Eldisþorskur

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:26:58 (5934)

2004-03-31 18:26:58# 130. lþ. 92.11 fundur 675. mál: #A eldisþorskur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það er fullt tilefni til þess að velta fyrir sér þorskeldinu hér á landi og hvernig það muni þróast á komandi árum en ljóst er að við búum við staðbundna þorskstofna þó að það hafi ekki verið viðurkennt fyrir nokkrum árum síðan. Það er líka alveg ljóst að ef menn ala seiði uppi á landi og færa þau síðan á milli landshluta til eldis er verið að færa til einstaklinga sem ekki hafa alist upp á viðkomandi svæðum og ef þeir sleppa út blandast þeir inn í umhverfi þar sem þeir voru ekki aldir upp og hentar kannski ekki.

Ég vil segja frá því svona til gamans að ég skoðaði seiði vestur í Ísafjarðardjúpi sem alin voru upp í Grindavík og hins vegar seiði sem veidd voru úr Ísafjarðardjúpi og voru í sitt hvoru kerinu. Ég verð að segja alveg eins og er að seiðin sem komu úr Grindavík og voru alin upp af fiskifræðingum voru ákaflega taugaveikluð, hrukku við ef maður kom nálægt kerinu.