Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 421. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1370  —  421. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Lýðheilsustöð.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Að lokinni umfjöllun nefndarinnar um málið hefur minni hlutinn komist að þeirri niðurstöðu að óvarlegt sé að samþykkja frumvarpið eins og það er úr garði gert.
    Stór hluti umsagnaraðila taldi málið vanbúið og að vinna þyrfti það betur. Landlæknisembættið lagði til að frumvarpið í heild yrði unnið nánar og endurskoðað enda þyrfti að vinna grunnhugmynd málsins betur. Lagði landlæknir m.a. til að skilgreining á lýðheilsu yrði endurskoðuð og hugað nánar að málefnum sem ekki tengdust lögbundnum nefndum og ráðum, sem fara t.d. með mál tengd geðrækt, hreyfingu og umhverfisþáttum. Einnig yrði hugað að almennu lýðheilsustarfi, kostum lýðheilsuskóla og mati á hagkvæmni þess að fella starfsemi lýðheilsustöðvar að núverandi skipulagi lýðheilsumála í landinu í stað þess að setja nýja stofnun á fót, t.d. með því að koma starfseminni fyrir hjá landlæknisembættinu eða efla heilsugæsluna í Reykjavík. Í umsögn Læknafélags Íslands komu m.a. fram efasemdir um réttmæti þess að setja nýja stofnun yfir margvíslegt forvarnastarf sem þegar er í landinu. Samband íslenskra sveitarfélaga leggst gegn frumvarpinu og telur fjármunum betur varið til verkefna en frekari yfirbyggingar yfir starfsemi sem sé nú þegar í góðu horfi og undir það sjónarmið tekur m.a. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og telur að ákvarða þurfi betur umfang stöðvarinnar. Þá má nefna að Geðverndarfélag Íslands sagði ljóst að frumvarpið þyrfti rækilegrar endurskoðunar við áður en það yrði afgreitt sem lög frá Alþingi. Á heildina litið telja flestir umsagnaraðilar að hlutverk þessarar nýju stofnunar sé illa skilgreint og að fjármunum verði örugglega betur varið með auknu samstarfi fagnefnda og -ráða með aðstoð stofnana sem fyrir eru í stað þess að auka við yfirbygginguna sem hefur í för með sér verulegan kostnað fyrir ríkissjóð.
    Valdsvið forstjóra gagnvart landsnefnd og sérfræðiráði er illa skilgreint. Ekki er ljóst hver ber ábyrgð á faglegum ákvörðunum, forgangsröðun verkefna og skiptingu fjármagns. Einnig má deila um hvort staðsetning stöðvarinnar í stjórnkerfinu sé rétt, þ.e. sem sjálfstæð lítil eining undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Að mati margra umsagnaraðila er hlutverk lýðheilsustöðvarinnar illa skilgreint og óljóst hvert starfrænt samhengi við aðrar stofnanir, sérstaklega embætti landlæknis, er og tekur minni hlutinn undir það. Heilsugæslan taldi hlutverk sitt samkvæmt frumvarpinu óljóst og mörk verksviðs hennar og Lýðheilsustöðvarinnar loðin. Nauðsynlegt hefði verið að endurskoða lög um hlutverk landlæknis, heilsugæslunnar og ýmissa sérfræðiráða samhliða lagasetningu um lýðheilsustöð.
    Við stofnun Lýðheilsustöðvar er nauðsynlegt að skilgreina hvar hún á best heima í stjórnkerfinu, ekki síst þegar hugað er að þverfaglegu hlutverki hennar. Lýðheilsustöð verður að starfa í samhengi við aðrar stofnanir sem vinna að lýðheilsumálefnum. Sérstaklega var vakin athygli á núverandi hlutverki landlæknisembættisins í lýðheilsustarfi í frumvarpinu. Hefð er fyrir því að landlæknisembættið sinni svipuðum verkefnum og hinni nýju stöð er ætlað, þ.e. fræðslu, samræmingu og samstarfi. Samhliða lagasmíð um stofnun lýðheilsustöðvar hefði því óhjákvæmilega þurft að endurskoða lög um landlæknisembættið. Án slíkrar endurskoðunar munu starfssvið landlæknis og stöðvarinnar skarast, hætta er á að heildarsýn verði óljós, hlutverkaskipting ómarkviss og þar með verði hin nýja Lýðheilsustöð ekki sú efling fyrir lýðheilsustarf sem efni standa til. Embætti landlæknis nýtur trausts og virðingar og er þekkt fræðslustofnun um lýðheilsumálefni. Hætta er á að þetta glatist ef starfsemin verður flutt til nýrrar stofnunar sem er óþekkt meðal almennings. Því þarf að meta hvort lýðheilsustofnunin eigi ekki að vera hluti af embættinu eða hvort starfseminni sé betur borgið á annan hátt.
    Rannsóknarhlutverk stöðvarinnar er alltof veikt í frumvarpinu og þarf að vera miklu meira og ákveðnara en gert er ráð fyrir. Lýðheilsustöð þarf að vera leiðandi afl í því að finna og greina þekkingu á heilsufari þjóðarinnar og þarf starf hennar að taka m.a. til félagslegra, efnahagslegra og menningarlegra þátta. Vegna þessa er grundvallaratriði að rannsóknir séu óaðskiljanlegur hluti stofnunarinnar. Þetta vantar í frumvarpið.
    Mjög óskýrt er hvaða umboð eða hlutverk landsnefndin hefur í starfsemi stöðvarinnar, t.d. hvaða fjárveitingar hún hefur. Sérstaklega þarf að skýra betur valdsvið hennar gagnvart forstjóra og landlækni. Hætta er á að landsnefndin verði stórt og þunglamalegt bákn. Á þetta bendir m.a. Félag um lýðheilsu og tekur minni hlutinn undir það.
    Frumvarpið markast um of af núverandi starfsemi einstakra ráða í stað heildarsýnar. Benda má á að fjöldi fagráða starfar á vegum landlæknisembættisins, t.d. um mæðravernd, ung- og smábarnavernd, hjarta- og æðasjúkdóma og um öldrun. Í frumvarpinu er ekki gerð grein fyrir því hvort breyting verði á hlutverki þeirra við skipan sérfræðiráða Lýðheilsustöðvarinnar. Þetta endurspeglar þann þrönga ramma sem stöðinni er skapaður með sameiningu aðeins fjögurra ráða.
    Sá rammi sem frumvarpið gefur varðandi fjármögnun er takmarkaður við tvo starfsmenn, auk þeirra sem fylgja ráðunum fjórum, og gefur því ekki mörg ný sóknarfæri til að efla lýðheilsu á Íslandi. Í frumvarpinu vantar upp á að Lýðheilsustöðinni sé tryggður fastur tekjustofn í fjárlögum sem nægi henni til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem bíða.
    Málefni lýðheilsu á Íslandi, sem eru heilbrigðismál í sínum víðasta skilningi, eru ákaflega mikilvægur málaflokkur og munu hafa afgerandi áhrif á það hvernig íslenskri þjóð vegnar. Því er mikilvægt að vel sé vandað til undirbúnings stofnunar Lýðheilsustöðvar. Engum er greiði gerður með flýtilausnum í þessu efni og mjög slysalegt og jafnvel hættulegt fyrir þróun í lýðheilsumálum þjóðarinnar ef rokið er til og stofnun sett á laggirnar sem hefur enga burði til að vera sú lyftistöng sem þarf vegna ónógs undirbúnings. Því miður ber þetta frumvarp þess merki að engin heildarstefna hefur verið tekin í málaflokknum, engin yfirsýn og athugun á núverandi starfsemi og samræmingu og samhæfingu hennar hefur farið fram. Þá er stefnumótun í lýðheilsumálum ekki fyrir hendi í þessu frumvarpi.
    Minni hlutinn er hlynntur hugmynd um stofnun Lýðheilsustöðvar en eins og reifað hefur verið hér að framan er málið allt illa undirbúið og allsendis vanbúið til afgreiðslu frá Alþingi. Það væri því góðu málefni til trafala að samþykkja frumvarpið í þessu formi.

Alþingi, 11. mars 2003.



Ásta R. Jóhannesdóttir,


frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Þuríður Backman.