Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 671. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1281  —  671. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.    Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Kjartan Gunnarsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Garðar Ingvarsson frá markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar, Jón Sveinsson hrl., Valgarð Stefánsson frá Orkustofnun, Friðrik Sophusson, Bjarna Bjarnason, Björn Stefánsson og Stefán Pétursson frá Landsvirkjun, Ásgeir Margeirsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Má Haraldsson, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Lúðvík Elíasson og Þórarin G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Ársæl Valfells frá Landsbanka Íslands, Ingunni S. Þorsteinsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun, Helga Jensson frá Umhverfisstofnun, Gísla Gíslason frá Akraneskaupstað, Pál S. Brynjarsson frá Borgarbyggð, Hallfreð Vilhjálmsson frá Hvalfjarðarstrandarhreppi, Helga Ómar Þorsteinsson frá Skilmannahreppi og Tómas Sigurðsson frá Norðuráli.
    Markmið frumvarpsins er að ríkisstjórninni og iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að gera samninga við Norðurál hf. um stækkun álvers félagsins í allt að 300 þúsund tonn.
    Hinn skattalegi þáttur frumvarpsins er að flestu leyti sambærilegur við samninginn við Alcoa en er að öðru leyti byggður á samkomulagi fyrirtækisins við sveitarfélög og ríkisvald.
    Um efnahagsleg áhrif framkvæmdanna voru efnahagssérfræðingar þeir sem á fund nefndarinnar komu sammála um að með skynsamlegri stýringu og aðhaldi í ríkisfjármálum mætti halda vöxtum og verðbólgu innan þolmarka enda um óverulega skörun að ræða við virkjanaframkvæmdir á Austurlandi. Ætlað er að fyrri hluta stækkunar Norðuráls verði lokið árið 2005 um það leyti sem framkvæmdir á Austurlandi ná hámarki. Ljóst er að ríki og sveitarfélög munu hafa verulegar tekjur af umsvifum á framkvæmdatímanum en eftir að verksmiðjan er komin í fullan rekstur er búist við að landsframleiðsla aukist varanlega um hálft prósent vegna stækkunarinnar. Fjölgun varanlegra starfa eftir stækkun Norðuráls gæti orðið allt að 200 störf. Reiknað er með að meiri hluti nýrra starfsmanna komi af Vesturlandi eins og verið hefur hingað til.
    Í máli fulltrúa sveitarfélaganna sem Norðurál starfar í kom fram almenn ánægja með samstarfið við Norðurál. Almennur og sterkur stuðningur er við starfsemi Norðuráls og stækkunina meðal sveitarfélaga á Vesturlandi öllu. Sveitarstjórnarfulltrúar töldu samskipti við Norðurál til fyrirmyndar í alla staði. Enn fremur bentu þeir á að meðaltekjur starfsmanna Norðuráls væru þær hæstu sem greiddar væru á Vesturlandi. Umhverfisvöktun hefur verið afar virk og opin frá því að Norðurál tók til starfa. Er hún í fullu samráði við sveitarfélögin og hagsmunasamtök og hefur skilað tilætluðum árangri. Undir þetta sjónarmið tók fulltrúi Umhverfisstofnunar. Sveitarfélögin virðast vel í stakk búin til að taka við stækkun Norðuráls og þeim auknu umsvifum sem henni fylgir. Starfsleyfi er bundið ströngustu skilyrðum.
    Það er skoðun meiri hlutans að reynslan af starfsemi Norðuráls sé einkar jákvæð hvort heldur er litið til efnahagslífs þjóðarinnar, jákvæðra byggðaáhrifa, fjölgunar vel launaðra starfa eða almennrar uppbyggingar á Vesturlandi.
    Að framansögðu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 10. mars 2003.Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Pétur H. Blöndal.Árni R. Árnason.


Kjartan Ólafsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.