Vatnajökulsþjóðgarður

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 15:06:14 (3553)

2004-01-28 15:06:14# 130. lþ. 52.7 fundur 403. mál: #A Vatnajökulsþjóðgarður# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég vil þakka fyrirspurnina og fagna ákveðnum þáttum í svari hæstv. umhvrh. Það er auðvitað gott að það skuli vera að nálgast einhver lausn í þessu máli að Vatnajökulsþjóðgarður verði á endanum þjóðgarður þó svo hafa verði í huga að jökulhettan sjálf þarfnast ekki eiginlegrar verndar. Hún verndar sig sjálf. Það sem skiptir mestu máli um uppbyggingu þessa þjóðgarðs eru svæðin í kringum jökulinn þar sem hinar eiginlegu náttúruminjar sem þarfnast verndar er að finna. Þess vegna skiptir verulegu máli að þessar umræður séu á faglegum nótum og við ræðum um það af alvöru að Vatnajökulsþjóðgarður komi til með á komandi árum að teygja sig í kringum kragann, allan þennan dýrmæta kraga sem umlykur jökulhettuna og auðvitað norður fyrir jökulinn þó svo að það svæði verði ævinlega yfirskyggt af þeim gífurlegu náttúruspjöllum sem nú standa yfir á hálendinu norðan Vatnajökuls. Þar á ég auðvitað við skrímslið Kárahnjúkavirkjun.