Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 396. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1315  —  396. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um húsnæðissamvinnufélög.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Að lokinni umfjöllun um málið í félagsmálanefnd telur minni hlutinn rétt að fresta afgreiðslu málsins enda er efni þess ekki nægilega vel unnið. Af svörum umsagnaraðila má ráða að félagsmálaráðuneytið hafi haft mjög takmarkað samráð við helstu hagsmunaaðila við vinnslu frumvarpsins og er það aðfinnsluvert. Nefndinni hefur gefist mjög skammur tími til að rannsaka málið og athugasemdir og rök umsagnaraðila gefa sterklega til kynna að fjölmörg atriði þarfnist rækilegrar endurskoðunar. Það verður því að telja óforsvaranlegt að setja ný heildarlög um húsnæðissamvinnufélög sem bæta gildandi lög að óverulegu leyti og eru um margt félagsmönnum húsnæðissamvinnufélaga til baga.
    Þau atriði sem minni hlutinn telur að helst þurfi nánari skoðunar við eru ákvæði um viðhaldssjóð, hlutverk búsetufélaga, búseturétt og flutning á valdi frá búsetufélögum til húsnæðissamvinnufélaga.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir einum sameiginlegum viðhaldssjóði fyrir hvert húsnæðissamvinnufélag í stað þess að búsetufélögin sjálf sjái um viðhald eignanna. Með þeirri breytingu færist ábyrgð og yfirsýn frá búsetufélögunum til húsnæðissamvinnufélaganna og hætt er við að viðhald verði bæði ómarkvisst og dýrara en við gildandi fyrirkomulag. Í frumvarpið vantar sárlega skýrari reglur um búseturéttinn sem slíkan og virðist það ekki bæta úr gildandi lögum. Þá telur minni hlutinn að ekki hafi verið sýnt fram á að réttur félagsmanna skv. 1. mgr. 4. gr. gildandi laga um forgangsrétt verði af þeim tekinn bótalaust en engin ákvæði eru í frumvarpinu um hvernig skuli fara með réttindi þeirra félagsmanna sem keypt hafa sér búseturétt og áunnið sér forgangsrétt til vals á eignum. Minni hlutinn telur rök standa til þess að sá réttur sé varinn af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að ákvörðunarvald verði að verulegu leyti flutt frá búsetufélögunum til húsnæðissamvinnufélaganna og þau þannig gerð áhrifalítil. Það er kunnara en frá þurfi að segja að sjaldan hefur þótt vænlegt til árangurs að flytja valdið frá fólkinu til stórra miðstýrðra eininga. Að lokum er rétt að fram komi að rétt hefði verið að setja skýr ákvæði sem tryggi búsetufélögunum fulltrúa á aðalfundi húsnæðissamvinnufélaganna.
    Minni hlutinn telur að eins og frumvarpið er úr garði gert af hálfu félagsmálaráðuneytisins sé með öllu óforsvaranlegt að Alþingi afgreiði það sem lög. Lagasetning af þessu tagi varðar veruleg fjárhagsleg réttindi fjölskyldna og einstaklinga í landinu og er með öllu ótækt að kastað sé höndunum til verksins og lítið sem ekkert tillit tekið til athugasemda og ábendinga sem borist hafa.

Alþingi, 7. mars 2003.



Ásta R. Jóhannesdóttir,


frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.



Prentað upp.