Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 661. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1336  —  661. mál.




Nefndarálit



um frv. til hafnalaga.

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



    Með frumvarpi þessu er lagt til að dregið verði verulega úr ríkisstyrkjum til hafna og lögmál samkeppni og markaðssjónarmiða innleidd. Markmiðið er að etja höfnum landsins saman í verðsamkeppni sem mun að lokum leiða til fækkunar hafna og nauðsynlegrar hagræðingar að mati ráðamanna. 1. minni hluti er almennt þeirrar skoðunar að samkeppni sé hagkvæm og til hagsbóta fyrir heildina. Hér gilda hins vegar sérstök sjónarmið sem gera það að verkum að forsendur samkeppni vantar. Byggðirnar eiga allt sitt undir því að hafnirnar starfi og ef stjórnvöld búa höfnum slíkt starfsumhverfi að rekstrargrundvöllur einhverra þeirra brestur er ríkisstjórnin í reynd að taka þá pólitísku ákvörðun að leggja þær niður.
    Það er mat 1. minni hluta að heiðarlegra hefði verið af ríkisstjórninni, úr því að hún hefur tekið þessa ákvörðun og vill gera þessa aðför að landsbyggðinni, að segja það hreint út hvar skuli vera byggð og hvar ekki í stað þess að etja byggðunum saman á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir. Það er eðli samkeppninnar að einhver verður undir í henni og þegar menn stofna til samkeppni um lífsbjörgina sjálfa getur tjónið orðið óbætanlegt og skyldu menn hafa það í huga þegar þeir fjalla um þessi mál. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þær afleiðingar sem þetta mun hafa í þeim byggðum sem verða undir, t.d. hvað varðar þróun fasteignaverðs.
    Fyrsti minni hluti hefur mjög miklar efasemdir um ágæti þeirra breytinga sem hér eru lagðar til og óttast að verði þær að veruleika sé verið að tefla í tvísýnu hvaða byggðir muni lifa og hverjar ekki. Einnig verður að viðurkenna að uppbygging hafna á landinu hefur ekki tekið mið af því hvar væri hagkvæmast að hafa þær. Önnur sjónarmið hafa verið höfð að leiðarljósi og þá einkum byggðasjónarmið og krafan um að þéttbýli og þéttbýliskjarnar fái notið nábýlis síns við sjávarauðlindina. Núverandi fiskveiðistjórnarkerfi gerir það að verkum að staða margra hafna og byggðarlaga ræðst fyrst og fremst af því hvar takmörkuðum sjávarafla er uppskipað. Fiskveiðistjórnarkerfið er því enn ein rök gegn þessu frumvarpi. Engar forsendur eru fyrir því nú að samþykkja lög sem gera ráð fyrir að þessar hafnir keppi sín á milli með þeim hætti sem fyrirhugað er. Í frumvarpinu felst að stjórnvöld treysta sér einfaldlega ekki til að tryggja búsetu í byggðum landsins né hafa þau dug í sér til að taka ákvörðun um það hvaða byggðir skuli lifa og hverjar ekki. Þess í stað á að etja þeim saman á ógeðfelldan hátt. Slík vinnubrögð eru þinginu ekki sæmandi og því leggst 1. minni hluti gegn því að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 13. mars 2003.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Kristján L. Möller.