Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 422. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1306  —  422. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Minni hlutinn telur frumvarp þetta meingallað þótt gerðar hafi verið á því nokkrar breytingar frá eldra frumvarpi sem flutt var á síðasta þingi og eins þótt til standi samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans að reyna enn að lagfæra gallana. Eftir stendur þó að verið er að heimila með frumvarpi þessu að halda inn á þá háskalegu braut að hlutafélagavæða og að hluta til einkavæða rekstur vatnsveitna. Þessari stefnu er minni hlutinn andvígur og telur að vatnsveitur beri að skilgreina sem undirstöðuþjónustu, undirstöðu veitustarfsemi sem eðli málsins samkvæmt er nánast dæmd til að lúta náttúrulegri einokun. Halda beri rekstri vatnsveitna algjörlega aðgreindum frá kröfum um hagnað/arð til eigenda í viðskiptalegum skilningi. Arðurinn af rekstri vatnsveitna á eingöngu að vera fólginn í þeim grundvallarréttindum einstaklinga, mannlífs og atvinnulífs að eiga aðgang að ódýru og góðu vatni. Óvíða ef nokkurs staðar í heiminum eru aðstæður einmitt betri til þess en á Íslandi. Rekstur vatnsveitna á ekkert erindi inn í samkeppnisumhverfi venjulegs atvinnurekstrar. Eðlilegast væri að ganga þannig frá málum að þau sveitarfélög sem kjósa að breyta sameinuðum orku- eða veitufyrirtækjum sínum, þar á meðal vatnsveitum, yfir í hlutafélög skilji þá neysluvatnsveitur eftir í eigu sveitarfélaganna og á þeirra vegum sé, vegna breyttra aðstæðna, t.d. í viðskiptaumhverfi orkuöflunar, orkusölu og dreifingar, talið nauðsynlegt að gera slíkar breytingar á að halda vatnsveitum þar utan við.
    Þótt gerðar séu nokkrar tilraunir til að laga ágalla frumvarpsins í breytingartillögum meiri hlutans skortir enn verulega á að frumvarpið sé ásættanlegt sem slíkt að viðbættum þeim pólitíska ágreiningi um grundvallarstefnu í málinu sem gerð var grein fyrir hér að framan. Í 2. gr. frumvarpsins á nú samkvæmt breytingartillögunum að gera einkarétt sveitarfélaga á rekstri vatnsveitna afdráttarlausan í stað þess að í frumvarpinu sjálfu er talað um að sveitarfélag „sem lagt hefur vatnsveitu“ hafi einkarétt á rekstri hennar. Þessi breyting yrði að sjálfsögðu til bóta, enda ótrúlegur frágangur á frumvarpinu eins og það var lagt fram, en dugar þó engan veginn. Fyrir utan liggur eignarhaldið sjálft. Einkaréttur á rekstri jafngildir ekki sjálfkrafa eign sveitarfélags.
    Ákvæðin um heimildir sveitarfélaga til að framselja einkarétt sinn til rekstrar veitna eru einnig verulega gölluð. Þó svo að skilyrði sé að stofnun eða fyrirtæki sem rétturinn er seldur til sé að meiri hluta í eigu ríkis eða sveitarfélags er ljóst að í gegnum slíkt fyrirkomulag gæti rekstur veitnanna orðið einkavæddur a.m.k. að 49%. Einnig er sérkennilegt að engin tímamörk eru sett um það til hve langs tíma framsalið megi standa. Eingöngu er talað um að það skuli vera til ákveðins tímabils í senn. Væntanlega má túlka það eftir vilja og áhuga hvers og eins; getur eins tekið til 99 ára eins og til fimm eða tíu ára.
    Annað meingallað ákvæði þessa frumvarps er svo ákvæði 3. gr. um að eiganda vatnsveitu sé ár hvert heimilt að áskilja sér allt að 7% arð af eigin fé vatnsveitunnar. Með þessu ákvæði frumvarpsins er undirstrikað að verið sé að leggja rekstur vatnsveitu að nánast öllu leyti að jöfnu við hvern annan atvinnurekstur sem rekinn yrði í hagnaðarskyni. Draga verður mjög í efa að það samræmist lögum að heimila sveitarfélögum almenna tekjuöflun með þessum hætti við ákvörðun vatnsgjalds til þess að tryggja sér 7% arð af eigin fé vatnsveitu.
    Frumvarpið að öðru leyti gengur út á það að gjaldtaka vatnsveitna skuli miðast við almenn sjónarmið um þjónustugjöld, þ.e. ekki sé um skatt eða eiginlega tekjuöflun að ræða. Um þjónustugjöld á hins vegar að gilda sú meginregla að fyrir utan að byggjast á skýrum lagaheimildum beri að gæta þess við ákvörðun gjaldanna að þau séu ekki hærri en sem nemur þeim kostnaði sem almennt stafar af því að veita viðkomandi þjónustu. Sé farið út fyrir þessi mörk er í reynd um tekjuöflun að ræða og þá verður sú tekjuöflun, hvort heldur sem er til ríkis eða sveitarfélaga, að byggjast á fullnægjandi skattlagningarheimild, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Um nánari rökstuðning fyrir þessu sjónarmiði er vísað til umsagnar Samtaka atvinnulífsins sem birt er sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Það verður að telja stóran ljóð á þessu frumvarpi að höfundarnir hafa með öllu horft fram hjá þróun á alþjóðavettvangi hvað varðar það að meta nægan aðgang að hollu og góðu drykkjarvatni sem grundvallarmannréttindi og að ekki beri að líta á vatn sem verslunarvöru. Benda má á nýgerða samþykkt Sameinuðu þjóðanna í þessu sambandi.
    Þá hefði verið eðlilegt ef endurskoða á lagaákvæði um vatnsveitur sveitarfélaganna að líta til yfirstandandi viðræðna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og líklegra skuldbindinga samkvæmt svonefndum GATS-samningum sem þar koma væntanlega til sögunnar. Höfundar frumvarpsins virðast ekki hafa kynnt sér þá neikvæðu reynslu sem orðið hefur af einkavæðingu vatnsveitna víða erlendis sem aftur hefur svo leitt til þess að ríkisstjórnir margra landa, t.d. Hollands, hafa gripið til róttækra aðgerða til að ná aftur tökum á ástandinu.
    Með vísan til alls þessa er það niðurstaða minni hlutans að frumvarp þetta sé á engan hátt tækt til afgreiðslu og það beri að vinna betur. Minni hlutinn leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 12. mars 2003.



Steingrímur J. Sigfússon.





Fylgiskjal I.


Umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.
(14. febrúar 2003.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


F.h. BSRB

Svanhildur Halldórsdóttir.

Fylgiskjal II.


Umsögn Samtaka atvinnulífsins.
(14. febrúar 2003.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.








Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka atvinnulífsins

Óskar Maríusson.