Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 716. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1384  —  716. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um lax- og silungsveiði og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.

I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði,
með síðari breytingum.

1. gr.

    1. mgr. 78. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn fisksjúkdómamála. Honum til aðstoðar er fisksjúkdómanefnd, en í henni eiga sæti yfirdýralæknir, sem er formaður nefndarinnar, veiðimálastjóri, fiskistofustjóri og forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum. Ef atkvæði verða jöfn í nefndinni skal atkvæði formanns ráða úrslitum. Fisksjúkdómanefnd skal hafa forgöngu um fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar gegn útbreiðslu fisksjúkdóma, sem getur um í kafla þessum, og annað er að fisksjúkdómum lýtur.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,
með síðari breytingum. 

2. gr.

    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Landbúnaðarráðherra skal setja sérstaka reglugerð um innflutning og útflutning sjávardýra í samráði við sjávarútvegsráðherra.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð. 


    Með frumvarpi þessu leggur landbúnaðarnefnd fram breytingar sem nauðsynlegar eru vegna frumvarps sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum nr. 33 16. apríl 2002, um eldi nytjastofna sjávar.
    Samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra verður heimilt að flytja inn sjávarfisk. Þá er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra fari með yfirstjórn sjúkdómamála í sjávarfiskum og er fisksjúkdómanefnd samkvæmt frumvarpinu honum til aðstoðar og ráðuneytis. Með þessu breytist hlutverk fisksjúkdómanefndar en það hefur hingað til einskorðast við fisk sem lifir í ósöltu vatni. Valdsvið nefndarinnar er aukið með þessari breytingu og þykir því nauðsynlegt að fiskistofustjóri taki sæti í nefndinni. Með því verður hún skipuð fjórum aðilum og því miðað við að verði atkvæði jöfn ráði atkvæði formanns úrslitum.
    Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim fer landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála er lögin taka til. Með frumvarpinu er honum gert að setja sérstaka reglugerð um innflutning og útflutning sjávardýra í samráði við sjávarútvegsráðherra.