Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 661. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1342  —  661. mál.




Nefndarálit



um frv. til hafnalaga.

Frá 2. minni hluta samgöngunefndar.



    Það frumvarp sem hér er til umræðu er í helstu atriðum samhljóða því frumvarpi sem samgönguráðherra lagði fram á Alþingi fyrir einu ári.
    Það er samdóma álit þeirra sem sendu inn umsagnir á síðasta þingi að þörf sé á því að endurskoða lögin. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því að það var lagt fram á síðasta þingi og eru þær flestar til bóta. Hugmyndafræðin er þó óbreytt og langtímaáhrif þessarar lagasetningar, ef af henni verður, munu verða gífurleg á byggðir á Íslandi og reynast fiskihöfnum vítt og breitt um landið þung í skauti.
    Helstu nýmæli í þessu frumvarpi frá gildandi hafnalögum eru tilgreind í greinargerð með frumvarpinu en þar segir:
     1.      Gert er ráð fyrir að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra.
     2.      Leyft verður að reka hafnir undir fleiri rekstrarformum, þ.m.t. undir hlutafélagaforminu.
     3.      Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til allra hafna landsins.
     4.      Móttökuskylda hafna er skilgreind.
     5.      Ríkisafskipti af höfnum eru minnkuð en áfram er gert ráð fyrir að viðhaldsdýpkanir, lagfæringar og viðhald á skjólgörðum sé greitt að hluta til úr ríkissjóði.
     6.      Framtíð smærri fiskihafna er betur tryggð en í núgildandi lögum.
     7.      Önnur stjórnvaldsafskipti af höfnum eru betur skilgreind.
    Annar minni hluti gerir sérstakar athugasemdir við lið 1 og 2 í framangreindri upptalningu.
    Hafnirnar eru hluti grunnnets samgöngukerfis landsins og hafa byggst upp vegna samgangna á sjó og sem nauðsynleg þjónustumannvirki fyrir fiskiskipaflotann. Hafnirnar eru forsenda atvinnulífs og búsetu í sjávarþorpum og bæjum víða um land. 2. minni hluti lítur því á hafnir í flestum tilvikum sem þjónustumannvirki, hluta af almannaþjónustu við atvinnulíf og búsetu í landinu. Hugmyndafræðin að baki frumvarpinu felst í því að heimila einkavæðingu hafnarmannvirkja vítt og breitt um landið og innleiða frjálsa samkeppni hafna innbyrðis, þ.e. að láta þær keppa hverja við aðra um að fá til sín viðskipti og þjónustu. Samkvæmt frumvarpinu verður dregið verulega úr ríkisstyrkjum til hafna og notendum hafnanna, einkum sjávarútveginum, gert að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum og viðhaldi hafnanna. Búast má við harðri samkeppni milli hafna þegar fram líða stundir og í slíkri samkeppni munu einhverjar hafnir óhjákvæmilega verða undir.
    Í athugasemdum við 18. gr. frumvarpsins segir: „Frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélög geti framselt rekstur hafna til annars rekstrarforms skv. 3. tölul. 8. gr. Gert er almennt ráð fyrir að slíkt félag verði áfram í eigu viðkomandi sveitarfélags en þó eru í frumvarpinu engar takmarkanir settar á að sveitarfélög geti síðar selt hlut sinn öðrum aðilum.“
    Annar minni hluti getur ekki fallist á þessa einkavæðingarhugmyndafræði sem teygir sig sífellt lengra inn á svið almannaþjónustunnar.
    Loks gagnrýnir 2. minni hluti þá tæmandi sundurliðun gjaldheimilda sem finna má í 17. gr. frumvarpsins. Greinilegt er að ákvæðið er eingöngu sniðið að stórum umsvifamiklum höfnum og ljóst að smærri hafnir eiga óhægt með að sundurliða og kostnaðargreina sín gjöld eins og krafist er. Þá er ljóst að tæmandi talning gjaldheimilda getur verið mjög heftandi í starfsemi hafna.
    Með vísan til framangreinds getur 2. minni hluti ekki stutt frumvarpið.

Alþingi, 13. mars 2003.



Jón Bjarnason.



Fylgiskjal.


Umsagnir um frumvarp til hafnalaga (386. mál á 127. löggjafarþingi).


Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.
(25. mars 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.
(26. mars 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Umsögn Vélstjórafélags Íslands.
(15. mars 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Umsögn Ísafjarðarbæjar.
(8. apríl 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.