Byggðakjarnar

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:33:53 (5908)

2004-03-31 15:33:53# 130. lþ. 92.8 fundur 704. mál: #A byggðakjarnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Menn telja að hér sé byggðaáætlun í gangi. Hæstv. ráðherra lýsti því að markvisst væri unnið eftir henni.

Það er rétt sem nokkrir hv. þingmenn hafa vikið að, að haldinn var sérstakur fundur vestur á Ísafirði þar sem sveitarstjórnarmenn óskuðu alveg sérstaklega eftir því að þingmenn Norðvest. mættu vegna þess að þar væri samfelldur samdráttur í opinberum störfum og ekki horfur á öðru en að þjónustustörfum mundi halda áfram að fækka. Í raun virðist hin markvissa byggðastefna felast í því að fækka störfum frekar en hitt.

Virðulegi forseti. Við höfum yfirleitt haldið því á lofti hér á þingi að það bæri að reyna að byggja upp það sem byggðirnar kynnu best. Út frá því ganga Vestfirðingar í sinni sérstöku byggðaáætlun, að sjávarútvegurinn sé besta undirstaðan sem menn geti þar byggt á. En því miður hefur þróunin verið í allt aðra átt í klóm hins slæma kvótakerfis.