Malarnám í Ingólfsfjalli

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:21:58 (4372)

2004-02-18 15:21:58# 130. lþ. 66.8 fundur 129. mál: #A malarnám í Ingólfsfjalli# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÞH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Sá sem hér stendur og talar hefur í sjálfu sér ekkert á móti malarnámum. Ég hef fullan skilning á því að einhvers staðar verðum við að sækja okkur efni til vegagerðar og bygginga svo að dæmi séu nefnd. En í þessu tilfelli má spyrja hvort fórnarkostnaðurinn sé ekki orðinn of hár því það dylst engum sem fer þarna fram hjá að þetta sár er orðið mjög ljótt.

Ég hef fullan skilning á því að íbúar á Selfossi líti kannski á þetta sem gullnámu og að þessi efnistaka þjóni hagsmunum þeirra að því leyti að þarna er hægt að ná í efni sem annars væri mun dýrara. En mér finnst samt sem áður svolítið undarlegt að nú á tímum þegar samgöngur eru þó alla vega miklu betri en þær voru fyrir nokkrum áratugum sé ekki hægt að sækja efni eitthvert annað með viðráðanlegum tilkostnaði.

Annars þykir mér þegar maður skoðar gögn varðandi slíkar námur víða um land að það sé ansi víða pottur brotinn. Bæði eru margar námur ófrágengnar sem rótað hefur verið í. Mig minnir að það hafi komið fram í umræðum í þinginu í desember sl. að það séu um 3.000 staðir vítt og breitt um landið þar sem efnistaka hefur farið fram og á flestum þessum stöðum hefur efnistöku verið hætt. Og enn eru um þúsund staðir sem á eftir að ganga frá aftur. Ég vona að hæstv. umhvrh. geti kannski staðfest þessar tölur að einhverju leyti.