Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:52:52 (6410)

2004-04-15 14:52:52# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það skal upplýst að fjárlagavinna fyrir árið 2005 er löngu hafin. Hún er reyndar langt komin eins og vanalegt er. Hitt er annað mál að á undanförnum árum og áratug hafa Íslendingar verið að reka að sér slyðruorðið varðandi opinbert framlag til vísinda. Þau hafa gert það í stórum stíl. Við vorum mjög neðarlega fyrir tíu árum í alþjóðlegum samanburði. Ekkert land innan OECD hefur bætt sig meira en Íslendingar. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þm. að við megum gera betur, það er vilji margra og ég vona meiri hlutans.

En allur þingheimur verður að muna að það þýðir ekki að eyða sömu peningunum tvisvar. Ef við erum búin að eyða þeim í eitthvað áður þá duga þeir ekki aftur.