2004-02-24 14:41:23# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta í raun með ólíkindum, að Norðmenn skuli ekki hafa látið íslensk stjórnvöld vita af því sem þeir urðu áskynja. Ef marka má norska fjölmiðla þá hafa aðeins 18 skip verið tekin fyrir brottkast á Svalbarðasvæðinu á undanförnum missirum. Þar af eru þrjú íslensk skip. Þetta mun víst vera eitt þeirra. Í frægum norskum sjónvarpsþætti kemur greinilega fram að norska strandgæslan er þeirrar skoðunar að þarna hafi menn stundað skipulagða umhverfisglæpi, veiðiþjófnað. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað þegar veitt er úr sameiginlegum stofni og fiski hent í sjóinn sem hvergi er skráður til bókar og hvergi dreginn frá kvóta.

Mig langar að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telji að Norðmenn hafi ekki brotið gegn þeirri bókun sem gerð var á sínum tíma. Hefðu norsk stjórnvöld ekki átt að láta íslensk stjórnvöld vita af þessu broti?