Varnir gegn mengun sjávar

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:24:51 (4467)

2004-02-19 16:24:51# 130. lþ. 68.10 fundur 259. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., Flm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú í upphafi fagna jákvæðum viðbrögðum hv. þm. Jóns Gunnarssonar, fulltrúa Samf. í sjútvn., sem ég veit að talar af miklum skilningi og þekkingu um þessi mál.

Ég vil í þessu sambandi aðeins segja að í OSPAR-samningnum --- OS mun standa fyrir Ósló og PAR fyrir París --- um verndun Norðaustur-Atlantshafsins er gert ráð fyrir því að þessi heimild sé bara tímabundin, út árið 2004. Þess vegna hef ég ekki treyst mér til að leggja til að við gerum þetta öðruvísi. Við erum aðilar að þessu samkomulagi. Það má vel vera að hægt sé að finna einhverjar leiðir fram hjá þessu með viðurkenndum hætti af aðilum samningsins og þá held ég að við sýndum skynsemi í að gera það. Þetta er ekki mengandi aðgerð, öðru nær, og þetta er alls ekki óþekkt meðal annarra þjóða, þvert á móti, ég hef þegar rakið það. Norðmenn, sú mikla fiskveiðiþjóð, gera þetta, enginn finnur að því og engum hefur dottið í hug að þeir séu umhverfissóðar fyrir vikið. Þvert á móti held ég að þetta sé liður í að sýna í verki vilja sinn í þessum efnum.

Við þekkjum það líka að það er þekkt mál, t.d. í tengslum við togveiðar, að togvír er sökkt í hafið, bókstaflega til að geyma hann þar því að togvírinn geymist betur í hafinu þar sem súrefnið nær ekki til hans, eða hvernig sem það er. Við sjáum að hér er ekki um að ræða mengandi aðferð, öðru nær, þetta væri skynsamleg aðferð og ég er alveg sammála hv. þm. um að ef til er flötur á því að þetta gæti orðið til lengri tíma væri það betra því að þetta er varanlegt vandamál sem við erum að glíma við. Ég hef litið svo á að a.m.k. til að taka af þennan kúf væri nauðsynlegt að opna þá heimild eins og þarna er kveðið á um og ef hægt væri að gera það til lengri tíma mundi ég fagna því.