Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 544. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1295  —  544. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Orkustofnun.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Kristínu Haraldsdóttur frá iðnaðarráðuneyti, Þorkel Helgason frá Orkustofnun, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja hf., Eirík Bogason frá Samorku, Friðrik Sophusson, Þórð Guðmundsson og Bjarna Bjarnason frá Landsvirkjun, Franz Árnason frá Norðurorku, Guðmund Þóroddsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Kristján Haraldsson frá Orkubúi Vestfjarða, Kristján Jónsson og Eirík Briem frá Rafmagnsveitum ríkisins, Ólaf Eggertsson frá Landssambandi raforkubænda og Þórð Skúlason og Jón Jónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Umsagnir bárust frá Selfossveitum, Rafmagnsveitum ríkisins, Hitaveitu Suðurnesja, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknarráði Íslands, Byggðastofnun, Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, Orkustofnun, Norðurorku, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Orkubúi Vestfjarða hf., Landsvirkjun, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Alþýðusambandi Íslands, Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eyþingi.
    Frumvarpið er byggt á niðurstöðum nefndar sem skipuð var af iðnaðarráðherra og átti að yfirfara skipulag Orkustofnunar með hliðsjón af því aukna stjórnsýsluhlutverki sem stofnuninni hefur verið falið með lögum um rannsókn og nýtingu auðlinda í jörðu, nr. 57/1998, og lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, svo og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt frumvarpi til raforkulaga og koma með tillögur um framtíðarskipulag hennar.
    Í frumvarpinu er lagt til að skipulagi Orkustofnunar verði breytt svo koma megi í veg fyrir hagsmunaárekstra sem gætu skapast vegna hins aukna stjórnsýsluhlutverks sem stofnuninni er fengið í fyrrnefndum lögum og er í því skyni lagt til að rannsóknarsviðið verði skilið frá stofnuninni, starfsemi vatnamælinga rekin sem sjálfstæð eining og stofnuninni fengið aukið eftirlitshlutverk að lögum. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir breytingum á hlutverki Orkuráðs sem verður orkumálastjóra til ráðgjafar í stefnumarkandi málum en ábyrgð á rekstri og stefnumótun verður hjá orkumálastjóra.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að með frumvarpinu væri verið að setja Orkustofnun almennan ramma en hlutverk stofnunarinnar ekki tíundað nákvæmlega. Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu sem snúa að Orkusjóði og eru til þess fallnar að skýra hlutverk hans betur og gera hann sjálfstæðari við hlið orkumálastjóra. Yfirumsjón með sjóðnum er samkvæmt frumvarpinu í höndum iðnaðarráðherra. Þá leggur nefndin til að Orkuráð geri tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði en ekki Orkustofnun að fengnum tillögum ráðsins, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGUM:

       1.      Við 6. gr. Í stað orðanna „og við gerð tillagna“ í 3. málsl. komi: og að gera tillögur.
          2.      Við 7. gr. er verði 8. gr.
               a.      5. mgr. orðist svo:
                     Heimilt er að semja við aðila, sem hafa leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um umsjón og trygga vörslu á fé sjóðsins.
               b.      6. mgr. orðist svo:
                     Orkuráð skal gera tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði samkvæmt fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.

Alþingi, 10. mars 2003.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Svanfríður Jónasdóttir.


Árni R. Árnason.



Árni Steinar Jóhannsson,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.