Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:02:15 (5974)

2004-04-01 12:02:15# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:02]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er algert lykilatriði að mínu mati að Lánasjóðurinn komi til með að lána fyrir slíkum gjöldum. Hann gerir það hvort sem er núna til þeirra skóla sem taka skólagjöld, þeirra sjálfstæðu skóla.

Það er líka ljóst að skólagjaldaumræðan er mjög stórt og umfangsmikið mál eins og kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Þess vegna áskil ég mér allan rétt til þess að fara vandlega yfir kosti og galla mála sem tengjast skólagjöldum og skólagjaldaumræðunni til þess að reyna að kortleggja betur hvað það kostar fyrir ríkið að heimila töku skólagjalda við Háskóla Íslands. Það er mjög einfalt fyrir mig að leggja málið svona upp því að ég tel ekki rétt af mér að koma hingað og segja að ég vilji skólagjöld þegar ekki er búið að fara vel yfir hvað það kostar um leið fyrir ríkið að leggja á skólagjöld.

Ég ítreka enn og aftur, virðulegi forseti, að það var ekki ég sem hóf þessa umræðu um skólagjöldin heldur hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Hann hóf þá umræðu hér. Ég ætlaði mér að ræða önnur málefni og merk um Háskóla Íslands.