkunarmiðstöð: staður þar sem tekið er við úrgangi sem er safnað saman kerfisbundið til flokkunar, til endurnýtingar og/eða til förgunar.
      Flutningur: ferli þegar úrgangur er fluttur í atvinnuskyni til endurnotkunar, endurnýtingar eða förgunar.
      Förgunarstaður: staður þar sem förgun úrgangs fer fram, m.a. urðunarstaðir og brennslustöðvar.
      Förgun úrgangs: aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega, svo sem urðun og sorpbrennsla.
      Grunnvatn: vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar.
      Heimilisúrgangur (sorp): úrgangur frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, pappi, plast, garðaúrgangur, gler, timbur, málmar og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.
      Losunarmörk: mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.
      Meðhöndlun úrgangs: söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað.
      Mengun: þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
      Móttökustöð: staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar eða nýtingar, eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla flokkunarmiðstöðvar og förgunarstaðir.
      Óvirkur úrgangur: úrgangur sem breytist ekki verulega líf-, efna- eða eðlisfræðilega.
      Rekstraraðili: einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs í samræmi við ákvæði starfsleyfis.
      Rekstrarúrgangur: úrgangur frá framleiðslu, þjónustu og verslun, t.d. matarleifar, pappír, pappi, plast, gler, timbur, málmar, leifar frá framleiðslu o.þ.h.
      Samþættar mengunarvarnir: aðferð þar sem samþættum aðgerðum er beitt til að draga sem mest úr losun mengunarefna út í andrúmsloft, vatn eða jarðveg og stuðla að víðtækri umhverfisvernd með því að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið ef mengun færist á milli lofts, láðs og lagar.
      Spilliefni: úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni og skráð eru á lista í reglugerð um úrgang, sbr. 13. gr.
      Söfnunarstöð (gámastöð): staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva.
      Umflutningur: flutningur úrgangs í íslenska höfn og þaðan út aftur án tollafgreiðslu.
      Urðun: varsla úrgangs á eða í landi sem ekki felur í sér frekari vinnslu hans eða nýtingu um fyrirsjáanlega framtíð.
      Urðunarstaður: staður þar sem tekið er við úrgangi til förgunar á eða í landi, þar á meðal urðunarstaður fyrir eigin úrgang og varanlegur staður þar sem úrgangur er geymdur til lengri tíma.
      Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og skráður er á lista í reglugerð um úrgang, sbr. 13. gr.
      Vatn: grunnvatn og yfirborðsvatn.
      Vöktun: kerfisbundin og síendurtekin skráning einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.
      Yfirborðsvatn: kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og jöklar, svo og strandsjór.

II. KAFLI
Almenn ákvæði.

4. gr.

Stjórnvöld.
     Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum um yfirstjórn mála á varnarsvæðum.
     Umhverfisstofnun annast eftirlit með framkvæmd laga þessara. Heilbrigðisnefndir annast eftirlit með meðhöndlun á úrgangi sem fellur ekki undir eftirlit með starfsleyfi og fjallað er um í 10. gr.
     Umhverfisstofnun skal gefa út almenna áætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir landið allt að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Áætlunin skal taka mið af lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Endurskoða skal áætlunina á þriggja ára fresti.
     Sveitarstjórn skal semja og staðfesta áætlun sem gildir fyrir viðkomandi svæði og skal sú áætlun byggjast á markmiðum landsáætlunar, sbr. 3. mgr. Í áætluninni skal gera grein fyrir hvernig sveitarfélagið hyggst ná markmiðum landsáætlunar, þ.m.t. leiðum til að draga úr myndun úrgangs, til að endurnota og endurnýta úrgang, förgunarleiðum o.s.frv. Heimilt er að gera sameiginlegar áætlanir fyrir svæði einstakra sorpsamlaga og geta sveitarstjórnir falið hlutaðeigandi byggðasamlagi eða heilbrigðisnefnd að semja áætlunina. Endurskoða skal áætlunina á þriggja ára fresti.
     Sveitarstjórn skal ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn ber ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn getur sett sveitarfélaginu sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í slíkri samþykkt er heimilt að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang og sambærileg atriði. Um gerð og staðfestingu samþykktarinnar fer skv. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

5. gr.

Útgáfa starfsleyfis.
     Móttökustöð fyrir úrgang skal hafa gilt starfsleyfi. Ráðherra er heimilt ef ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og eftir atvikum heilbrigðisnefndar að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi. Áður en starfsleyfi er gefið út skal Umhverfisstofnun kanna hvort fyrirhuguð móttökustöð fullnægi ákvæðum laga þessara og reglugerða sem varða móttökustöðvar.
     Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir móttökustöðvar fyrir meðhöndlun úrgangs. Heilbrigðisnefndir veita starfsleyfi fyrir söfnunarstöðvar og annars konar starfsemi þar sem úrgangur er meðhöndlaður samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þó skal Umhverfisstofnun gefa út starfsleyfi fyrir söfnunarstöðvar ef þær eru reknar í nánum landfræðilegum tengslum við móttökustöðvar.
     Umhverfisstofnun er heimilt að setja ákvæði í starfsleyfi fyrir annan atvinnurekstur sem hún veitir starfsleyfi sem heimilar starfsleyfishafa förgun á eigin úrgangi á framleiðslustað. Skulu þá þau ákvæði starfsleyfisins er varða förgun úrgangs vera í samræmi við lög þessi.
     Ef rekstraraðili móttökustöðvar hyggst gera breytingar á rekstrinum sem varðað geta starfsleyfið eða flytja reksturinn ber honum að tilkynna Umhverfisstofnun um það með hæfilegum fyrirvara. Umhverfisstofnun skal meta innan fjögurra vikna frá móttöku tilkynningar hvort nauðsynlegt er að gefa út nýtt starfsleyfi vegna þeirra breytinga sem rekstraraðili hefur tilkynnt um.
     Ef forsendur breytast er Umhverfisstofnun heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en gert var ráð fyrir þegar leyfið var gefið út, breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir.
     Ef fyrirhuguð móttökustöð er háð mati á umhverfisáhrifum skal ekki gefa út starfsleyfi fyrr en mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram.

6. gr.

Umsókn um starfsleyfi.
     Í umsókn um starfsleyfi skal lýsa staðsetningu fyrirhugaðrar móttökustöðvar. Tilgreina skal umsækjanda, tegund og magn þess úrgangs sem fyrirhugað er að meðhöndla, móttökugetu stöðvarinnar og áætlaðan rekstrartíma. Gera skal grein fyrir þeim aðferðum sem rekstraraðili hyggst beita í því skyni að fyrirbyggja mengun og minnka hana, þ.m.t. tilhögun innra eftirlits, áætlun um vöktun, lokun og aðgerðir í kjölfar lokunar.
     Umsókn um starfsleyfi skulu fylgja upplýsingar um stöðu skipulags á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Ef fyrirhuguð móttökustöð er háð mati á umhverfisáhrifum skulu jafnframt fylgja upplýsingar um stöðu matsins.

7. gr.

Gildissvið starfsleyfis.
     Í starfsleyfinu skal tilgreina rekstraraðila og staðsetningu móttökustöðvar, tegund hennar, magn og tegund úrgangs sem heimilt er að taka við til meðhöndlunar, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis.

8. gr.

Skilyrði starfsleyfis.
     Í starfsleyfi móttökustöðvar skulu vera ákvæði:
  1. um undirbúning móttökustöðvarinnar,
  2. sem tryggja að viðeigandi samþættar mengunarvarnir séu viðhafðar og til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni eins og hún er skilgreind á hverjum tíma,
  3. sem tryggja að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir mengunaróhöpp og til þess að draga úr afleiðingum þeirra,
  4. sem tryggja að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun þegar rekstur er stöðvaður tímabundið og viðeigandi aðgerðir á rekstrarsvæði þegar móttökustöð er lokað og í kjölfar lokunar,
  5. um losunarmörk,
  6. um tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa sem gætu haft mengun eða önnur óæskileg áhrif á umhverfið,
  7. um innra eftirlit og eftirlit eftirlitsaðila,
  8. um að stjórnandi móttökustöðvarinnar hafi nægilega tæknilega færni til að stjórna henni og starfslið hennar hljóti þá fræðslu og þjálfun sem til þarf,
  9. sem tryggja að meðhöndlun úrgangsins samræmist viðeigandi áætlunum og viðmiðum um móttöku og meðhöndlun úrgangs sem kveðið er á um í lögum þessum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim,
  10. um skýrslugjöf skv. 9. gr.,
  11. um önnur þau atriði sem samræmast ákvæðum laga þessara.


9. gr.

Skýrslugjöf.
     Rekstraraðili skal a.m.k. árlega skila Umhverfisstofnun skýrslu um þær tegundir úrgangs sem fargað er, heildarmagn og árangur af vöktunaráætlun, sbr. 16. og 17. gr. Afrit skýrslunnar skal senda heilbrigðisnefnd á starfssvæði rekstraraðila. Varðandi framangreinda upplýsingagjöf er heimilt að vísa til skýrslu um grænt bókhald samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eða til ársskýrslu ef þar er að finna sömu upplýsingar.

10. gr.

Meðhöndlun úrgangs.
     Allur úrgangur skal færður til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð eða samþykktum sveitarfélaga. Allur úrgangur skal fá viðeigandi meðferð áður en til förgunar kemur samkvæmt nánari reglum þar um.
     Óheimilt er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu.
     Opin brennsla úrgangs er óheimil. Þetta á þó ekki við um skipulagðar brennur, svo sem áramótabrennur, sem starfsleyfi hefur verið veitt fyrir samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

11. gr.

Gjald fyrir meðhöndlun úrgangs.
     Rekstraraðili förgunarstaðar, hvort sem um er að ræða sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðila, skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs. Gjaldið skal nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins, þ.m.t. uppsetningu og rekstur viðkomandi förgunarstaðar. Þar sem úrgangur er urðaður skal gjaldið einnig að svo miklu leyti sem unnt er standa undir kostnaði sem fylgir því að setja fjárhagslega tryggingu eða jafngildi hennar, sbr. 15. gr., áætluðum kostnaði við lokun staðarins og nauðsynlegu eftirliti í kjölfar lokunar í 30 ár. Ákvæði þetta gildir þó ekki um rekstraraðila sem aðeins annast förgun á eigin úrgangi á framleiðslustað, sbr. 3. mgr. 5. gr.
     Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laga þessara, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.
     Gjald sem sveitarfélag eða byggðasamlag innheimtir skal þó aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laga þessara.
     Sveitarfélögum er heimilt að fela stjórn byggðasamlags að ákvarða framangreint gjald. Sveitarfélag eða viðkomandi byggðasamlag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið má innheimta með aðför.

12. gr.

Trygging vegna flutnings úrgangs.
     Umhverfisstofnun er heimilt að setja sem skilyrði fyrir leyfi til útflutnings, innflutnings og umflutnings spilliefna og annars úrgangs að framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni framvísi bankaábyrgð, vátryggingu eða annarri tryggingu, sem stofnunin metur fullnægjandi, fyrir kostnaði við förgun eða endurnýtingu úrgangsins og flutningskostnaði, þ.m.t. kostnaði við að flytja úrganginn á annan endurnýtingar- eða förgunarstað.

13. gr.

Reglugerðir um úrgang og móttökustöðvar fyrir úrgang.
     Umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, reglugerð um eftirtalin atriði varðandi framkvæmd laga þessara:
  1. nánari skilgreiningar á spilliefnum og öðrum úrgangi, svo og lista yfir úrgang,
  2. að hvaða leyti blöndun, móttaka og förgun einstakra tegunda úrgangs eða úrgangsflokka er takmörkuð eða bönnuð,
  3. aðferðir við móttöku og meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. förgunarleiðir,
  4. hvaða úrgang heimilt er að meðhöndla í hverjum flokki móttökustöðva,
  5. nánari atriði varðandi innihald áætlana sveitarstjórna skv. 4. gr.,
  6. starfsleyfistryggingu skv. 15. gr.,
  7. nánari atriði sem varða skilyrði starfsleyfis, þ.m.t. meðhöndlun á hauggasi og sigvatni frá urðunarstöðum,
  8. tíðni mælinga og sýnatöku vegna vöktunar og annars eftirlits, þar á meðal í kjölfar lokunar, sbr. 17. gr.,
  9. kröfur um mælingar, losun og styrk mengandi efna í útblásturslofti, svifösku, ösku, botnleðju og fráveituvatni,
  10. hvernig staðið skal að lokun móttökustöðvar,
  11. eftirlit með útflutningi, umflutningi og innflutningi úrgangs, þ.m.t. tryggingu skv. 12. gr.,
  12. önnur atriði sem samræmast lögum þessum.


III. KAFLI
Sérákvæði um urðunarstaði.

14. gr.

Umsókn um starfsleyfi fyrir urðunarstað.
     Í umsókn um starfsleyfi fyrir urðunarstað skal auk þess sem fram kemur í 6. gr. lýsa fyrirhuguðum urðunarstað sérstaklega með tilliti til vatnafars og jarðfræði. Í slíkri umsókn skal einnig gera grein fyrir sérstakri fjárhagslegri tryggingu eða ábyrgð umsækjanda fyrir því að fylgt verði ákvæðum starfsleyfisins, þar á meðal ákvæðum um vöktun og umsjón eftir að urðunarstað hefur verið lokað. Ekki þarf þó að leggja fram slíka tryggingu ef eingöngu er urðaður óvirkur úrgangur á viðkomandi urðunarstað.

15. gr.

Starfsleyfistrygging.
     Auk almennra skilyrða sem tilgreind eru í 8. gr. er það skilyrði starfsleyfis fyrir urðunarstað að rekstraraðili hafi lagt fram fullnægjandi fjárhagslega tryggingu eða ábyrgð fyrir því að uppfylltar verði þær skyldur sem starfsleyfinu fylgja, þar á meðal um lokunar- og eftirlitsaðgerðir í kjölfar lokunar urðunarstaðarins. Ákvæði þetta gildir þó ekki um urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang.
     Starfsleyfistrygging skal gilda í 30 ár eftir að urðunarstað er lokað. Fjárhæð tryggingar skal tiltekin í starfsleyfi. Fjárhæð tryggingar skal samræmast kostnaði við lokun urðunarstaðarins og þá tíðni vöktunar og sýnatöku, skv. 17. gr., sem Umhverfisstofnun telur fullnægjandi og miðast við 30 ára vöktunartímabil.
     Aðför má ekki gera í tryggingunni nema til fullnustu skyldu rekstraraðila til aðgerða í samræmi við starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Tryggingin skal jafnframt undanskilin þrotabúi rekstraraðila verði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta innan 30 ára frá lokun urðunarstaðarins.

16. gr.

Vöktun og aðgerðir.
     Rekstraraðili skal fylgja áætlun um eftirlit og vöktun með urðunarstaðnum, sbr. ákvæði laga þessara, reglugerða sem um reksturinn gilda og starfsleyfi. Rekstraraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun eða viðkomandi eftirlitsaðila um hvers konar skaðleg áhrif á umhverfið sem teljast veruleg og koma í ljós við eftirlit og vöktun. Hann skal einnig hlíta ákvörðun Umhverfisstofnunar eða viðkomandi eftirlitsaðila um eðli og tímasetningu aðgerða til úrbóta sem grípa ber til.

17. gr.

Lokun urðunarstaðar.
     Urðunarstað telst ekki endanlega lokað fyrr en eftirlitsaðili hefur skoðað vettvang og metið upplýsingar rekstraraðila varðandi lokun og Umhverfisstofnun hefur veitt samþykki fyrir lokun.
     Rekstraraðili urðunarstaðar ber ábyrgð á viðhaldi urðunarstaðarins, vöktun og greiningu á hauggasi og sigvatni sem berst frá urðunarstaðnum og greiningu grunnvatns í nágrenni staðarins, eftir því sem nánar greinir í starfsleyfi, svo lengi sem telja má að mengunarhætta stafi af urðunarstaðnum, að jafnaði í 30 ár frá lokun hans. Umhverfisstofnun er heimilt að veita rekstraraðila undanþágu frá sýnatöku, eftir því sem aðstæður á viðkomandi urðunarstað mæla með, vegna vöktunar á sigvatni, grunnvatni og mælingum á breytingum á umfangi úrgangs sem urðaður hefur verið, hafi eingöngu verið tekið við heimilis- og rekstrarúrgangi eða óvirkum úrgangi á viðkomandi urðunarstað og um er að ræða urðunarstað í afskekktri byggð sem tekur eingöngu til urðunar úrgang sem fellur til í þeirri afskekktu byggð. Áður en starfsleyfi er gefið út skal afmarkað það svæði þar sem sýnataka fer fram samkvæmt ákvæði þessu.
     Umhverfisstofnun skal endurskoða fyrirkomulag vöktunar á þriggja ára fresti frá lokun urðunarstaðar.
     Fari rekstraraðili ekki að fyrirmælum Umhverfisstofnunar um vöktun skal Umhverfisstofnun láta vinna verkið á kostnað rekstraraðila. Starfsleyfistrygging rekstraraðila skv. 15. gr. skal þá leyst út til greiðslu verksins.
     Rekstraraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun um hvers konar skaðleg áhrif á umhverfið sem teljast veruleg og koma í ljós við vöktunina og hlíta ákvörðun stofnunarinnar um nauðsynlegar aðgerðir til úrbóta.
     Heimilt er Umhverfisstofnun eða viðkomandi eftirlitsaðila að gefa rekstraraðila fyrirmæli um lokunaraðgerðir, vöktun og umsjón með því svæði þar sem rekinn hefur verið urðunarstaður þótt rekstraraðili hafi ekki umráð viðkomandi landsvæðis. Eigandi eða umráðamaður lands þar sem eftirlit fer fram skal hlíta því að rekstraraðili framkvæmi lokunar-, vöktunar- og eftir atvikum hreinsunaraðgerðir eftir lokun urðunarstaðar samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Veiti eigandi eða umráðamaður lands ekki aðgang að landi sínu til að unnt sé að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir samkvæmt fyrirmælum Umhverfisstofnunar er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf svo að aðgerðirnar nái fram að ganga.
     Verði eigandi eða umráðamaður lands sannanlega fyrir tjóni við framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem vegna jarðrasks og átroðnings, skal rekstraraðili bæta það tjón. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
     Umhverfisstofnun skal láta þinglýsa fyrirmælum um vöktun og umsjón með urðunarstað og nágrenni hans eftir lokun hans og láta aflýsa henni þegar vöktunartímabili telst lokið. Rekstraraðili skal bera kostnað af þinglýsingu og aflýsingu.

IV. KAFLI
Sérákvæði um brennslustöðvar.

18. gr.

Umsókn um starfsleyfi fyrir brennslustöð.
     Í umsókn um starfsleyfi fyrir brennslustöð skal auk þess sem fram kemur í 6. gr. gera grein fyrir tæknibúnaði til að framfylgja kröfum um loftgæði og förgun ösku.

19. gr.

Skilyrði starfsleyfis fyrir brennslustöð.
     Í starfsleyfi fyrir brennslustöð skulu auk almennra skilyrða sem tilgreind eru í II. kafla vera ákvæði um losunarmörk fyrir mengunarefni eftir því sem við á með tilliti til samsetningar þess úrgangs sem brenna á og gerðar brennslustöðvarinnar. Þegar sett eru útblástursmörk skal taka tillit til hugsanlegra skaðlegra áhrifa þeirra mengunarefna sem um ræðir á umhverfi og heilsu manna.

20. gr.

Losunarmörk.
     Mæla skal styrk mengandi efna í útblásturslofti frá brennslu og brennsluaðstæður eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð og starfsleyfi stöðvarinnar.
     Sýni mælingar að farið hafi verið yfir losunarmörk sem tilgreind eru í starfsleyfi skal rekstraraðili gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að brennslustöðin fullnægi kröfum um losunarmörk, ella skal starfsemi stöðvarinnar hætt.

V. KAFLI
Eftirlit, þvingunarúrræði, málsmeðferð og viðurlög.

21. gr.

Eftirlit.
     Umhverfisstofnun annast eftirlit með því að starfsleyfishafi sem hún veitir starfsleyfi fari að ákvæðum starfsleyfis samkvæmt lögum þessum. Heimilt er stofnuninni að fela heilbrigðisnefnd eftirlit og framkvæmd þvingunarúrræða samkvæmt lögum þessum í umboði stofnunarinnar. Umhverfisstofnun er einnig heimilt að fela tiltekna þætti heilbrigðiseftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum. Skal í slíkum tilvikum gerður sérstakur samningur við hinn faggilta skoðunaraðila, sbr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.
     Starfsmönnum Umhverfisstofnunar og öðrum eftirlitsaðilum samkvæmt lögum þessum skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi, reglugerðir og samþykktir settar samkvæmt þeim ná yfir.
     Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til eftirlits með framkvæmd laganna og ber þeim að afhenda nauðsynleg sýni endurgjaldslaust.
     Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu, eftirlit og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér samkvæmt lögum þessum. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi. Heimilt er utanríkisráðherra að setja gjaldskrá og innheimta gjald á varnarsvæðum.
     Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Leita skal umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og hollustuháttaráðs áður en gjaldskrá er sett. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Umhverfisráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga.

22. gr.

Þvingunarúrræði.
     Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd þar sem hún fer með eftirlit er heimilt að beita úrræðum samkvæmt grein þessari.
     Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum er heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf.
     Ef aðili verður ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests er heimilt að ákveða aðila dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til ríkissjóðs og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag.
      Heimilt er að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef tilmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal sá kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd þar sem hún fer með eftirlit en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað við verkið sem og dagsektir skv. 3. mgr. má innheimta með fjárnámi.
      Ef svo alvarleg hætta stafar af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað.
     Sinni rekstraraðili ekki úrbótum og um alvarlegt eða ítrekað tilvik er að ræða getur Umhverfisstofnun svipt rekstraraðila starfsleyfi.
     Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða.

23. gr.

Málsmeðferð og úrskurðir.
     Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða samþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     Ákvarðanir Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfa samkvæmt lögum þessum má kæra til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan sex vikna frá ákvörðun Umhverfisstofnunar. Rísi ágreiningur milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda um framkvæmd laga þessara skal vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Sama gildir um ágreining milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laganna.

24. gr.

Viðurlög.
     Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglugerðum settum samkvæmt þeim og samþykktum sveitarfélaga varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða varða brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun til brota gegn lögum þessum, reglugerðum og samþykktum sem settar eru á grundvelli þeirra varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í brotum.
     Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.

VI. KAFLI
Gildistaka.

25. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og eiturefni og hættuleg efni og varða úrgang halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær samræmast lögum þessum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Rekstraraðilar urðunarstaða sem eru í rekstri við gildistöku laga þessara skulu fyrir 31. desember 2003 senda Umhverfisstofnun áætlun um hvernig unnt sé að laga rekstur urðunarstaðarins að ákvæðum laga þessara.
     Þeir urðunarstaðir sem eru í rekstri við gildistöku laga þessara skulu uppfylla kröfur laganna fyrir 16. júlí 2009, ella skal þeim lokað.
     Ef urðunarstaður er í rekstri í eyju hér við land við gildistöku laga þessara og er lokað eftir gildistöku laganna getur Umhverfisstofnun veitt undanþágu frá sýnatöku eftir því sem aðstæður á viðkomandi urðunarstað mæla með vegna vöktunar á sigvatni, grunnvatni og mælingum á breytingum á umfangi þess úrgangs sem urðaður hefur verið. Slík undanþága er þó einungis heimil hafi eingöngu verið tekið við heimilis- og rekstrarúrgangi eða óvirkum úrgangi á viðkomandi urðunarstað og um er að ræða urðunarstað sem getur að hámarki tekið við 15.000 tonnum af úrgangi eða að hámarki 1.000 tonnum á ári og er eini urðunarstaðurinn í eyjunni og þjónar henni einni.
     Í reglugerð skal kveðið nánar á um aðlögun starfandi urðunarstaða.

II.
     Frá gildistöku laga þessara til ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd laganna. Nefndin skal skipuð sex mönnum, þremur samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og þremur samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra. Nefndin skal fylgjast með þróun meðhöndlunar úrgangs hérlendis og á Evrópska efnahagssvæðinu. Sérstaklega skal nefndin fylgjast með hvernig markmiðum laganna er náð og meta þann kostnað sem hlýst af því. Nefndin skal skila árlegri skýrslu til umhverfisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga og setja fram eftir því sem þörf krefur tillögur um hvernig kostnaðinum verði mætt. Tilnefningaraðilar skulu bera kostnað vegna fulltrúa sinna í nefndinni.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.