Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:14:24 (6980)

2004-04-28 15:14:24# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki get ég sagt að það hafi komið mér á óvart þótt hv. þm. hafi beitt þeim brögðum á ritstjórnarferli sínum sem hann hér lýsir og undirstrika að ekki kemur mér það á óvart.

Ég tel, hæstv. forseti, að hér sé um útúrsnúning af hálfu þingmannsins að ræða. Ég nefndi dæmi í ræðu minni áðan sem ég teldi að sýndi fram á að íslenskir fjölmiðlar í sumum tilvikum setja fram mál sitt með tilliti til hagsmuna eigenda sinna en ég tel ekki að það sé almennt. Og eins og hv. þm. væntanlega veit, rétt eins og sá er hér stendur, er það svo í íslenskum fjölmiðlaheimi, ekki síst á þeim blöðum sem hér hefur verið rætt um, að fjölmiðlamenn, blaðamennirnir, fréttamennirnir hafa mjög gjarnan ekkert um það að segja hvernig fyrirsagnirnar standa.