Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 671. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1310  —  671. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 62/1977, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Annar minni hluti telur ekki tímabært að samþykkja frumvarp sem heimilar stækkun á álveri Norðuráls í Hvalfirði í 300 þús. tonn, enda er þegar fyrir hendi heimild til stækkunar álversins úr 90 þús. tonn í 180 þús. tonn á ári.
    Norðurál hóf framleiðslu á Grundartanga 11. júlí 1998. Í byrjun var ársframleiðsla álversins 60 þús. tonn en sumarið 2001 var framleiðslan aukin í 90 þús. tonn á ári. Í upphaflegu starfsleyfi og mati á umhverfisáhrifum var gert ráð fyrir að fyrirtækið mundi framleiða allt að 180 þús. tonn af áli og uppbyggingin yrði á tiltölulega skömmum tíma en þó í áföngum eins og raunin hefur orðið. Norðurál hefur því nú þegar leyfi fyrir 180 þús. tonna álveri. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir því að fyrirtækinu verði heimilt að stækka í allt að 300 þús. tonn ef samningar nást við Landsvirkjun um orkuafhendingu. Upplýst er að fyrirtækið hyggst stækka fyrst í 180 þús. tonn eins og heimild er fyrir og síðan í 240 þús. tonn, en um áframhaldandi stækkun upp í 300 þús. tonn mun vera óljóst. Forsendur þessarar stækkunar er auðvitað að um semjist við Landsvirkjun um afhendingu á rafmagni. 2. minni hluti hefur þegar gert athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum, þar sem kveðið er á um heimildir til virkjana sem eru grundvöllur þess að hægt sé að afhenda aukna orku til Norðuráls í Hvalfirði. Er þar um að ræða stækkun í Svartsengi um 16 MW, heimild til 80 MW virkjunar á Reykjanesi og stækkun úr 90 í 120 MW á Nesjavöllum auk Norðlingaölduveitu. 2. minni hluti hefur gert alvarlegar athugasemdir við undirbúning þessara mála. Minnt skal á að unnið er að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í landinu og telur 2. minni hluti einsýnt að fresta beri ákvarðanatöku um orkuvinnslu á öllum þessum svæðum þar til slík áætlun hefur verið lögð fram og samþykkt. Í ljósi þessa telur 2. minni hluti ekki tímabært að samþykkja frumvarp um heimild til stækkunar álvers Norðuráls í Hvalfirði í 300 þús. tonn.

Alþingi, 12. mars 2003.



Árni Steinar Jóhannsson.