Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 18:25:21 (5011)

2004-03-08 18:25:21# 130. lþ. 78.11 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg með ólíkindum að hv. þm. Kjartan Ólafsson sem er kosinn af landsbyggð skuli enn einu sinni reyna að telja fólki trú um það, og okkur hér, að flutningsgjöld hafi lækkað. Mér er alveg sama um þessa demparalækkun og allt þetta tal úr 44 tonnum í 49 tonn. Vafalaust er þetta allt hið besta mál, og lækkun á tolli á flutningatækjum úr 30% niður í 0% er hið besta mál.

Eftir stendur, virðulegi forseti, og það á hv. þm. Kjartan Ólafsson, landsbyggðarþingmaður eins og ég er, að hafa í huga, að opinberar tölur sýna fram á að þungaskattur og greiðslubyrði þungaskatts flutningabíls sem ekur 120--140 þús. km --- það er mjög algengt og jafnvel meira --- hefur hækkað um 45% frá árinu 1998, frá því að þær breytingar voru gerðar sem þá voru gerðar. Ég trúi því bara ekki eitt augnablik að hv. þingmaður geri sér ekki grein fyrir því að flutningsgjöld til og frá landsbyggðinni hafa hækkað allsvakalega. Það vita allir. Viti hann það ekki hefur einhver annar en ég verið að reyna að kenna hv. þingmanni að skoða og rýna í flutningstölur. Ég trúi því ekki að í kjördæmi hans ræði atvinnurekendur og aðrir ekki um þessi flutningsgjöld eins og gert er í öðrum landsbyggðarkjördæmum þar sem þetta er einn svívirðilegasti og versti landsbyggðarskattur sem á landsbyggðina er lagður.