Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1280  —  670. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Kjartan Gunnarsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Garðar Ingvarsson frá markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar, Jón Sveinsson hrl., Valgarð Stefánsson frá Orkustofnun, Friðrik Sophusson, Bjarna Bjarnason, Björn Stefánsson og Stefán Pétursson frá Landsvirkjun, Ásgeir Margeirsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Má Haraldsson, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Lúðvík Elíasson og Þórarin G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Ársæl Valfells frá Landsbanka Íslands, Ingunni S. Þorsteinsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun, Helga Jensson frá Umhverfisstofnun, Gísla Gíslason frá Akraneskaupstað, Pál S. Brynjarsson frá Borgarbyggð, Hallfreð Vilhjálmsson frá Hvalfjarðarstrandarhreppi, Helga Ómar Þorsteinsson frá Skilmannahreppi og Tómas Sigurðsson frá Norðuráli.
    Nefndin óskaði eftir umsögn umhverfisnefndar um málið og bárust umsagnir frá meiri og minni hluta nefndarinnar og eru þær birtar sem fylgiskjöl með nefndaráliti þessu.
    Frumvarp þetta tengist samningum um stækkun álvers á Grundartanga og lýtur að orkuöflun til þeirrar starfsemi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Landsvirkjun fái leyfi iðnaðarráðherra til að reisa og reka vatnsmiðlun, Norðlingaölduveitu, í samræmi við skilyrði er fram koma í úrskurði setts umhverfisráðherra frá 30. janúar 2003. Í annan stað er iðnaðarráðherra gefin heimild til að veita sameignarfyrirtækinu Orkuveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 120 MW afli. Þá er iðnaðarráðherra með sama hætti heimilt að veita Hitaveitu Suðurnesja hf. leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Reykjanesi með allt að 80 MW afli, enda liggi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, og stækka jarðvarmavirkjun félagsins í Svartsengi um 16 MW.
    Fram kom í máli fulltrúa orkufyrirtækjanna að orkuöflun vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga ætti að geta orðið að veruleika svo fremi að samningar náist milli orkufyrirtækjanna annars vegar og Norðuráls hins vegar og tilskilin leyfi fáist. Stefnt er að því að fyrri hluti stækkunar Norðuráls verði tilbúinn á árinu 2005.
    Eftir úrskurð setts umhverfisráðherra, dags. 30. janúar 2003, um Norðlingaölduveitu var ljóst að Landsvirkjun gat ekki útvegað næga orku frá eigin orkuverum og var því leitað til Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um framleiðslu á þeirri orku er á skorti. Frumvarpið byggist á því að veita heimildir vegna þessara áforma að uppfylltum skilyrðum.
    Í fylgiskjali III með frumvarpinu er lýst hugmyndum Landsvirkjunar um útfærslu á Norðlingaölduveitu samkvæmt úrskurði setts umhverfisráðherra. Í máli oddvita Gnúpverjahrepps og skriflegri umsögn var bent á nokkur atriði í því sambandi. Nefndi hann einkum þjú atriði: Áhrif á fossa í Þjórsá, lónshæðina við Norðlingaöldu og veitulón við Þjórsárjökul. Nefndin leggur áherslu á að samkvæmt úrskurði setts umhverfisráðherra er gert ráð fyrir að Landsvirkjun hafi fullt samráð við heimamenn og Umhverfisstofnun um útfærslu á veitunni. Fram kom hjá gestum nefndarinnar að slíkt samráðsferli er þegar orðið virkt.
     Í umsögn meiri hluta umhverfisnefndar kemur eftirfarandi fram:
    „Lagt er til að Landsvirkjun verði veitt heimild til að reisa uppistöðulón við Norðlingaöldu. Byggist það á úrskurði setts umhverfisráðherra, dags. 30. janúar sl. Í úrskurðinum er skýlaust kveðið á um að friðlandinu í Þjórsárverum skuli hlíft og vatnsborð uppistöðulóns skuli ekki ná inn fyrir friðlandsmörkin. Jafnframt er skýrt kveðið á um að samráð skuli haft milli fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli, Umhverfisstofnunar og Landsvirkjunar. Markmið þess er að ná fullri sátt um verkefnið þannig að röskun á umhverfi verði sem minnst. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig úrskurður setts umhverfisráðherra verður útfærður. Á fylgiskjali III með frumvarpinu er yfirlit um framkvæmd vegna Norðlingaölduveitu. Komið hefur fram að verið er að skoða hvaða leiðir verði farnar. Lítur nefndin svo á að þær leiðir sem tilgreindar eru í fylgiskjalinu séu ekki bindandi á nokkurn hátt.
    Þá felur frumvarpið í sér heimild til Orkuveitu Reykjavíkur til að framleiða allt að 120 MW raforku með jarðhitagufu á Nesjavöllum. Jafnframt er sambærileg heimild til Hitaveitu Suðurnesja til að framleiða allt að 80 MW raforku með jarðhitagufu á Reykjanesi, og stækka jarðvarmavirkjun félagsins í Svartsengi um 16 MW. Leyfi fyrir raforkuframleiðslu með jarðhitagufu hjá þessum tveimur orkuframleiðendum er háð niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum og útgáfu sérstakra starfsleyfa.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemdir við frumvarpið enda skal farið eftir úrskurði setts umhverfisráðherra og lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.“
    Meiri hluti iðnaðarnefndar tekur undir þetta sjónarmið og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 12. mars 2003.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Pétur H. Blöndal.



Kjartan Ólafsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Árni R. Árnason.







Fylgiskjal I.


Umsögn meiri hluta umhverfisnefndar.



    Umhverfisnefnd hefur borist bréf iðnaðarnefndar, dags. 11. mars sl., þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, 670. mál.
    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor, Ragnhildi Sigurðardóttur frá Umhverfisrannsóknum ehf., Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Má Haraldsson, oddvita Gnúpverjahrepps, Sveinbjörn Björnsson, verkefnisstjóra rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, Tryggva Felixson frá Landvernd, Kristin Hauk Skarphéðinsson, Náttúrufræðistofnun Íslands, og Kristínu Svavarsdóttur, Landgræðslunni, frá starfshópi setts umhverfisráðherra Jóns Kristjánssonar vegna Norðlingaölduveitu, Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur frá Landvernd, Ólaf Andrésson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Árna Bragason frá Umhverfisstofnun.
    Í frumvarpinu er veitt heimild til þriggja þátta er varða raforkuframleiðslu.
    Lagt er til að Landsvirkjun verði veitt heimild til að reisa uppistöðulón við Norðlingaöldu. Byggist það á úrskurði setts umhverfisráðherra, dags. 30. janúar sl. Í úrskurðinum er skýlaust kveðið á um að friðlandinu í Þjórsárverum skuli hlíft og vatnsborð uppistöðulóns skuli ekki ná inn fyrir friðlandsmörkin. Jafnframt er skýrt kveðið á um að samráð skuli haft milli fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli, Umhverfisstofnunar og Landsvirkjunar. Markmið þess er að ná fullri sátt um verkefnið þannig að röskun á umhverfi verði sem minnst. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig úrskurður setts umhverfisráðherra verður útfærður. Á fylgiskjali III með frumvarpinu er yfirlit um framkvæmd vegna Norðlingaölduveitu. Komið hefur fram að verið er að skoða hvaða leiðir verði farnar. Lítur nefndin svo á að þær leiðir sem tilgreindar eru í fylgiskjalinu séu ekki bindandi á nokkurn hátt.
    Þá felur frumvarpið í sér heimild til Orkuveitu Reykjavíkur til að framleiða allt að 120 MW raforku með jarðhitagufu á Nesjavöllum. Jafnframt er sambærileg heimild til Hitaveitu Suðurnesja til að framleiða allt að 80 MW raforku með jarðhitagufu á Reykjanesi, og stækka jarðvarmavirkjun félagsins í Svartsengi um 16 MW. Leyfi fyrir raforkuframleiðslu með jarðhitagufu hjá þessum tveimur orkuframleiðendum er háð niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum og útgáfu sérstakra starfsleyfa.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemdir við frumvarpið enda skal farið eftir úrskurði setts umhverfisráðherra og lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Alþingi, 11. mars 2003.



Magnús Stefánsson, form.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Katrín Fjeldsted.
Jóhann Ársælsson.
Gunnar Birgisson.
Ísólfur Gylfi Pálmason.



Fylgiskjal II.

Umsögn minni hluta umhverfisnefndar.



    Umhverfisnefnd hefur fengið til umsagnar frumvarp um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, 670. mál. Til að fjalla um málið fékk nefndin gesti sem taldir eru upp í umsögn meiri hluta nefndarinnar og eru nöfn þeirra ekki endurtekin hér.
    Mat minni hluta umhverfisnefndar er að mál það er hér um ræðir sé að mörgu leyti vanbúið og hreint ekki komið á það stig að tímabært sé að leggja það fram til afgreiðslu. Minni hlutinn gagnrýnir það að málið skuli hafa verið lagt fram með þeim hætti sem raun ber vitni og að iðnaðarnefnd skuli hafa fallist á flýtimeðferð sem kemur í veg fyrir faglega umfjöllun um málið. Þá er einnig rétt að gagnrýna það að umhverfisnefnd skuli ekki hafa fengið til umsagnar umhverfisþátt frumvarps til laga um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, 671. mál.
    Það er mat minni hlutans að óðagot ríkisstjórnarinnar við að ganga frá samningum um stóriðju sé löngu farið úr böndunum og sjáist menn ekki fyrir í þessum efnum. Þannig virðist ríkisstjórnin ekki ætla að taka nokkurt mið af rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma við útdeilingu virkjanakosta til stóriðjuverkefnanna sem hún gengur með í maganum. Er þessi staðreynd sýnu dapurlegri þegar á það er litið að niðurstaða 1. áfanga rammaáætlunar er á næsta leiti. Sveinbjörn Björnsson, formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar, gerði nefndarmönnum grein fyrir því að verið sé að leggja lokahönd á skýrslur einstakra faghópa og verkefnisstjórnin geri ráð fyrir að fjalla um skýrslur og tillögur faghópanna í apríl nk. Í ljósi þessa telur minni hlutinn algerlega óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli ekki meta neins þá vinnu sem hún sjálf setti af stað með fögrum fyrirheitum um að rammaáætlunin yrði tæki til að sætta ólík sjónarmið um nýtingu þeirra náttúruauðlinda sem hér um ræðir. Gert er ráð fyrir að í 1. áfanga Rammaáætlunarinnar verði metnir 23 kostir í vatnsafli og 19 í jarðvarma. Allir kostirnir sem frumvarpið fjallar um eru þar á meðal og verður ekki séð annað en skynsamlegast sé að bíða niðurstöðunnar, á þann hátt einan verður hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu.
    Eitt af því sem minni hlutinn gerir alvarlegar athugasemdir við er sú staðreynd að Landsvirkjun telur sig ekki bundna af tillögu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., sem úrskurður setts umhverfisráðherra, Jóns Kristjánssonar, um Norðlingaölduveitu byggist á. Í viðtali við Morgunblaðið 26. febrúar sl. segir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, að markmið Landsvirkjunar sé fyrst og fremst að halda lóninu utan friðlandsins, því geti lónhæðin farið í allt að 568,5 metra, sem er 2,5 metrum hærra en tillaga VST gerir ráð fyrir. Það munar mikið um slíka hækkun þar sem lón í 566 m.y.s. yrði einungis 3,3 km 2 að stærð en lón í 568,5 m.y.s. yrði helmingi stærra eða 6,6 km 2 og við það færi Eyfafen undir vatn.
    Gestir nefndarinnar, þau Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Kristín Svavarsdóttir, áttu bæði sæti í starfshópi sem settur umhverfisráðherra, Jón Kristjánsson, skipaði til að vinna álit um rof, setmyndun, gróður og fugla í tengslum við úrskurð vegna Norðlingaölduveitu. Í máli þeirra kom fram að þau teldu Landsvirkjun ekki bundna af tillögu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. en þau bentu bæði á að mikil óvissa ríkti um eitt atriði úrskurðarins, nefnilega það sem segir í 1. tölulið hans um að Norðlingaöldulón megi ekki hafa nein langtímaáhrif á friðlandið.
    Eitt af því sem minni hlutinn gagnrýnir varðandi áætlanir um Norðlingaölduveitu er fyrirhugað setlón vestan Þjórsárlóns, sem fjallað er um í úrskurði setts umhverfisráðherra. Þar er um að ræða framkvæmd sem í öllum meginatriðum er sambærileg við 6. áfanga Kvíslaveitu, sem miklar deilur hafa staðið um árum saman. Á sínum tíma, þegar friðlýsing Þjórsárvera var ákveðin, var alfarið fallið frá 6. áfanga Kvíslaveitna vegna mögulegra óafturkræfra umhverfisáhrifa, en ákveðið að gera ekki ágreining um hina áfangana fimm. Fyrir tveimur árum skaut svo 6. áfanginn upp kollinum á nýjan leik, þrátt fyrir það að Landsvirkjun hafi fallið frá honum áður. Þá spunnust um hann talsverðar deilur, sem m.a. má lesa um á síðum Morgunblaðsins og lyktaði þeim þannig að Landsvirkjun féll aftur frá áformum um 6. áfangann og setti eingöngu fram matsskýrslu um Norðlingaölduveitu. Á sameiginlegum fundi iðnaðarnefndar og umhverfisnefndar Alþingis um úrskurð setts umhverfisráðherra sem haldinn var í byrjun febrúar sl. svaraði Friðrik Sophusson því til, aðspurður, að eini munurinn á áformuðum 6. áfanga Kvíslaveitu og set- og veitulóni vestan Þjórsárlóns væri sá að hugmyndin í úrskurði setts umhverfisráðherra væri mótvægisaðgerð en ekki sjálfstæð framkvæmd eins og Landsvirkjun hefði hingað talið 6. áfangann. Það er mat minni hlutans að áhrif set- og veitulónsins séu óafturkræf og svo mikil að ekki sé réttlætanlegt að heimila það án undangengins sjálfstæðs mats á umhverfisáhrifum. Gestir umhverfisnefndarinnar staðfestu þetta sjónarmið minni hlutans með því að benda á að set- og veitulónið eigi, skv. hugmyndum þeim sem úrskurður setts umhverfisráðherra byggist á, að vera talsvert stærra en úrskurður Skipulagsstofnunar frá 12. ágúst 2002 gerði ráð fyrir. Þar hafi verið gert ráð fyrir því að flatarmál þess væri 2,7 km 2 en verði farin sú leið sem úrskurður setts umhverfisráðherra byggist á frá VST verður það 3,3 km 2. Þar með er lónið orðið matsskylt sem sjálfstæð framkvæmd skv. 17. tölul. 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í ljósi þessa er eðlilegt að véfengja vald setts umhverfisráðherra til að leggja þessa tilteknu framkvæmd til sem mótvægisaðgerð. Ólafur Andrésson líffræðingur benti nefndinni á að dæmi séu um það frá löndum Evrópusambandsins að mótvægisaðgerð sem fari yfir viðmiðunarmörk sé dæmd í mat á umhverfisáhrifum.
    Í máli Árna Bragasonar, forstöðumanns náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar, kom fram að takmarkaðir möguleikar séu á að verða við 5. ákvæði úrskurðarins er lýtur að því að tryggja vatnsrennsli í fossum Þjórsár neðan stíflu. Undir það sjónarmið tók Már Haraldsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Þá vildi Már koma á framfæri því sjónarmiði heimamanna að besta leiðin til að tryggja rennsli neðan veitunnar og draga um leið úr sjónrænum áhrifum sé að sleppa leiðigörðum og stíflu við Litlu-Arnarfellskvísl og láta hana renna óskipta í Norðlingaöldulón. Taldi Már þetta atriði ásamt lónshæðinni 566 m.y.s. vera forsendu þess að hægt verði að ná sátt um úrskurðinn. Undir þetta sjónarmið tók Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor og einnig formaður Landverndar sem benti á ályktun stjórnar Landverndar vegna úrskurðarins, en í henni kemur fram ótti við áhrif set- og veitulónsins og hvetur stjórnin til þess að ekki verði ráðist í þennan hluta framkvæmdarinnar fyrr en allir þættir málsins hafa verið vel rannsakaðir og kynntir fyrir almenningi og félagasamtökum. Þá taldi formaður Landverndar líkur á að framgangsmáti og verklag við ákvarðanatökur um framkvæmdir af þessu tagi geti strítt gegn 9. grein skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.
    Geta verður um óvandaðan frágang frumvarpsins og gera alvarlega athugasemd við það að í fylgiskjali III með frumvarpinu, þar sem Landsvirkjun gerir grein fyrir mögulegri útfærsluhugmynd, er vísað í uppdrætti sem alls ekki eru til staðar. Engir uppdrættir fylgja þessu yfirliti og er því ómögulegt að gera sér grein fyrir því hvaða hugmyndum er hér verið að lýsa. Skrifast þessi mistök á óðagotið við afgreiðslu málsins.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur minni hlutinn málið allt mjög vanbúið til afgreiðslu og gild rök hníga að því að leggjast gegn því. Vinnubrögð þau sem viðhöfð hafa verið við afgreiðslu þess hafa verið flaustursleg og nefndum Alþingis til lítils sóma. Fyrir þrábeiðni þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fékkst málið þó tekið til skoðunar í umhverfisnefnd þingsins, en sú skoðun var í skötulíki þar sem góðum gestum var boðið upp á klukkustundarlangan sameiginlegan fund með nefndinni. Þetta eru að mati minni hlutans fráleit vinnubrögð og ættu ekki að líðast í jafn stórum og afdrifaríkum málum og hér um ræðir. Til að leggja enn frekari áherslu á sjónarmið minni hlutans í þessu máli eru látnar fylgja þessari umsögn tvær greinar sem báðar birtust í Morgunblaðinu 15. febrúar sl. Önnur er eftir Hjörleif Guttormsson náttúrufræðing en hin eftir Guðmund Pál Ólafsson náttúrufræðing. Auk þess fylgir erindi sem Eysteinn Jónsson flutti á fundi Sambands náttúruverndarsamtaka Íslands í apríl 1977 þar sem lýst er sjónarmiðum varfærni og yfirvegunar við allar framkvæmdir í náttúru Íslands, sjónarmið sem einu sinni áttu hljómgrunn innan Framsóknarflokksins, en eiga þar ekki skjól lengur, þar sem þungaiðnaður er nú orðinn hornsteinn atvinnustefnu flokksins.

Alþingi, 12. mars 2003.



Kolbrún Halldórsdóttir.





Fskj. 1.

Eysteinn Jónsson:

Iðnþróun – Náttúruvernd – Orkustefna.
Erindi flutt á fundi Sambands náttúruverndarsamtaka Íslands í apríl 1977.
(Tíminn, 24. apríl 1977.)


    Ég hef verið beðinn um að vekja hér máls á náttúruvernd og iðnvæðingu. Mun ég leitast við að benda á nokkur grundvallaratriði, sem varða þetta mikla efni, en ég kemst ekki lengra en að vekja athygli á þeim, því að ég hefi ekki tök á að gera þeim önnur skil nú.
    Rétt þykir mér að geta þess, að þær skoðanir sem fram koma, eru mínar persónulegu skoðanir, nema þar sem vitnað er til annarra, t.d. ályktana Náttúruverndarþings.
    Stundum er hent gaman að því, þegar menn vitna í sjálfa sig. Ég ætla samt að láta mig hafa það að vitna í þingræðu eftir mig frá því í marzmánuði 1971, og var þá verið að ræða um nauðsyn mengunarvarna í álverinu í Straumsvík. Í upphafi máls míns þá reyndi ég með svofelldum orðum að gera grein fyrir náttúruverndarviðhorfum, og ég sé tæpast fram á að ég bæti þetta, þótt ég færi að orða það eitthvað dálítið öðruvísi:

Hættuleg úrgangsefni.
    „Stórfelld iðnvæðing nútímans, þéttbýlið í borgunum og öll hin gífurlega mergð úrgangsefna, sem flæða frá þeim tiltölulega litla hluta mannkynsins, sem lifir í allsnægtum, hefur skapað gífurlega hættu, sem ógnar heilbrigðu lífi á jörðinni.
    Þetta gengur svo langt að skoða verður mörg grundvallaratriði í nýju ljósi, og til þess að átta sig á þeim nýju viðgangsefnum, sem við eigum fyrir höndum að glíma við, er nauðsynlegt að festa sér í minni nokkur höfuðatriði þessara nýju viðhorfa.
    Þýðingarmest af öllu er að gera sér grein fyrir því, að það verða sífellt eftirsóttari lífsgæði að eiga heima í ómenguðu, eðlilegu umhverfi og hafa auðveldan og frjálsan aðgang að útivist í óspilltu, fjölbreytilegu landi. Eftir því sem mengun og önnur vandkvæði þéttbýlislandanna þrengja meira að, verður það þýðingarmeiri þáttur í viðhorfi manna í hvaða umhverfi sem þeir eiga kost á að lifa.
    Þetta þýðir, að þau lönd, sem vel eru sett í þessu tilliti, hafa að öðru jöfnu betri lífskjör að bjóða en önnur. Lífskjör mótast sem sé ekki einungis af fæði, klæði og húsnæði, og þátttöku í því, sem menn oft eiga við þegar þeir tala um menningarlíf, heldur einnig því, hvort menn eiga kost á því eða ekki, að lifa í eðlilegu og viðkunnanlegu umhverfi.
    Hér er því um landkosti að ræða á borð við aðra þýðingarmestu þætti. Þetta er í fyllsta máta hagnýtt sjónarmið, samhliða því menningarlega, sem í því felst að leggja rækt við land sitt og nágrenni.
    Menn verða því að gera sér grein fyrir því, að hreinlegt, óspillt og aðlaðandi umhverfi sem almenningur hefur aðgang að, eru landkostir eins og gott búland, góð fiskimið, fallvötn, jarðhiti og önnur náttúrugæði. En þessi skilningur verður að koma til og setja sitt mót á þjóðarbúskapinn, áður en það er of seint.
    Séum við sammála um, að það sé raunverulega mikils virði að lifa í ómenguðu, viðkunnanlegu umhverfi, þá verðum við að vera reiðubúin að láta gera þær ráðstafanir, sem til þess þarf að svo megi verða, og kosta því til, sem nauðsyn krefur.
    En sé hik á okkur að viðurkenna þessi grundvallaratriði, þá mætti reyna að mála þetta sterkari litum og spyrja: Hvers virði eru langar og breiðar stofur, mikilfengleg húsgögn og dýrir bílar, ef loftið er mengað, umhverfið löðrandi í óþverra, gróðurlaust og dautt, og vatn og sjór blandað eitri og óhreinindum? Þegar svo er komið yrði fánýtt að vaða í peningum.
    Þetta verða menn að horfast í augu við öfga- og æðrulaust. Menn verða að gera sér grein fyrir þessum nýstárlegu viðhorfum og takast á við hin nýju viðfangsefni skynsamlega og með festu.“

Nýtt verðmætamat.
    Þau sjónarmið, sem voru þannig sett fram 1971, eru nú orðið talsvert almennt viðurkennd og það er a.m.k. tæpast umdeilt, að tillit verður að taka til þeirra, og ég held að segja megi að nýtt verðmætamat hafi verið að fara fram og sé að fara fram hér á landi, þar sem þau góðu heilli eru tekin verulega til greina.
    Auðvitað greinir menn á um matið, þegar til framkvæmdanna kemur – þegar á hólminn kemur, en eftirtektarvert er, að það úir og grúir af yfirlýsingum um að mengunariðnað verði Íslendingar að forðast umfram allt. Vonandi er það góðs viti að svo margir beri sér þetta í munn.
    Ég tel það eiga að vera grundvallarþátt í iðnaðarstefnu Íslendinga að koma upp þeim iðnaði einum, þar sem hægt er að koma við fullnægjandi mengunarvörnum innanhúss og utan, og sem koma má á fót án óviðunandi röskunar á umhverfi.
    Eftir að við höfum nú fært landhelgina út í 200 mílur og sitjum bráðum ein að fiskimiðunum, erum við ekki í neinni þeirri neyð stödd með bjargræðisvegi, að við þurfum að koma upp iðnfyrirtækjum, sem menga umhverfið eða valda óbærilegum umhverfisspjöllum. Verðum við þá að nýta fiskimiðin skynsamlega.
    Margs konar iðnaði verðum við að koma á fót, bæði úr okkar eigin og innfluttum hráefnum og með hjálp þeirrar orku sem við eigum ráð á, og þetta getum við sjálf, ef við búum eðlilega í haginn fyrir iðnaðinn með fullu tilliti til þeirrar samkeppni sem hann verður að heyja heima og erlendis við iðnað annarra þjóða – en það verðum við líka að gera án tafar.
    Mikil sókn í iðnaðarmálum landsmanna verður og hlýtur að vera framundan. Þýðingarmikið er því og brennandi, einmitt um þessar mundir, að stefnan í iðnaðarmálum verði einnig mótuð með nægilegu tilliti til almennt viðurkenndra sjónarmiða í umhverfismálum.
    Kemur þar til val iðnaðarverkefna, staðsetning iðnaðarfyrirtækja og varnir gegn mengun.
    Framkvæmdir, til þess að fyrirbyggja mengun svo viðunandi sé, verða hiklaust að teljast með sjálfsögðum stofnkostnaði og reksturskostnaði iðnfyrirtækja og verða að takast með í áætlanir í upphafi þegar metið er, hvort þau eiga rétt á sér eða ekki. Menn verða einnig að gera sér grein fyrir því að tryggja verður fyrirfram, áður en ákvarðanir eru teknar um stofnun nýrra fyrirtækja, að þessar ráðstafanir verði gerðar þegar í upphafi. Reynslan sýnir okkur glöggt og átakanlega hversu erfitt er að bæta úr eftir á – ef ekki er tryggilega gengið frá öllu í öndverðu. Höfum við skýr dæmi um þetta fleiri en eitt, og er öll upptalning í því efni óþörf hér.
    Nauðsyn ber til að lögfesta ýtarlegri og traustari ákvæði en gildandi lög geyma, til þess að fyrirbyggja, að farið sé af stað með mengunariðnað án fullnægjandi varna. Er mér kunnugt um að nefnd sú, sem unnið hefur að því að semja frumvarp að lögum um umhverfismál, gerir tillögu til úrbóta í þessu efni, sem brýnt er að nái fram að ganga.
    Við Íslendingar eigum svo mikið undir því komið að geta komizt hjá mengun og óbærilegri röskun landsins, að við verðum að hafna þeim iðnrekstri, sem þess háttar vandkvæði fylgja.
    Okkur skortir áreiðanlega ekki verkefni sem samrýmast því að bæta landið og halda hreinleika lofts og lagar, en einmitt þeir þættir eru dýrmæt þjóðareign, sem ekki má spilla.
    Það þarf á hinn bóginn, eins og ég hefi drepið á, að ganga mun betur frá því en ennþá hefur tekizt, að í tæka tíð sé tryggt að þær iðnaðarframkvæmdir, sem í er ráðizt, uppfylli þau skilyrði sem eðlilegt er að setja frá umhverfissjónarmiði.

Iðnrekstur Íslendinga í höndum þeirra sjálfra.
    Mín skoðun er sú, að iðnrekstur Íslendinga eigi að vera í höndum þeirra sjálfra og að við eigum að hafna stóriðju útlendinga. Kemur þar margt til frá mínu sjónarmiði séð, sem ég hefi oft rakið á öðrum vettvangi og rek ekki hér að ráði. Nefni hér hættuna á of miklum erlendum áhrifum, sem erlendum stórrekstri fylgir og skerðingu atvinnulegs sjálfstæðis. Erlendur stórrekstur byggist á alls konar ívilnunum sem aðrir t.d. íslenzkir atvinnurekendur, njóta ekki, og gerir því ekki í blóðið sitt í þjóðarbúinu samanborið við rekstur okkar sjálfra. Ofan á bætist, að hagnaðurinn og afskriftaféð kemur alls ekki inn í landið. Þessi rekstur er ótraustur því honum er hagað eftir því, sem erlendir eigendur telja sér henta. Erlend stóriðja knýr til þess að gengið verði nær landinu til orkuöflunar en góðu hófi gegnir, og þess háttar stórrekstri fylgir háskaleg félagsleg og atvinnuleg röskun í þjóðarbúinu m.a. vegna þess að rekstrareiningar eru mjög stórar.
    Þegar til lengdar lætur verður það helzta tryggingin fyrir því, að eðlilegra umhverfissjónarmiða sé gætt, að atvinnureksturinn sé á vegum landsmanna sjálfra, þar sem okkur sjálfum mun þrátt fyrir allt helzt renna blóðið til skyldunnar við landið og landsmenn.
    Ég er vantrúaður á, að Íslendingar hafi í reynd vald á því að ráða við erlend risafyrirtæki, sem umhverfisröskun og mengunarhætta fylgir, jafnvel hversu vel sem frá öllu sýnist gengið í byrjun.
    Ég tel að smærri reksturseiningar og meðalstórar henti okkur betur en tröllvaxin stóriðja. Kemur þar til umhverfissjónarmið og ekki síður sú brýna nauðsyn, sem okkur er á því að forðast stórfellda félagslega og atvinnulega röskun.
    Þetta er held ég að skýrast fyrir okkur þessi misserin, það vona ég a.m.k.
    Náttúruverndarþingið 1975 gerði svofellda ályktun um iðnrekstur, sem nauðsynlegt er að rifja hér upp:
    „Náttúruverndarþing 1975 telur rétt að fram fari athugun á því, hvaða svæðum sé sérstök ástæða til að hlífa við raski og ágangi, sem meiriháttar iðnrekstri fylgir, og hvaða staðir á landinu henti til meiriháttar iðnrekstrar.
    Þingið leggur áherzlu á, að teknir séu upp þeir starfshættir, að áður en teknar eru ákvarðanir um stofnun iðjuvers eða iðnreksturs á ákveðnum stað fari fram allar þær rannsóknir sem rétt er að gera kröfur til, og verði haft samráð við þá aðila og stofnanir sem hlut eiga að máli. Er brýnt að slíkum undirbúningi sé lokið, áður en yfirvöld taka ákvörðun um að heimila rekstur á tilteknum stað eða leggja slík mál fyrir Alþingi.
    Þá telur þingið rétt að fylgt sé þeirri reglu að á Íslandi sé einungis leyfður iðnrekstur sem hefur fullnægjandi tök á mengunarvörnum vegna umhverfisins og heilbrigði þeirra er við hann vinna.
    Felur þingið Náttúruverndarráði að beita sér fyrir aðgerðum í þessa átt í samvinnu við stjórn iðnaðar- og heilbrigðismála.“
    Náttúruverndarráð og iðnaðarráðuneyti, sem einnig hefur orkumál, hafa nú í nokkur ár haft samstarfsnefnd um orkumál, sem að mínu viti hefur reynzt þýðingarmikið spor í rétta átt, ekki sízt til að tryggja það, að samráð séu höfð nógu snemma um þær hugmyndir að framkvæmdum, sem koma fram.
    Náttúruverndarráð fól fulltrúum sínum í nefndinni að vinna að því að hún tæki einnig fyrir þau verkefni, sem ályktun þessi leggur áherslu á varðandi iðnaðaruppbyggingu og umhverfissjónarmið. Erum við í Náttúruverndarráði að vonast eftir því að upp úr þessu spretti vaxandi samstarf þessara aðila um iðnaðar- og orkumál, sem svo mjög fléttast saman, og náttúruvernd.

Orkustefna.
    Við áætlanir og ákvarðanir um uppbyggingu iðnaðarins koma orkumálin inn í myndina og þá fyrst og fremst að mínu áliti frá því sjónarmiði, hvort við höfum orkulindir til þess að koma á hagkvæman hátt upp þeim iðnaði, sem við teljum okkur henta og við höfum að öðru leyti skilyrði til að lifa af.
    Að sjálfsögðu leiðir þetta til þess, að virkjunarstefna hlýtur að eiga að mótast af því hve mikilli orku landsmenn telja sig þurfa á að halda, þ.á.m. til þess iðnaðar, sem menn vilja koma í framkvæmd. Orkustefnan hlýtur því, ef rétt er að farið, að mótast verulega af iðnaðarstefnunni en ekki öfugt. Orkan er þjónninn en ekki húsbóndinn – en á því hefur viljað bóla hjá okkur, virðist mér, að þetta snerist við í framkvæmdinni. Þessi eða hin iðngreinin yrði að koma til orkunnar vegna – t.d. orkufrekur iðnaður, sem landsmenn réðu þó ekki við og yrðu að láta útlendinga reka. Hann yrði samt að koma til, því að nýta þurfi orkuna. Ég álít það algerlega á misskilningi byggt, að Íslendingar þurfi að taka á sig hættuleg vandkvæði svo sem eins og þau að láta útlendinga taka við atvinnuuppbyggingunni eða setja upp mengunariðnað – vegna þess, að þjóðin eigi orkulindir, sem ekki eru nýttar ennþá.
    Heilbrigt sjónarmið hlýtur að vera það að virkja þessar orkulindir jafnóðum og landsmenn þurfa á að halda m.a. til þess að koma á fót þeim iðnaði, sem talið er hentugast að hafa með höndum og lifa á.
    Auðvitað getur orðið ágreiningur um það hvaða iðnrekstur henti bezt. Þann ágreining verður að gera upp jafnóðum og koma þá mörg sjónarmið til greina að sjálfsögðu, m.a. tillit til mengunarhættu, náttúruverndar, sem hér er einkum til umræðu og svo orkumöguleikar. Þegar menn hafa gert það upp við sig hvað þeir vilja í iðnaðarmálum, þá er að ráðast í virkjanir í samræmi við það.
    Að sjálfsögðu koma orkumálin inn í myndina þegar menn reyna að gera sér grein fyrir því hvað af þeim iðnaði, sem talinn er æskilegur, geti komizt á fót og gefið góðar tekjur.
    Nú erum við svo lánsamir, Íslendingar, að við eigum allmikla orku ónýtta, bæði vatnsorku og hitaorku. Allt er þó á reiki um það, hve mikil nýtanleg orkan er.
    Menn mun lengi greina á um það t.d. hversu mikil landsspjöll megi verða vegna virkjana, og þá meta í hvaða skyni á að nota orkuna. A.m.k. sýnist mér, að þar muni vega þungt hvort þar er um brýna nauðsyn landsmanna að ræða eða t.d. erlenda stóriðju.
    Margt sýnist enn óljóst um framkvæmanlega nýtingu jarðhitaorkunnar á háhitasvæðunum en við vonum að hún reynist mjög mikil og vel hagnýtanleg. Menn hafa verið að nefna tölur um nýtanlega vatnsorku. Það eru nokkur ár síðan tölur voru fyrst nefndar í því sambandi og þær hafa gjarnan verið notaðar síðan til marks um það hve þjóðin ætti mikla vatnsorku ónotaða. Nú munu líklega allir sammála um, að þessar tölur eru alltof háar miðað við skynsamleg og hófleg umhverfissjónarmið.
    Þessar fyrstu tölur voru byggðar á það mikilli röskun vatnsfalla og landfórnum, að allir munu sammála um að endurskoða verður þær og lækka verulega. Ég hefi séð og heyrt áhugamenn um orkunýtingu gizka á, að lækka þyrfti þær um þriðjung, en ógerningur er að sjálfsögðu enn að gera sér grein fyrir útkomunni, þegar umhverfissjónarmið hafa verið tekin til greina. Það blasir því augsýnilega við, að miðað við ný viðhorf í umhverfismálum og gífurlega ört vaxandi orkuþörf landsmanna til annars iðnaðar en stóriðju og til alls konar nota – þá verður að endurmeta allar þær hugmyndir, sem menn kasta gjarnan á milli sín um það, að orkulindir okkar séu ótæmandi – og litla fyrirhyggju þurfi að hafa um það hvernig af þeim er ausið.
    Ekki finnst okkur, sem komin erum á efri ár og höfum lifað byltinguna miklu í atvinnu- og lifnaðarháttum, ótilhlýðilegt að við athugun þessara mála væri hugsað eitthvað fram á næstu öld í orkuspánum, og þá er ekki síður brýnt að reyna að gera sér grein fyrir því, hversu nærri menn vilja ganga landinu, til þess að framleiða orkuna og þá í hvaða skyni. Kemur þá einnig til, hvaða kosti menn telja sæmilegt að ætla barnabörnunum og þeirra börnum t.d. að hafa til þess að velja um. Væri það ekki kaldranalegt að láta þau standa frammi fyrir því að þurfa að komast í orkusvelti eða taka vatnið úr Gullfossi og setja Þjórsárver undir vatn svo aðeins þetta tvennt sé nefnt – af því að afi og amma eða pabbi og mamma flýttu sér svo mjög við að nýta og binda orkuna í stóriðju útlendinga t.d. – í stað þess að notfæra sér aðra kosti í atvinnulegu tilliti, sem þau áttu þó sannarlega völ á.
    Þegar til kemur sjást vandkvæði á ýmsu, sem menn hafa gert ráð fyrir. Í upphafi greinargerðar Orkustofnunar um Blönduvirkjun, sem lögð var fram á fundi á Blönduósi 25. apríl 1975, segir svo: „Ýmsir valkostir hafa verið athugaðir, en í fyrstu beindust áætlanir að því að virkja árnar saman (þ.e. Vatnsdalsá og Blöndu) niður í Vatnsdal. Með tilliti til umhverfisverndar hefur nú verið horfið frá þeim áformum.“ Þetta er mjög athyglisvert og gefur ástæðu til að staldrað sé við og íhugað hvað í þessum fáu orðum felst.
    Skynsamlegt er sem sé að gera ráð fyrir því sem betur fer, að menn hiki við fleira en að steypa Blöndu ofan í Vatnsdalinn – af því, sem mönnum hefur dottið í huga að til mála kæmi í virkjunarframkvæmdum og tekið inn í hugleiðingar og dæmi. Er það t.d. raunsætt, að gera ráð fyrir að fylla vatni ýmsar mestu lægðir á hálendinu á stórum landssvæðum, en þar er gróðurinn og dýralífið mest, eða flytja stórfljót milli byggðarlaga o.s.frv.? Ég held ekki. Áreiðanlega hafa menn ekki enn getað áttað sig á hvað af þess háttar gæti leitt í landsspjöllum t.d. ágangi vatns, veðurfarsbreytingum o.fl. Hér er því brýnt að fara með gát. Og í hvaða skyni ætti að færa slíkar fórnir, umturna landinu með þvílíku móti? Til þess að koma upp orkufrekum iðnaði útlendinga? Ekki geri ég ráð fyrir að landsmenn vilji það í raun og veru.
    En þá er líka vissara að kryfja þessi mál til mergjar í tæka tíð og taka þá með í reikninginn, að okkur ber skylda til að koma barnabörnum okkar eða þeirra börnum ekki í þá klípu, að þau telji sig tilneydd að vinna stórskemmdir á landinu, til þess að afla sér orku í lífsnauðsyn.

Úttekt á vatna- og jarðhitasvæðum.
    Rétt er að rifja enn upp að verið er að reyna að velta þessum málum fyrir sér – og efna til nauðsynlegrar samvinnu Náttúruverndarráðs og orku- og iðnaðarmálastjórnar um þessi efni. Er það gert í framhaldi af ályktunum Náttúruverndarþings um brýna nauðsyn á úttekt á þessum málum þar sem öll þessi sjónarmið komi til.
    Hefi ég getið um ályktunina um iðnaðarmál og þykir mér hlýða að rifja hér einnig upp svofellda ályktun sama Náttúruverndarþings um úttekt á vatna- og jarðhitasvæðum landsins:
    „Náttúruverndarþing 1975 telur nauðsynlegt að gerð sé úttekt á vatna- og jarðhitasvæðum landsins. Verði einnig gerð heildaráætlun um friðun þeirra fossa, hvera, vatna- og jarðhitasvæða, sem réttmætt þykir að vernda. Telur þingið að til álita komi að greina verndarsvæði í tvo flokka:
     1.      Svæði, sem rétt sé að friða varanlega og
     2.      svæði, sem sæta skuli tímabundinni friðun þar til endanleg ákvörðun hafi verið um það tekin, hvernig með þau skuli fara.
    Þingið felur Náttúruverndarráði að hafa forgöngu um þessi mál, og leita um það samvinnu við þá aðila er hlut eiga að máli.“
    Á vegum Náttúruverndarráðs er verið, samkvæmt þessari ályktun, að vinna nokkra undirbúningsvinnu að úttekt á vatna- og jarðhitasvæðum og ætlunin er að hún verði fyrsta skrefið í þessu þýðingarmikla máli. Hefur Náttúruverndarráð einnig unnið að því að við málið verði fengizt í samstarfsnefndinni um orkumál, sem ég hefi sagt hér frá og það á hlut að ásamt iðnaðarráðuneytinu, sem hefur orkumálin.
    Allt er þetta mikið verkefni. Að móta iðnaðar- og orkumálastefnu þjóðarinnar með tilliti til umhverfisverndar – með tilliti til þess að fara vel með landið og fórna ekki sumu því, sem verðmætast er og gefur lífinu mikið gildi, fyrir það sem menn að lítt athuguðu máli álíta mikilsvert en skiptir miklu minna máli fyrir heilbrigt, farsælt og skemmtilegt líf þegar nánar er að gætt.
    Flönum umfram allt ekki að neinu, og sjálfsagt ættum við að gera ráðstafanir til þess að þessi vandasömu og margþættu málefni verði tekin fastari tökum í samhengi en ennþá hefur heppnazt.
    Skiptir þá miklu að hleypidómalaus umræða fari fram um þau sem víðast, svo að almenningsálit nái að myndast, byggt á þeim. Ennfremur að áhugamenn um iðnvæðingu, orkumál og umhverfisvernd hafi sem mest samband sín í milli og beri saman bækur sínar, og loks að þeir, sem til þess eru settir að hafa með höndum stjórn og forustu í þessum málum, treysti samstarf sitt.
    Viðfangsefnið er að móta og framkvæma kröftuga framfarastefnu í iðnaðarmálum, sem reist er á þeirri sannfæringu, að við höfum ráð á því að búa í ómenguðu umhverfi og að eiga áfram óspjölluð dýrmæt náttúruverðmæti.


Fskj. 2.

Hjörleifur Guttormsson:

Þjórsárver og veitulón norðan Arnarfells.
(Morgunblaðið, 15. febrúar, 2003.)


    Ellefu aðilar kærðu síðastliðið haust fráleitan úrskurð Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu og því kom til kasta umhverfisráðherra að fjalla um málið. Á undanförnum mánuðum hefur fjöldi fólks tekið undir kröfuna um verndun Þjórsárvera. Menn fagna því eðlilega nú að þessi barátta hefur skilað verulegum árangri. Samkvæmt nýlegum úrskurði setts umhverfisráðherra má ekki skerða friðlýsta svæðið í Þjórsárverum og um leið er tekið tillit til alþjóðlegra skuldbindinga. En sitthvað er samt við þennan úrskurð að athuga, bæði að formi og efni, og varðar það einkum nýtt veitulón norðan Arnarfells.
    Í matsskýrslu Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu voru engar tillögur gerðar um lón norðan Arnarfells, þótt í skýrslunni hafi verið bent á að lón þar gæti verið hugsanleg mótvægisaðgerð. Tillaga um setlón sem hluta af framkvæmdinni mótaðist fyrst í meðförum Skipulagsstofnunar og þá án þess að almenningi gæfist kostur á andmælum. Nú gengur þessi niðurstaða úr úrskurði Skipulagsstofnunar aftur í ráðherraúrskurðinum, en þar sem stærri framkvæmd og sjálfstæð veita til Þjórsárlóns og Þórisvatns, ígildi Kvíslaveitu 6. Ekki einu sinni Landsvirkjunarmenn létu sér til hugar koma að leggja til slíka veituframkvæmd sem „mótvægisaðgerð“, þar eð hún hlyti að kalla á sérstakt mat á umhverfisáhrifum. Þetta hefur forstjóri Landsvirkjunar ítrekað sagt eftir að úrskurður ráðherrans lá fyrir 30. janúar sl.

Ólögmæt hagkvæmnirök.
    Þegar lesinn er úrskurður ráðherrans og sú útfærsla sem hann byggir á og vísað er til í úrskurðinum, þ.e. forathugun Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens (VST), blasa við afar óljós og mótsagnakennd rök fyrir „setlóni“ norðan Arnarfells með veitu til Þjórsárlóns. Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra um Kárahnjúkavirkjun var hagkvæmnirökum hafnað sem hluta af mati á umhverfisáhrifum og er sérstaklega vikið að því í nýföllnum úrskurði. Þrátt fyrir það kemur í ljós við lestur skýrslu VST að hagkvæmnirök fyrir setlóninu eru þar í fyrirrúmi. Í skýrslunni segir að með veitulóninu sé verið að „bæta hagkvæmni tillögunnar“ sem ella væri ónóg (bls. 9).
    Í „Niðurstöðu athugana“ VST segir orðrétt (bls. 14): „Ef tryggja á hagkvæmni þarf ennfremur samhliða Norðlingaölduveitu með lóni í 566 m y. s. að byggja stækkað setlón og veita hluta vatns úr því til Þjórsárlóns og þaðan til Kvíslaveitu og veita hinum hluta þess á yfirfalli á stíflu setlóns til þess að halda lágmarksvatni í kvíslunum sem renna þaðan. Setlónið er jafnframt nauðsynlegt vegna þeirrar óvissu sem eðlilega ríkir um árangur aurskolunar úr Norðlingaöldulóni í 566 m y. s., þar sem um 35% aursins verður eftir í setlóni. Ennfremur er hagstætt [sic!] að minnka ágang jökulkvíslanna á verin neðan setlónsins. Þessi tilhögun gefur áætlaðan orkukostnað sem er 0–8% hærri en orkukostnaður í 575 m y. s. eingöngu.“
    Af lestri um aurburð í sömu skýrslu (kafla bls. 7–8) verður ekki séð að „óvissa sem eðlilega ríkir um árangur“ aurskolunar sé mikil, enda sérstaklega bent á það af VST „að lón af þessari stærð og lögun [Norðlingaöldulón við 566 m hæð] hentar vel til aurskolunar ... Aurskolun úr lóninu er því talin tæknilega möguleg án þess að hafa nein teljandi áhrif á orkugetu veitunnar.“ (bls. 7). Þetta segir VST og gerir í þessu samhengi engan fyrirvara um gerð „setlóns“ nyrst í verunum. Síðasta röksemdin fyrir slíku lóni, „að minnka ágang jökulkvíslanna á verin neðan setlónsins“, styðst ekki við gild náttúruverndarsjónarmið og er því engan veginn frambærileg sem „mótvægisaðgerð“ við Norðlingaölduveitu.

Hættulegt fordæmi.
    Með úrskurðum umhverfisráðherra almennt í kærumálum vegna mats á umhverfisáhrifum er ekki aðeins verið að setja forskrift um viðkomandi framkvæmd heldur einnig verið að túlka lög og gefa fordæmi sem getur orðið bindandi viðmiðun í úrskurðum framvegis. Réttmæti slíkra túlkana fer eftir efni máls. Í úrskurði setts umhverfisráðherra er veitulón norðan Arnarfells heimilað undir því yfirskini að um sé að ræða „mótvægisaðgerð“ í skilningi laga nr. 106/2000 en ekki sérstaka framkvæmd sem lúta þurfi sjálfstæðu mati. Standi úrskurður ráðherrans óhaggaður að þessu leyti getum við átt von á ótrúlegustu æfingum á þessum grunni í framtíðinni, byggðum á lagatúlkun í nýföllnum úrskurði.
    Að mínu mati er sá hluti úrskurðarins sem kveður á um veitulónið norðan Arnarfells óréttmætur sem „mótvægisaðgerð“ og í andstöðu við þá lagatúlkun umhverfisráðuneytisins frá 20. desember 2001 að hagkvæmni sé ekki hluti af mati á umhverfisáhrifum. Í öðru lagi er þetta veitulón bæði þarflaust í orkupólitísku samhengi og skaðlegt fyrir umhverfi og verndun Þjórsárvera. Því ætti að hverfa frá öllum hugmyndum um lón þetta fyrr en seinna. Að öðru leyti sýnist mér vel unnt að búa við þennan úrskurð, sem þjóðin getur þakkað þeim mörgu sem staðið hafa vaktina um Þjórsárver fyrr og síðar og ráðherra sem leyfði sér altént þann munað að hlusta og horfa í kringum sig.


Fskj. 3.

Guðmundur Páll Ólafsson:

Þyrmum Þjórsárverum!
(Morgunblaðið, 15. febrúar 2003.)

    Úrskurður Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, um framtíð Þjórsárvera er lýðum ljós og lúðrablástur hafinn. Forsætisráðherra telur alla „sanngjarna menn“ fagna og Morgunblaðið álítur hann „grundvöll sátta“. Framsóknarmaður segir úrskurðinn „óskaplega framsóknarlegan“ og það mun sannast orða.
    Hvað gerðist? Jón Kristjánsson vék óvænt af leið í aðför stjórnvalda gegn náttúru Íslands. Hann tók tillit til friðlandsmarka og alþjóðlegra skuldbindinga! Þar með varð hann að minnka stórt uppistöðulón sem Náttúruvernd ríkisins hafði hafnað. Fyrri útgáfa, „stóra skrímslið“, hefði ótvírætt leitt til hraðfara eyðileggingar veranna. Hann mjakaði Landsvirkjun sem sagt út úr friðlandinu – ekki Þjórsárverum.

En sáttamiðlarinn gerði dulítið meira.
    Hann heimilaði svokallaðan 6. áfanga Kvíslaveitu nyrst í Þjórsárverum og klókur sem hann er kallar hann áfangann „setlón með veitu“. Samkvæmt friðlandsákvæðum Þjórsárvera frá 1987 er Landsvirkjun aðeins „heimilt að veita til Þórisvatns úr upptakakvíslum Þjórsár á Sprengisandi og austurþverám hennar...“ Það er Kvíslaveita 1–5.
    Eins og mörgum hefur vitnast eru loforð Landsvirkjunar lítils virði og þegar upp komst af tilviljun um áform hennar árið 1999 að ræna vatninu úr verunum ofan friðlandsins (6. áfangi) og að byggja stíflu neðst í þeim þótti einsýnt að Landsvirkjun var komin í sinn gamla gír. Þessu var líkt við það að bæði skjóta og hengja bráðina því hverju barni er ljóst að Þjórsá og kvíslar hennar eru lífæðar veranna.
    Gnúpverjar voru mjög andsnúnir þessum vatnaflutningum og Þjórsárveranefnd komst að samkomulagi við Landsvirkjun árið 2001 um að falla frá 6. áfanga. Þetta var sögulegt samkomulag því Landsvirkjun hættir yfirleitt aldrei við nein áform sama hversu firrt þau eru. Því vakti furðu þegar Skipulagsstofnun bauð setlón sem „mótvægisaðgerð“. Landsvirkjun hafði laumað inn gögnum án vitundar Þjórsárveranefndar, Náttúruverndar ríkisins og Gnúpverja. Skipulagsstofnun var á hálum ís.
    Settur umhverfisráðherra bætir um betur. Hann leikur refskákina til enda, hækkar stíflu setlónsins um 1,5 metra og býr til 6. áfanga Kvíslaveitu sem Landsvirkjun þóttist falla frá. Hann rauf griðin vegna hagsmuna Landsvirkjunar.
    Margvísleg áhrif 6. áfanga hafa aldrei verið könnuð til hlítar. Að auki er sneitt hjá lögformlegu ferli og megintilgangi umhverfismats. Og áfram heldur hráskinnsleikur með orð vegna þess að hvorki er hægt að kalla hlutina réttum nöfnum né er framkvæmdin sú sem fór í umhverfismat.
    Núna er um helmingi Þjórsár ofan Sóleyjarhöfða veitt frá verunum og með þessum Jóns-áfanga er beinlínis stofnað til gróðureyðingar í Þjórsárverum. Farvegur Þjórsár myndi nánast þorna á 8–10 kílómetra kafla og yrði uppspretta foksands og fokaurs yfir gróðurlendur Þjórsárvera. Þarna er farvegurinn um einn kílómetri á breidd.
    Landsvirkjun er gert að hunskast út fyrir friðlandsmörkin en þar má nú raða mannvirkjum utan um friðlandið á þrjá vegu. Með því yrði víðerni Þjórsárvera spillt og ofur einfalt er að hækka stíflu við Norðlingaöldu síðar.
    Víst má klappa ráðherra lof í lófa fyrir að virða friðlandið, Ramsar-, Bernar- og alþjóðlega fuglaverndarsamninga. En er það ekki skylda umhverfisráðherra, yfir-verndarans, að virða alþjóðasamþykktir og lög um friðlönd og náttúruvernd – þótt annar sé Sivjar-siður?
    Þjórsárver eru vistkerfi – ótvírætt fjölbreyttasta búsvæði, lífríki og landslagsheild íslenska hálendisins. Verndun þeirra ætti fyrir löngu að vera hafin yfir virkjanabrask og pólitískt þvaður. Landslagsheildir eru oft kallaðar „eyjar“ í vistfræðilegum skilningi. Þær eiga ávallt í vök að verjast þegar vistkerfi er truflað. Hér er heimilað gróft inngrip í vistkerfi Þjórsárvera með dulbúnum 6. áfanga framhjá lögbundnum leiðum.
    Niðurstaða Jóns Kristjánssonar er „óskaplega framsóknarleg“ aðferð – að ætla bæði að vernda og virkja. Hvernig vatnsbúskapur á ekki að raskast með því að raska honum er þungavigtarspeki. Málið snýst um framtíð vistkerfis en alls ekki um að gera öllum til geðs. Leikflétta stjórnvalda fólst í því að hleypa Landvirkjun inn í vestanverð Þjórsárver. Það var gert – annað stóð ekki til – þrátt fyrir að ráðgjafinn, Conor Skean, teldi allar forsendur vera fyrir því að hafna Norðlingaölduveitu algerlega (Mbl. 31. jan. bls.12). Hann benti á að örlítil óvissa um náttúruferli gæti þýtt mikla heildaróvissu.
    Meðferð Þjórsárvera endurspeglar sjálfsvirðingu og skyldur okkar að vernda sameiginlega arfleifð mannkyns. Hvorki Þjósárverum né friðlandinu er borgið. Til þess þurfti kjark og virðingu fyrir einstæðri náttúru. Með því að hleypa Landsvirkjun inn í hin helgu vé og heimila Jóns-áfanga Kvíslaveitu heldur hernaðurinn áfram.
    Í Kárahnjúkavirkjun ganga sömu ráðamenn ótrauðir fram og kjósa að eyðileggja friðlýst svæði og hunsa alþjóðlega samninga – vísvitandi um skelfilegar afleiðingar á dýrmætu landi – þjóðgarðsígildi – og stórskaða á Héraði. Í Þjórsárverum er Landsvirkjun boðið til veislu með 6. áfanga Kvíslaveitu í ábót.
    Ætlar þessari eyðileggingarmartröð aldrei að linna?