Afgreiðsla stjórnarfrumvarps um fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 13:46:29 (3829)

2004-02-04 13:46:29# 130. lþ. 56.91 fundur 286#B afgreiðsla stjórnarfrumvarps um fjármálafyrirtæki# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Það er ekki oft sem ég get tekið undir með hæstv. forsrh. en ég hlýt að gera það í öllum meginatriðum núna.

Ég vil hins vegar vekja alveg sérstaka athygli á því að þessi aðkoma hv. þm. Péturs H. Blöndals í þessari umræðu er talandi dæmi um það vandamál sem við í Samf. höfum verið að vekja athygli á á umliðnum vikum. Nú stendur þingið frammi fyrir því að formaður efh.- og viðskn. er hér í stórum vanda sjálfur því að hann hefur sérstakra persónulegra hagsmuna að gæta í málinu (PHB: Viltu sanna það?) og veit ekki hvernig hann á að hreyfa sig. (PHB: Viltu sanna það?) Málið er einfaldlega hér ljóslifandi fyrir framan okkur, það vandamál sem á hefur verið bent.

Rétt til að halda því til haga sem ég nefndi áðan, um frumburðarrétt í þessu máli, það er algjört aukaatriði. Ég var eingöngu að fara yfir það til upplýsingar að þeir ágætu hv. þm. hér höfðu frumkvæði að því að taka málið á dagskrá á nýjan leik, og þingflokkur Samf. annars vegar samþykkti það frv. fyrir sitt leyti. Eftir því sem ég best veit til gerði þingflokkur Sjálfstfl. það líka. Síðar sama kvöld gerist það að hæstv. viðskrh., fulltrúi Framsfl., vaknar af værum blundi og býr til sitt frv. sem er minna í sniðum, skulum við segja, en þó þannig að það er samhljóða hinu í nánast einni grein. Það var ,,copy`` og ,,paste``.

Þetta eru allt aukaatriði. Ég fagna því fyrst og síðast að málið er fram komið. (RG: ... veita afbrigði?)