Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1305  —  670. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Frumvarpið er tengt frumvarpi til laga um álbræðslu á Grundartanga en í þessu frumvarpi er leitað heimilda vegna þeirrar orkuöflunar sem þarf til fyrirhugaðrar stækkunar Norðuráls. Þar er um það að ræða að:
     a.      Orkuveita Reykjavíkur fái leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 120 MW afli,
     b.      Hitaveita Suðurnesja fái leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Reykjanesi með allt að 80 MW afli, enda liggi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, og til að stækka jarðvarmavirkjun félagsins í Svartsengi um 16 MW.
Síðan fylgja umsagnir Orkustofnunar um þessar fyrirhuguðu framkvæmdir.
    Þá verður Landsvirkjun samkvæmt frumvarpinu heimilað, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra, að reisa og reka vatnsmiðlun, Norðlingaölduveitu, í samræmi við skilyrði er fram koma í úrskurði setts umhverfisráðherra, dags. 30. janúar. Með frumvarpinu fylgir loks sem fylgiskjal III yfirlit Landsvirkjunar yfir framkvæmdirnar við Norðlingaöldu.
    Í úrskurði setts umhverfisráðherra sem tiltekinn er í lagagreininni er skýrt kveðið á um það að um útfærsluna skuli vera samráð milli fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli, Umhverfisstofnunar og Landsvirkjunar. Markmið þess samráðs er að full sátt náist um útfærsluna og vísa margir til þeirrar útfærslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. sem almenn ánægja var með þegar kynnt var. Það kom því vægast sagt á óvart, og hefur ýft geð margra sem áður höfðu fagnað úrskurði setts umhverfisráðherra, að sjá yfirlit Landsvirkjunar sem sérstakt fylgiskjal með frumvarpinu. Fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka það að þeir líta svo á að þær leiðir sem þar eru einhliða birtar séu ekki bindandi á nokkurn hátt enda samráðsferli hafið sem á að skila niðurstöðu sem allir geta sæst á. Með þessu nefndaráliti fylgja ábendingar Más Haraldssonar, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, svo að ljóst megi vera hver sjónarmið þeirra eru og menn geti þá borið þær saman við fylgiskjal III.
    Þá hlýtur það að vera öllum hlutaðeigandi umhugsunarefni að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum geti umhverfisráðherra úrskurðað þannig í málum að niðurstaðan verði raunverulega ný framkvæmd sem ekki virðist þarfnast umhverfismats. Spurningin er hvort hér er verið að setja fordæmi fyrir framtíðina og hvers við megum þá vænta. Ekki er víst að það eigi alltaf við að almennari ánægja ríki með úrskurð ráðherra en Skipulagsstofnunar.
    Ástæða er til að vekja eftirtekt á því að eftir að ný raforkulög hafa tekið gildi, væntanlega 1. júlí í sumar, þarf ráðherra ekki að leita til Alþingis með ákvarðanir um einstakar virkjanir. Þá má velta því fyrir sér af hverju leitað er til Alþingis með einstakar veitur þar sem ákvæði í vatnalögum gera það óþarft.
    Það er bagalegt þegar framsetning þingmáls er með þeim hætti að ýfir upp deilur sem áður hafði tekist að setja niður. Þrátt fyrir það treysta fulltrúar Samfylkingarinnar því að samráð heimamanna, Umhverfisstofnunar og Landsvirkjunar leiði til niðurstöðu sem sátt getur orðið um.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar styðja frumvarpið, enda verði farið eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum og útfærsla Norðlingaölduveitu verði í samræmi við úrskurð setts umhverfisráðherra.

Alþingi, 12. mars 2003.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.





Fylgiskjal.


Már Haraldsson,
oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.


Greinargerð um Norðlingaölduveitu.
(8. mars 2003.)

Áhrif á fossa í Þjórsá:
    Mjög takmarkaðir möguleikar á að stýra rennsli vegna lítils miðlunarrýmis, hugsanlega hægt að auka rennsli 4 tíma á dag í 2–3 ár af hverjum 4.
    Svo takmörkuð lausn er ekki í samræmi við væntingar heimamanna né almennings og stangast á við 37. gr. náttúruverndarlaga.
    Það verður því að horfast í augu við þá staðreynd að með framkvæmdinni er verið að fórna þessum náttúrufyrirbærum.

Lón við Norðlingaöldu:
    Í úrskurði ráðherra er gert að skilyrði að lón og mannvirki séu utan friðlandsins og hafi ekki áhrif á náttúrufar innan þess.
    Í tillögu VST er miðað við lónhæð 566 mys.fyrst og fremst vegna þess að aurskolun virkar ekki við hærri lónhæð (minni landhalli í og við lón, mun stærri flötur, gróið land).
    Sú sátt sem er um úrskurðinn byggir alfarið á hugmyndinni um lónhæð 566 mys. bæði vegna umfangs lóns og auðleystari vandamála við setmyndun.
    Ef gerð er krafa um hærri lónhæð er sáttin úr sögunni enda þótt skilyrðum um lón og mannvirki utan friðlands sé fullnægt.

Veitulón við Þjórsárjökul:
    Besta leiðin til að tryggja rennsli neðan veitunnar og draga um leið úr sjónrænum áhrifum er að sleppa leiðigörðum og stíflu við Litlu-Arnarfellskvísl og láta hana renna óskipta í Norðlingaöldulón.