Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 648. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1302  —  648. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 28/1993, um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Gunnar Örn Gunnarsson frá Sementsverksmiðjunni, Gísla Gíslason, Guðmund Pál Jónsson og Guðrúnu Elsu Gunnarsdóttur frá Akraneskaupstað, Jón Jónsson og Elínbjörgu Magnúsdóttur frá Verkalýðsfélagi Akraness og Lilju Aðalsteinsdóttur, Kristján Guðmundsson og Jens H. Ragnarsson frá Sementsverksmiðju ríkisins.
    Í frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að selja allan eignarhlut ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni hf. Ríkið á allt hlutafé verksmiðjunnar en hlutafélag var stofnað um rekstur hennar árið 1993. Reksturinn hefur verið erfiður vegna minnkandi sementssölu og harðnandi samkeppni og þarf verksmiðjan á auknu rekstrarfé að halda til að geta nýtt þau tækifæri sem bjóðast á markaðinum.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að í ljósi þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru í stóriðju séu nokkur tækifæri fyrir sementsframleiðslu hér á landi. Þá kom einnig fram að hlutverk verksmiðjunnar í förgun spilliefna mundi aukast í nánustu framtíð og að í því fælust tækifæri. Nú þegar eyðir verksmiðjan og hagnýtir þar með nær allan olíuúrgang sem fellur til í landinu.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt fyrir Akraneskaupstað og nágrenni, sem og þjóðarbúið í heild, að áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar sé tryggður. Þá mælir meiri hlutinn með að ákvæði laga um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, nr. 62/1973, verði tekin til endurskoðunar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 10. mars 2003.

Hjálmar Árnason,

form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Svanfríður Jónasdóttir.


Árni R. Árnason.



Kjartan Ólafsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.