Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
129. löggjafarþing 2003.
Þskj. 2  —  2. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Friðlýsingin taki til alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum að Kreppu og öðrum þverám meðtöldum með náttúrulegum rennslisháttum, þar sem hvers kyns röskun og mannvirkjagerð er bönnuð. Sérstaklega verði hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Jökulsár á Fjöllum skuli tengjast núverandi þjóðgarði í Jökulsárgljúfrum og fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.

Greinargerð.


    Enginn vafi er á því að Jökulsá á Fjöllum, Dettifoss og Jökulsárgljúfur, að meðtöldu hinu stórbrotna umhverfi árinnar allt frá upptökum við jaðra Dyngjujökuls og Brúarjökuls til sjávar í Öxarfirði, er einstæð náttúrugersemi. Fyrst skal frægan telja Dettifoss, sem oft er titlaður aflmesti eða voldugasti foss í Evrópu, þá hin miklu gljúfur, Hafragilsfoss og Selfoss og þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum að meðtöldu Ásbyrgi. Ævi sinni lýkur Jökulsá með því að flæmast um sandana fyrir botni Öxarfjarðar og hefur þá grafið í sand eitt af háhitasvæðum landsins. Umhverfið við efri hluta árinnar er ekki síður stórbrotið allt frá upptökum við Dyngjujökul vestan Kverkfjalla þar sem áin flæmist um hina miklu sandauðn norðan jökulsins með Kverkfjallarana og Krepputungu austan við. Trölladyngja, Dyngjufjöll og Herðubreið með Ódáðahraun að baki skapa stórbrotna umgjörð í vestri. Undan vesturjaðri Brúarjökuls koma svo Kverká og Kreppa og sameinast Jöklu norðan Krepputungu eftir að hafa runnið á leið sinni til móðurelfunnar um land sem ekki er síður stórbrotið. Um svæðið má segja að Jökulsá á Fjöllum sé bandið sem tengir saman og gerir að einni heild eitthvert stórkostlegasta náttúrufyrirbæri jarðarinnar. Samspil elds og ísa, landmótun og jarðfræði sem einkennist af mikilli eldvirkni og m.a. móbergsmyndunum frá ísaldartímum sem eiga enga sína líka í veröldinni, ummerki gríðarlegra hamfarahlaupa, gróðurvinjar, úfin hraun og eyðimerkur, dýralíf og vatnafar.
    En það er ekki aðeins landið umhverfis og Jökulsá á Fjöllum sem hluti af stórbrotinni landslagsheild sem gefa ánni mikið gildi, heldur og sjálft vatnasviðið í heild sinni, stórbrotið samspil jökulvatna og lindáa og rennslishættir allra þessara vatna. Á Íslandi hefur það að vísu fram undir síðustu ár ekki verið mikið til umræðu að náttúrulegir rennslishættir fallvatna gætu haft verndargildi í sjálfu sér en sú umræða er fyrir löngu vel þekkt í ýmsum nálægum löndum. Víða hefur rennslisháttum vatna fyrir löngu verið raskað í umtalsverðum mæli, t.d. í þágu samgangna á vatni og við gerð skipaskurða, stíflumannvirkja og vatnaflutninga til áveitu eða jafnvel með mannvirkjum sem tengdust timburfleytingum. Virkjanir, uppistöðulón, vatnsmiðlun og vatnaflutningar eru hins vegar þær framkvæmdir sem á seinni áratugum eru algengustu ástæður þess að náttúrulegum rennslisháttum fallvatna hefur verið raskað. Ef svo heldur fram sem horfir á Íslandi verða nokkur af stærstu jökulvötnum landsins miðluð og náttúrulegum rennslisháttum þeirra gjörbreytt innan fárra ára. Hér er átt við Þjórsá og Tungnaá sem þegar má heita að séu fullmiðlaðar og síðan bætast Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal í hópinn. Í þessu ljósi verður verndargildi Jökulsár á Fjöllum og Kreppu með óbreyttum rennslisháttum enn þá meira en ella. Allt stefnir í að Jökulsá á Fjöllum verði eina verulega korguga jökulfljótið í þessum stærðarflokki sem ekki hefur enn verið hróflað við. Um er að ræða næstlengstu á landsins, stærsta vatnasviðið, um 8.000 ferkílómetra, og fjórða vatnsmesta fallvatnið miðað við meðalrennsli. Umhverfi árinnar ber merki gríðarlegra hamfarahlaupa og enn vekja hlaup í Jökulsá undrun og aðdáun þeirra sem þau líta augum, ekki síst að sjá Dettifoss í tröllslegum ham þegar vatnsmagnið hefur margfaldast. Allt ber að sama brunni; hin einstæðu verðmæti sem fólgin eru í Jökulsá á Fjöllum og umhverfi hennar, hvoru tveggja óröskuðu af manna völdum, eru miklu meira en fullgild rök fyrir alfriðun.
    Í merkri samantekt sinni um fossa á Íslandi setur Sigurður Þórarinsson fossaröðina í Jökulsá á Fjöllum í hæsta verndarflokk og segir að fossana eigi tvímælalaust að friðlýsa ásamt nánasta umhverfi og því fyrr því betra. (Sjá: Sigurður Þórarinsson 1978. Fossar á Íslandi. Náttúruverndarráð, Fjölrit nr. 2.) Um fossaröðina segir Sigurður: „… stórvirkjun í Jökulsá eyðileggur röð fossa: Selfoss, Dettifoss og Hafragilsfoss, sem samanlagt eiga enga sína líka hérlendis og í Evrópu allri“. Í sama riti lýsir Sigurður viðhorfum sem ekki eiga síður við í dag. Hann segir: „Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.“
    Ýmsar hugmyndir hafa verið og eru á kreiki sem tengjast frekari verndun þess svæðis sem Jökulsá á Fjöllum rennur um. Vinna stendur yfir við gerð náttúruverndaráætlunar og við að skoða mögulega stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan jökla þar sem sjónir hljóta m.a. að beinast mjög að Jökulsá á Fjöllum. Á hinn bóginn er rétt að hafa í huga virkjanaáform á svæðinu og að bæði eldri og yngri ráðagerðir um virkjun Jökulsár á Fjöllum eru til staðar og hafa greinilega ekki verið afskrifaðar af öllum.
    Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að tímabært sé og þarft að Alþingi sjálft taki af skarið í þessu máli. Eðlilegt er að láta reyna á hástemmdar yfirlýsingar sem fallið hafa á undanförnum mánuðum og missirum um vilja til að ekki verði hróflað við Jökulsá á Fjöllum. Rétt er að taka fram að lokum að tillaga þessi er hugsuð sem algerlega sjálfstætt innlegg í hina almennu náttúruverndarumræðu og þá vinnu sem nú stendur yfir við gerð nýrrar náttúruverndaráætlunar. Sama gildir um vinnu fyrrgreindrar nefndar um þjóðgarð eða verndarsvæði norðan Vatnajökuls. Með því einu að friða Jökulsá á Fjöllum, þótt stórt skref væri, er langt í frá að fullnægjandi árangri sé náð á þessu sviði náttúruverndar. Að sjálfsögðu koma mörg önnur vatnsföll stór og smá og vatnasvið þeirra til greina með alveg sama hætti. Er þar nærtækt að nefna sem dæmi Hvítárnar tvær, í Borgarfirði og í Árnessýslu, og Skjálfandafljót. Öll eiga þessi vatnsföll það sameiginlegt með Jökulsá á Fjöllum að falla um einstaklega falleg héruð og í þeim eru stórbrotnir fossar sem ekki verður trúað að óreyndu að nokkur vilji sjá fórnað. Þess ber að geta að áður hafa verið fluttar tillögur hér á Alþingi svipaðs efnis og sú sem hér er fram borin og skal sérstaklega minnt á tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu Hvítár/Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum sem flutt var á 113. og 120. löggjafarþingi.