Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1309  —  462. mál.
Nefndarálitum frv. til raforkulaga.

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefndar.    Í frumvarpinu segir að markmið laganna sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skal í fyrsta lagi skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna, í öðru lagi stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu á raforku, í þriðja lagi tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda og í fjórða lagi stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti.
    Iðnaðarnefnd kallaði til sín marga umsagnaraðila, m.a. frá orkuvinnslufyrirtækjum og sveitarfélögum, Samorku og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og fékk fjölda umsagna um málið. Meiri hlutinn leggur fram breytingartillögur við frumvarpið í 21 lið samkvæmt ábendingum, aðallega frá stærstu orkufyrirtækjunum, Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins, Orkubúi Vestfjarða og Norðurorku á Akureyri, ásamt fleiri aðilum.
    Hér er um að ræða heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku. Hún er sögð byggjast á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem rutt hafa sér til rúms víða um heim á undanförnum árum og fela það í sér að skilið er á milli einstakra þátta raforkukerfisins, flutnings og dreifingar og þeirra þátta þar sem samkeppni verður við komið, eins og vinnslu og sölu. Þá er með frumvarpinu verið að koma til móts við tilskipun Evrópusambandsins um innri markað á raforku, 96/92/EB, sem varð hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 26. nóvember 1999. En aðalmarkmiðið með orkutilskipun Evrópusambandsins var að auka hagkvæmni og nýtingu kerfisins á meginlandi Evrópu þar sem talið var að um 20% offramleiðslu væri að ræða. Samkeppni á markaði á meginlandi Evrópu í framhaldi af þessum kerfisbreytingum mun hafa leitt til betri nýtingar og orðið til verulegrar lækkunar á rafmagni til iðnaðar, a.m.k. tímabundið, en lítils háttar lækkunar til almennra notenda.
    Hér eru hins vegar allt aðrar aðstæður og er 2. minni hluti þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hefði átt að sækja um undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins á þeirri forsendu að Ísland hefur sjálfstætt og einangrað raforkukerfi og vinnsla, dreifing og sala því óháð öðrum hlutum Evrópu. Það hefur sýnt sig að þau raforkukerfi sem ekki voru tengd innan Evrópusambandsins, t.d. á Spáni, hafa ekki notið verðlækkunar á rafmagni við þessar breytingar enda mun lítið hafa verið um flutningslínur milli Spánar og annarra landa í Evrópu. Þessi sérstaða Spánar hefur leitt til þess að rafmagn hefur heldur hækkað þar.
    Það er mat flestra orkufyrirtækja hér á landi að verði þetta frumvarp að lögum hafi það í för með sér umtalsverðan nýjan kostnað og muni það valda hækkun orkuverðs en ekki lækkun eins og ýmsir hafa haldið fram. Þessi kostnaðarauki stafar m.a. af auknum kostnaði vegna mælinga, eftirlits og uppgjörs og arðsemiskröfu vegna flutnings- og dreifikerfa. Því er haldið fram að leitað verði allra leiða til þess að minnka þennan kostnað og hefur meiri hlutinn með breytingartillögum sínum gert ráðstafanir til að lágmarka þennan kostnaðarauka. Það er þó mat 2. minni hluta að verði þetta frumvarp að lögum muni það leiða til hækkaðs orkuverðs í landinu og því getur hann ekki stutt frumvarpið.
    Í frumvarpinu eru ákvæði til bráðabirgða þess efnis að iðnaðarráðherra skipi nefnd sem í eigi sæti fulltrúar allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, fimm fulltrúar frá Samorku, tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Neytendasamtökunum. Þá skal fjármálaráðherra skipa einn fulltrúa í nefndina og iðnaðarráðherra tvo og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur um fyrirkomulag flutnings á raforku, sem er eitt meginmálið varðandi allar þessar breytingar, þar á meðal tillögur um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri flutningskerfis og kerfisstjórnar skuli háttað svo að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá skal þessi nefnd móta tillögur um uppbyggingu gjaldskrár fyrir flutning raforku, svo og tillögur um hvernig jafna eigi kostnað vegna flutnings og dreifingar raforku. Þessi nefnd á að skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 31. desember árið 2003. Að mati 2. minni hluta er algjörlega ótækt að samþykkja eins viðamikið raforkulagafrumvarp og hér um ræðir án þess að taka á stærstu þáttum hvað varðar raforkuvinnslu og raforkudreifingu heldur vísa þeim til nefndar í ákvæði til bráðabirgða.
    Þá er algjörlega óviðunandi að ekki skuli tekið á félagslegri hlið þessara mála sem snýr að langmestu leyti að orkuveitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins og orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða. Rafmagnsveitur ríkisins eru að stærstum hluta kaupendur raforku og framleiða aðeins um 7% af eigin afli til dreifiveitna sinna. Orkubú Vestfjarða er einnig stór kaupandi raforku. Bæði þessi fyrirtæki kaupa raforku frá Landsvirkjun fyrir dreifikerfi sín en þó er Orkubú Vestfjarða að því leyti betur sett að það framleiðir um 40% af raforku fyrir sitt eigið svæði. Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins dreifa orkunni að stærstum hluta í dreifbýli, sem gerir það að verkum að notendur á þeim svæðum búa við miklu hærra orkuverð en tíðkast á höfuðborgarsvæðinu og t.d. á Akureyri og Suðurnesjum. 2. minni hluti telur að bíða ætti með þessar kerfisbreytingar þar til heildstæðar lausnir hafa verið settar fram á því hvernig staðið verði að jöfnun orkukostnaðar. Í löndunum í kringum okkur hefur verið tekið á því með ýmsu móti. Sums staðar er sett framleiðslugjald á raforkuna, annars staðar er jafnað með mismunandi skattlagningu á orku, þ.e. lægri skattlagningu í dreifbýli. Annars staðar er stuðlað að jöfnun með beinum framlögum úr ríkissjóði þar sem orkuveitufyrirtækjunum er greitt fyrir að afhenda orku í dreifbýli. Þau sjónarmið komu sterklega fram í umræðum í iðnaðarnefnd að e.t.v. væri heppilegt í þessu samhengi að taka á þessu hér á landi með innheimtu sérstaks mælagjalds. Undir öllum kringumstæðum verða þessi atriði að liggja ljós fyrir þar sem ekki er hægt að sætta sig við að stór hluti landsmanna búi við miklu hærra orkuverð en aðrir eins og raunin er nú.
    Í ljósi þess sem að framan segir leggur 2. minni hluti því til að frumvarpinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og það unnið á þann hátt að tekið sé á öllum þáttum sem óleystir eru í sambandi við fyrirkomulag flutnings á raforkunni, stærð flutningskerfis, hvernig rekstri flutningskerfisstjórnar skuli háttað og uppbyggingu gjaldskrár í landinu fyrir flutning raforku. Jafnframt verður að liggja fyrir með hvaða hætti eigi að jafna kostnað við flutning og dreifingu orkunnar.

Alþingi, 12. mars 2003.Árni Steinar Jóhannsson.


Fylgiskjal I.


Umsögn ASÍ.
(20. febrúar 2003.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,

Ingunn S. Þorsteinsdóttir
hagdeild.Fylgiskjal II.


Umsögn Samorku.
(18. febrúar 2003.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Með bestu kveðju,

Eiríkur Bogason.

Fylgiskjal III.


Umsögn Orkubús Vestfjarða.
(18. febrúar 2003.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fyrir hönd Orkubús Vestfjarða hf.

Kristján Haraldsson
orkubússtjóri.