Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 60. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1227  —  60. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á sjómannalögum, nr. 35/1985.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneytinu, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Ólaf Briem frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og Jón H. Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Stýrimannaskólanum í Reykjavík og Sjómannasambandi Íslands.
    Í 1. mgr. 26. gr. laganna segir: Farist skip eða verði það fyrir sjótjóni og sé dæmt óbætandi eða verði af óviðráðanlegum ástæðum tekið úr þjónustu útgerðarmanns um ófyrirsjáanlegan tíma, þó ekki skemmri en þrjá mánuði, er skiprúmssamningi slitið nema öðruvísi sé um samið.
    Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laganna á skipverji sem verður fyrir því að skiprúmssamningi er slitið af þeim sökum er greinir í 1. mgr. einungis rétt á ferðakostnaði, nauðsynlegum klæðnaði og fæðispeningum til heimilis síns.
    Ljóst er að menn sem lenda í framangreindum aðstæðum geta átt ýmis réttindi bæði samkvæmt lögum og kjarasamningum, t.d. skv. 36. gr. laganna þar sem kveðið er á um að ef skipverjar verða óvinnufærir vegna sjúkdóms eða meiðsla haldi viðkomandi launum allt að tveimur mánuðum. Hins vegar liggur það jafnframt fyrir að upp geta komið, og upp hafa komið, tilvik þar sem skipverjar hafa ekki notið neinna réttinda þegar þeir hafa misst atvinnu sína af þeim sökum sem greinir í 1. mgr. 26. gr. laganna. Úr því vill nefndin bæta.
    Nefndin leggur til breytingu á efnisákvæði frumvarpsins sem ætlað er að sneiða þá galla af frumvarpinu sem nú má finna. Breytingin er efnislega samhljóða núgildandi 3. mgr. 26. gr. að því frátöldu að ekki skiptir máli hvort skip verði fyrir sjótjóni eða er dæmt óbætandi o.s.frv. erlendis eða hér heima, skipverjar njóti sama réttar eftir sem áður.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

B    REYTINGU:

    Efnismálsgrein 1. gr. orðist svo:
    Verði skiprúmssamningi slitið af þeim ástæðum sem greinir í 1. mgr. á skipverji rétt til launa á meðan hann er atvinnulaus af þessum sökum, þó ekki lengur en í tvo mánuði frá ráðningarslitum ef hann er stýrimaður, vélstjóri eða bryti, en í einn mánuð frá sama tíma ef hann gegnir annarri stöðu á skipi.

    Magnús Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. mars 2003.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.Sigríður Ingvarsdóttir.


Árni R. Árnason.


Jón Bjarnason.Lúðvík Bergvinsson.


Jóhann Ársælsson.