Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 476. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1273  —  476. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja sem heyra undir ráðuneytið voru flutt út á land árið 2002, sundurliðað eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

    Á undanförnum missirum hefur mikið verið rætt um flutning fjarvinnsluverkefna út á land. Í fyrsta flokki verkefna í þeirri umræðu eru þjónustuverkefni af ýmsum toga, svo sem gagnaskráning, símsvörun og úthringiþjónusta. Annar flokkur verkefna eru svonefnd yfirfærsluverkefni sem unnin eru í dag á höfuðborgarsvæðinu en talið er að hægt væri að vinna annars staðar. Þriðji flokkur verkefna tekur svo til tilvika þar sem oft er krafist sérfræðimenntunar auk verulegrar þekkingar og reynslu starfsmanna.
     Þjónustuverkefni: Flutningur fjarvinnsluverkefna heilbrigðisþjónustunnar út á land er ýmsum annmörkum háður. Meginástæðan er einfaldlega sú að skráning heilbrigðisupplýsinga er með þeim hætti á heilbrigðisstofnunum að þær eru framkvæmdar á ábyrgð og undir eftirliti yfirlæknis eða lækningaforstjóra á hverjum stað. Það er því erfitt eða nánast útilokað að koma við skráningu gagna annars staðar en á viðkomandi heilbrigðisstofnunum. Hugmyndum um að koma á sérstakri fjarvinnslu við skráningu upplýsinga í heilbrigðiskerfinu eru því settar mjög strangar skorður vegna reglna um trúnað starfsfólks og öryggi gagna.
     Yfirfærsluverkefni: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur undanfarin ár unnið að því að efla og styrkja þjónustu á landsbyggðinni. Heilbrigðisstofnanir á Austfjörðum, í Ísafjarðarbæ, Norður-Þingeyjarsýslu og í Rangárþingi hafa verið sameinaðar. Sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hefur ekki aðeins falið í sér breytingar á stjórnkerfi og skipulagi þessara stofnana heldur og ekki síður hafa orðið umskipti í rekstrar- og upplýsingamálum. Verið er að byggja upp víðtæk upplýsinga- og rekstrarkerfi og víða er verið að taka í notkun rafræna sjúkraskrá. Allar þessar breytingar kalla á sérhæfðara starfsfólk og endurmenntun þess starfsfólks sem fyrir er, en eitt af meginmarkmiðum sameiningar heilbrigðisstofnana víða um land er að treysta viðkomandi starfsemi með því að byggja upp fullnægjandi umhverfi fyrir sérhæft starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar.
     Sérfræðiþjónusta: Með eflingu stofnana á landsbyggðinni hefur þjónusta þeirra verið aukin og samfara þeirri breytingu má víða sjá að sjúklingar leita í minna mæli eftir þjónustu sérfræðinga á höfuðborgarsvæðinu. Uppbygging fjarlækninga og fjölgun ferliverka á sjúkrahúsum á landsbyggðinni eru dæmi um aukna þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Hér er um dýra sérfræðiþjónustu að ræða sem getur dregið verulega úr ferðakostnaði sjúklinga. Með tilkomu sérstakrar samninganefndar ráðuneytisins í ársbyrjun 2002, sem ætlað er að annast samningagerð við stofnanir og sjálfstætt starfandi sérfræðinga, skapast betri möguleikar á að færa ferliverkaþjónustu nær íbúunum og nýta þá aðstöðu sem fyrir er á heilbrigðisstofnunum.
    Loks má geta þess að reglulega er hugað að því hvort ný verkefni heilbrigðiskerfisins og starfsemi stofnana eins og Tryggingastofnunar ríkisins og Lyfjastofnunar ríkisins geti farið fram að hluta utan höfuðborgarsvæðisins. Má þar til að mynda nefna ýmiss konar rannsóknar- og þróunarverkefni ásamt skráningarvinnu og úrvinnslu á heilbrigðisupplýsingum.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið telur að frekari möguleika á flutningi fjarvinnsluverkefna út á land verði að skoða með hliðsjón af áformum um uppbyggingu og þróun upplýsingakerfa heilbrigðisþjónustunnar. Við það mat er mikilvægt að gera sér grein fyrir stöðu upplýsingamála heilbrigðiskerfisins og þeim verkefnum sem unnið er að um þessar mundir. Forgangsverkefni á sviði upplýsingamála heilbrigðiskerfisins eru heilbrigðisnet, rafræn sjúkraskrá og fjarlækningar.
    Auk þessara verkefna er fræðslustarfsemi einnig vaxandi þáttur á sviði fjarlækninga. Notaður er fjarfundabúnaður til þess að veita heilbrigðisstarfsmönnum aðgang að fræðslufundum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og víðar. Íslensk sjúkrahús hafa jafnframt fengið aðgang að fræðslufundum við erlenda háskóla.
    Á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra er unnið að víðtækum verkefnum á sviði fjarlækninga sem annars vegar miða að því að tengja saman stofnanir á þessum landsvæðum, og hins vegar að því að koma þeim í tengsl við sérhæfðar miðstöðvar á hinum ýmsu sviðum læknisfræðinnar. Fjarlækningar eru sá þáttur heilbrigðisþjónustunnar sem búist er við að eigi eftir að skapa víðtækari möguleika til þess að tryggja betur en nú er sem jafnast aðgengi allra landsmanna að öllum þáttum heilbrigðisþjónustunnar.
    Eitt af því mikilvægasta sem hægt er að gera til þess að bæta heilsufar þjóðarinnar á næstu árum er að nýta okkur upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustunni. Gagnaöflun, bætt skráning, aukið öryggi gagnanna og greiður aðgangur að þeim ræður mestu um árangurinn á þessu sviði. Greiðari aðgangur að heilsufarsgögnum mun til að mynda leiða til skjótari ákvarðana, og meðferð sjúklinga verður markvissari og áreiðanlegri.
    Þar fyrir utan skal vakin athygli á því að með upplýsingavæðingunni ættu allar upplýsingar um rekstur að vera til staðar fyrr og auðvelda stjórnendum markvissari stjórnun heilbrigðisþjónustunnar. Þannig geta e.t.v. skapast möguleikar til að nýta þá fjármuni betur sem varið er til heilbrigðismála.
    Þau verkefni á sviðið upplýsingamála sem unnið er að um þessar mundir eru fyrst og fremst þróunarverkefni sem ætlunin er að verði lögð til grundvallar uppbyggingu upplýsingakerfa heilbrigðiskerfisins á næstu árum. Upplýsingar um hugsanlegan fjölda þeirra starfa sem þannig kynnu að skapast eða unnt væri að flytja út á land eru með öðrum orðum ekki tiltækar og þeirra er ekki að vænta fyrr en meginniðurstöður þróunarverkefnanna liggja fyrir og meira er vitað um hvernig unnt verður að nýta gagnagrunna heilbrigðiskerfisins við vinnslu heilbrigðistölfræði og heilbrigðisupplýsinga.