Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 671. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1282  —  671. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Sú reynsla sem fengist hefur af starfrækslu álvers á Grundartanga, Norðuráls, er góð ef marka má umsagnir þeirra sem iðnaðarnefnd leitaði til. Það hefur jafnframt vakið athygli að þau mótmæli sem voru vegna byggingar verksmiðjunnar virðast nú þögnuð. Þá liggur bæði fyrir starfsleyfi og umhverfismat vegna stækkunarinnar.
    Þær miklu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Austurlandi við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers við Reyðarfjörð, Fjarðaáls, hafa leitt til mikillar umfjöllunar um þróun efnahagslífsins á næstu árum. Á það hefur verið bent að til skamms tíma geti það verkefni haft neikvæð áhrif á efnahagslífið sem birtist í hærra raungengi og síðar hærri vöxtum en ella. Gríðarlegt gjaldeyrisinnstreymi mun verða á framkvæmdatímanum sem mun að óbreyttu auka spennu á vinnumarkaði og stuðla að hærra gengi krónunnar. Hin aukna spenna mun einnig setja þrýsting á verðbólgu. Þessi áhrif framkalla svokölluð ruðningsáhrif, þ.e. starfsemi sem ræður ekki við ýkt skammtímaáhrif framkvæmdanna, eða er ekki eins framleiðin og stóriðjan, lætur undan síga af völdum hás gengis og/eða hárra vaxta. Þá má ætla að sú atvinnustarfsemi sem ekki getur keppt við stóriðjuna í launum láti einnig undan síga. Stefnt er að því að þær framkvæmdir sem hér um ræðir verði á undan framkvæmdunum fyrir austan þannig að aðalframkvæmdatími þeirra verði liðinn þegar framkvæmdir eystra verða í hámarki. Sú framkvæmd sem hér um ræðir mun því, ásamt þeim framkvæmdum sem fylgja orkuöflun vegna hennar, verða til þess að stjórnvöld þurfa að hafa styrka stjórn á ríkisfjármálum fyrr en reiknað var með og jafnvel spurning hvort þær flýtiframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru, sbr. frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2003 vegna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum, 653. mál, sem gera ráð fyrir viðbótarfjárfestingum fyrir á sjöunda milljarð kr. á næstu 18 mánuðum, muni ekki þarfnast endurskoðunar í ljósi þess hraða sem verður á álversframkvæmdum á Grundartanga og virkjanaframkvæmdum þeim tengdum. Það er alveg ljóst að ef af öllum þeim framkvæmdum verður sem fyrirhugaðar eru mun reyna mjög á hagstjórnina. Fullrúar Samfylkingarinnar leggja höfuðáherslu á að sem best samvinna takist við stjórn peninga- og ríkisfjármála svo og samvinna við aðila vinnumarkaðarins til að sem mestur ávinningur verði af framkvæmdunum fyrir þjóðarbúið allt.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar telja óeðlilegt og óæskilegt að þegar stóriðjufyrirtæki hafa verið sett niður á Íslandi skuli samið við hvert þeirra fyrir sig um afslætti frá þeim reglum, þ.m.t. skattareglum, sem íslenskum fyrirtækjum er ætlað að búa við. Markmiðið hlýtur að vera að öllum fyrirtækjum í landinu sé boðið upp á ásættanlegt skattaumhverfi þannig að ekki þurfi að semja sérstaklega um frávik þegar laða á atvinnustarfsemi inn í landið. Samfylkingin telur að frávikin sem gerð hafa verið fyrir sum fyrirtæki sem hefja starfsemi hér á landi sýni hvers fyrirtækin þurfi við og ætti þá að verða til þess að stjórnvöld litu til slíkra breytinga fyrir öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Þar vill Samfylkingin sérstaklega benda á lækkun og afnám stimpilgjalda og bendir á frumvarp Margrétar Frímannsdóttur, varaformanns Samfylkingarinnar, þar að lútandi en það hefur hún ítrekað flutt ásamt þingmönnum úr þingflokki Samfylkingarinnar.
    Þá bendir Samfylkingin á mikilvægi þess að ef talið er að styrkja þurfi fyrirtæki eða beita sérstökum aðgerðum til að ná erlendri fjárfestingu inn í landið eigi að gilda um það almennar, gegnsæjar reglur sem byggist á jafnræði þar sem hið sama gildi fyrir alla sem eins er ástatt um. Í því sambandi benda fulltrúar Samfylkingarinnar á margflutta tillögu sína um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs þar sem hvatt er til þess að skoðaðir verði möguleikar þess að stofna sjóð sem veitt geti stofnstyrki á faglegum forsendum ef talin er nauðsyn á stuðningi við fyrirtæki til að hafa áhrif á þróun atvinnulífsins eða til að ná tiltekinni starfsemi inn í landið.
    Þá leggja fulltrúar Samfylkingarinnar áherslu á alvöru þess að íslensk stjórnvöld skuli gera samninga og síðan lögfesta ákvæði, sbr. e-lið 3. gr. frumvarpsins, sem sníða því stakk með hvaða hætti unnt verður að beita hagrænum stjórntækjum varðandi útblástur og mengun. Reglur eiga að vera þannig að fyrirtæki njóti jafnræðis og sé ekki mismunað þannig að samkeppnisforsendur þeirra raskist. Hitt er fullkomlega óeðlilegt að í samingum við einstök fyrirtæki séu því settar skorður með hvaða hætti stjórnvöld geti tekist á við útblástur mengandi lofttegunda í framtíðinni. Fulltrúar Samfylkingarinnar mótmæla þessum vinnubrögðum stjórnvalda harðlega
    Afstaða þingmanna Samfylkingarinnar gagnvart einstökum greinum frumvarpsins mun koma fram við atkvæðagreiðslu um málið en þingflokkurinn styður málið í heild.

Alþingi, 11. mars 2003.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.