Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:42:01 (5776)

2004-03-30 14:42:01# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert einkennilegt við það að jarðareigandi sé spurður ef breytingar verða hjá ábúanda sem leigir jörðina, ef hann er t.d. að breyta um búskaparhætti, kannski jafnvel með stórfelldum breytingum. Ég vil leggja þetta alveg að jöfnu við það að hv. þm. Jón Bjarnason ætti nokkrar íbúðir í Reykjavík sem hann leigði út og leigutakinn tæki upp á því að fara bara að byggja við húsið eða íbúðina eða breyta henni á stórfelldan hátt án þess að tala við eiganda íbúðarinnar. Þetta felst líka bara í að varðveita þann rétt sem jarðareigandinn á og þann rétt má ekki taka af honum.

Ég tel að í þessu frv. sé verið að styrkja rétt bæði ábúenda og jarðareigenda.