Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 679. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1267  —  679. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um félög í eigu erlendra aðila.

     1.      Hversu mörg félög hér á landi eru að meiri hluta í eigu erlendra aðila, sundurliðað eftir árum 1998–2002?
    Haft var samband við fyrirtækja- og hlutafélagaskrá Hagstofu Íslands til þess að kanna hvaða upplýsingar liggja fyrir hjá aðilum sem viðskiptaráðuneytið hefur aðgang að. Skráin upplýsti að unnt væri handfært að fara í gegnum tilkynningar um stofnun félaga og finna þau félög þar sem erlendir aðilar eru meðal stofnenda. Það verður þó ekki gert innan þess tímafrests sem gefinn er til svara í þessu tilviki. Hafa verður í huga að stofnuð hlutafélög eru á milli 15–20 þúsund talsins. Fyrirtækja- og hlutafélagaskrá benti enn fremur á að upplýsingar um eigendur að eignarhlutum í félögum á hverjum tíma þurfa ekki að vera í samræmi við skráða stofnendur þar sem eignarhlutar ganga kaupum og sölum. Upplýsingar um hverjir eru eigendur hluta í félögum á hverjum tíma er því ekki að finna í hlutafélagaskrá. Í þeim tilvikum sem um hlutafélög er að ræða er þær upplýsingar að finna í hlutaskrá viðkomandi hlutafélags.
    Auk fyrirtækja- og hlutafélagaskrár Hagstofu Íslands hafa Kauphöll Íslands og Verðbréfaskráning Íslands upplýsingar um hluthafa í skráðum félögum. Samkvæmt reglum Kauphallar Íslands skulu skráð félög gera grein fyrir því í ársreikningum sínum hverjir séu tíu stærstu hluthafar viðkomandi félags. Kauphöll Íslands upplýsti ráðuneytið um það að ekkert skráðra félaga væri í meirihlutaeigu erlendra aðila.
    Verðbréfaskráning Íslands heldur skrá um eigendur skráðra verðbréfa, sbr. lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997. Þar eru á hverjum tíma skráðir eigendur hluta í skráðum hlutafélögum. Samkvæmt 14. gr. tilvitnaðra laga, sbr. og 8. gr., er óheimilt að gefa upplýsingar úr skránni nema í hagtölulegum tilgangi og að fengnu samþykki Persónuverndar.

     2.      Hve mörg þessara félaga voru með raunverulega atvinnustarfsemi hér á landi sl. tvö ár, þ.e. höfðu fasta starfsmenn og tekjur sem upprunnar voru hér á landi?

    Ekki er að finna upplýsingar um raunverulega atvinnustarfsemi fyrirtækja í meirihlutaeigu erlendra aðila hér á landi í þeim gagnagrunnum sem ráðuneytinu eru tiltækir.

     3.      Eru þessi félög skattskyld hér á landi og hverjar hafa skattgreiðslur þeirra verið sl. fimm ár?
    Þessi liður varðar skattamálefni fyrirtækja sem heyra ekki undir viðskiptaráðherra. Var af þeim sökum óskað eftir svörum fjármálaráðherra og byggist eftirfarandi á svari hans.
    Eins og áður er komið fram liggja ekki fyrir upplýsingar um þau félög sem hér um ræðir eða hvers eðlis starfsemi þeirra er. Af þeim sökum er erfitt að fullyrða nokkuð um skattskyldu þeirra. Þó má reikna með að þau fyrirtæki sem hér eru stofnuð og eru í meirihlutaeigu erlendra aðila séu hlutafélög eða einkahlutafélög í almennri atvinnustarfsemi og þar af leiðandi skattskyld af tekjum sínum og eignum. Ekki liggja fyrir sérgreindar upplýsingar um skattgreiðslur fyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu erlendra aðila.

     4.      Er ástæða til að ætla að þessi félög séu að einhverju leyti notuð til að losna undan skattskyldu í öðrum löndum?
    Þessi liður varðar skattamálefni fyrirtækja sem heyra ekki undir viðskiptaráðherra. Var af þeim sökum óskað eftir svörum fjármálaráðherra og byggist eftirfarandi á svari hans.
    Ótal ástæður geta legið að baki ákvörðun um staðsetningu eða kaup á fyrirtæki hér á landi en ekki í öðru landi. Skattalegt umhverfi er einn af þeim þáttum, en önnur atriði eins og náttúruauðlindir, vel menntað vinnuafl, stöðugleiki, aðgengi o.fl. geta einnig skipt veigamiklu máli, allt eftir eðli starfseminnar.