Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 15:18:35 (3854)

2004-02-04 15:18:35# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mjög mikilvægt að þau sjónarmið sem hv. þm. setti fram skuli hafa verið sett fram strax við 1. umr. Sparisjóðunum hefur vegnað vel. Þeir hafa verið að efla markaðshlutdeild sína og hafa verið að stækka og auka veltu sína mjög mikið. Með öðrum orðum, þetta hafa verið fín fyrirtæki. Þau hafa líka skipt miklu máli á þeim svæðum sem þau hafa starfað á. Og það er ákveðin hugmyndafræði á bak við starfsemi sparisjóðanna sem við erum fylgjandi og erum að reyna að verja. En hv. þm. opinberaði sína hugmyndafræði mjög vel. Hann gefur nefnilega dauðann og djöfulinn í allt, nema hagsmuni stofnfjáreigenda. Annað skiptir ekki máli. Annað er algjört aukaatriði.

Ef marka má ræðu hv. þm. er sennilega stefna hans að koma allri fjármálastarfsemi undir eitt fyrirtæki. Það gefur ekkert fyrir samkeppnina. Það gefur ekkert fyrir neytendurna. Það gefur ekkert fyrir landsbyggðina. Það gefur ekki neitt fyrir neinn nema hagsmuni stofnfjáreigenda. Og hv. þm. er einn þeirra.