Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 422. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1247  —  422. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar (ArnbS, GÖ, PHB, MS, ÁRJ, DrH, JBjart).



     1.      Við bætist ný grein sem verður 1. gr., svohljóðandi:
             1. gr. laganna orðast svo:
             Í þéttbýli skulu sveitarfélög starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, eftir því sem kostur er, nema í þeim tilvikum sem um ræðir í 3. mgr.
             Í dreifbýli er sveitarstjórn heimilt að starfrækja vatnsveitu, sbr. 1. mgr., og leggja í framkvæmdir við gerð hennar, enda sýni rannsóknir og kostnaðaráætlun að hagkvæmt sé að leggja veituna og reka hana.
             Ákvæði laga þessara gilda ekki um vatnsveitur sem vatnsveitufélög eða aðrir starfrækja samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923.
             Ákvæði 4. gr. um einkarétt sveitarfélaga til að eiga og reka vatnsveitu gilda ekki um landsvæði þar sem ekki er talið hagkvæmt að leggja vatnsveitu, sbr. 2. mgr.
     2.      Við 1. gr. Efnismálsgrein b-liðar orðist svo:
             Með orðunum stjórn vatnsveitu er í lögum þessum átt við þann aðila sem ber ábyrgð á daglegri stjórn vatnsveitunnar hvort sem um er að ræða sveitarstjórn, sérstaka stjórn vatnsveitu sem skipuð er skv. 2. mgr. eða annan þann aðila sem fer með málefni vatnsveitu skv. 3. eða 4. gr.
     3.      Við 2. gr.
                  a.      1. efnismgr. orðist svo:
                     Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns á því svæði sem vatnsveitan nær yfir og hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Einkaréttinn getur sveitarstjórn framselt stofnun eða fyrirtæki sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga ákveðið tímabil í senn. Við slíkt framsal er sveitarfélaginu skylt að setja skilyrði varðandi eignarrétt á stofnkerfi vatnsveitu, verð til notenda veitunnar og innlausnarrétt sveitarfélags á einkaréttindum og eignum á tímabilinu auk annarra atriða sem sveitarstjórn telur nauðsynleg.
                  b.      Í stað 3. málsl. 2. efnismgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Eignarhald og viðhaldsskylda skal að öðru leyti haldast óbreytt. Skylt er vatnsveitu að yfirtaka heimæðar að skriflegri beiðni eiganda.
     4.      2. efnismálsl. 3. gr. falli brott.
     5.      Í stað orðanna „stjórnar vatnsveitu“ í 3. og 4. málsl. 1. efnismgr. 4. gr. og „stjórn vatnsveitu“ í 4. efnismgr. 6. gr. komi: vatnsveitu.
     6.      5. efnismálsl. c-liðar 5. gr. orðist svo: Heimilt er að innheimta vatnsgjald með fasteignasköttum og skulu þá gjalddagar vatnsgjalds vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
     7.      3. efnismálsl. 9. gr. orðist svo: Stjórn vatnsveitu skal auglýsa gjaldskrána og breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.